Hermann Einarsson
Hermann Einarsson
Hermann Einarsson tíundar samgöngumál í Fjallabyggð fyrr og nú: "Nýju Héðinsfjarðargöngin munu hafa jákvæð áhrif á samfélagið í Fjallabyggð og voru forsenda þess að fyrrverandi sveitarfélög á svæðinu sameinuðust í eitt."
NÚ, hinn 3. apríl, verður hátíð í Fjallabyggð vegna Héðinsfjarðarganga. Þá verður haldið upp á þann áfanga að náðst hefur að sprengja göng í gegn milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, alls 3.650 metra leið. Áfram verður unnið að sprengingum milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar, um 6.900 metra leið, og er áætlað að verkinu öllu ljúki í árslok 2009. Verkið er unnið af Háfelli og tékkneska verktakafyrirtækinu Metrostav. Tugir tékka frá Metrostav hafa unnið við göngin og hafa þeir verið afar vinnusamir og þægilegir á allan máta. Á sínum tíma voru samgöngur til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar torsóttar. Úrbót varð árið 1967 þegar Strákagöng voru opnuð til Siglufjarðar og árið 1990 Þegar göng um Ólafsfjarðarmúla voru tekin í notkun. Nú glittir í góða tengingu þessara tveggja byggðakjarna þegar Héðinsfjarðargöng klárast árið 2009. Frá þeim tíma munu íbúar Fjallabyggðar ekki þurfa að reiða sig á Lágheiðina sem á það til að vera ófær eða torsótt nokkurn hluta vetrar.

Mikilvæg byggðatenging

Nýju Héðinsfjarðargöngin munu hafa afgerandi jákvæð áhrif á samfélagið í Fjallabyggð og voru í reynd forsenda þess að fyrrum sveitarfélög á svæðinu sameinuðust í eitt sveitarfélag. Sú sameining hefur gengið vel fyrir sig en mun ekki nýtast að fullu fyrr en göngin verða opnuð. Jarðgöngin munu einnig efla þéttbýliskjarnana við Eyjafjörð sem eitt atvinnusvæði, hafa jákvæð áhrif uppbyggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, en tillögu um slíkan skóla flutti Birkir J. Jónsson alþingismaður og er nýbúið að ráða framkvæmdarstjóra yfir þeirri framkvæmd. Að auki munu göngin hafa mjög góð áhrif á ferðaþjónustuna á Norðurlandi öllu. Nú þegar hefur verið unnið gott starf við að undirbúa samstarf heilbrigðisstofnana á svæðinu og annarra slíkrar þjónustu sem veitt er á Siglufirði og í Ólafsfirði. Ljóst er því að göngin skapa nýtt og langþráð sóknarfæri í byggðamálum Tröllaskagans og Eyjafjarðarsvæðisins.

Eljusamir frumherjar

Árið 1990 lagði frumherjinn Sverrir Sveinsson, Framsóknarflokki, fyrst fram þingsályktunartillögu um jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla. Meðflutningsmenn Sverris að tillögunni voru Halldór Blöndal, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Ragnar Arnalds, Árni Gunnarsson og Pálmi Jónsson. Hafa þessir menn alla tíð stutt göngin af eljusemi. Þótt á engan sé hallað skal einnig nefnt að tveir menn, þeir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, áttu afgerandi þátt í að verkinu var hrundið í framgang. Samgönguráðherrar á hverjum tíma hafa einnig lagt sitt lóð á vogarskálarnar ásamt heimamönnum, nú síðast Kristján L. Möller. Afar góð samstaða er um Héðinsfjarðargöngin í Fjallabyggð og íbúarnir allir hlakka mikið til að sjá þau verða að veruleika. Þess er skammt að bíða.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Fjallabyggð.