Sigurvegarar Þeir sigruðu í Orkugöngu 2008 sem að þessu sinni fór fram á Mývatni, Guðmundur B. Guðmundsson og Stefán Snær Kristinsson.
Sigurvegarar Þeir sigruðu í Orkugöngu 2008 sem að þessu sinni fór fram á Mývatni, Guðmundur B. Guðmundsson og Stefán Snær Kristinsson. — Morgunblaðið/BFH
Eftir Birki Fanndal Haraldsson Mývatnssveit | Orkugangan 2008 fór fram á Mývatni á laugardaginn við mjög erfiðar aðstæður, í stífri austanátt með skafrenningi og fimm gráða frosti.
Eftir Birki Fanndal Haraldsson

Mývatnssveit | Orkugangan 2008 fór fram á Mývatni á laugardaginn við mjög erfiðar aðstæður, í stífri austanátt með skafrenningi og fimm gráða frosti.

Gengnir voru þrír hringir á Syðri-Flóa, 20 km hver eða samtals 60 kílómetrar. Vegna skafrennings varð brautartroðari að fara rétt á undan göngumönnunum og voru tveir troðarar á ferð í brautinni mestallan tímann.

Áætlun mótshaldara hafði verið sú að ganga frá Kröflu um Þeistareyki og Gjástykki og aftur í Kröflu en vegna óveðurs á fjöllum varð ekki við það ráðið en gripið til varaáætlunar og gengið á Mývatni sem fyrr segir.

Að lokinni göngu var farið í Jarðböðin og síðan á Hótel Reynihlíð þar sem úrslit voru kynnt. Sigurvegarar í göngunni urðu þeir Guðmundur B. Guðmundsson og Stefán Snær Kristinsson, báðir frá Akureyri, tími þeirra var sex klukkustundir og níu mínútur.

Orkugangan er samstarfsverkefni Björgunarsveitarinnar Stefáns, Íþróttafélagsins Mývetnings og Landsvirkjunar. Henni er ætlað að stuðla að heilbrigðri útiveru á einstöku skíðagöngusvæði en jafnframt að vekja athygli á mikilli orku þessara jarðhitasvæða. Þetta er annað árið sem gangan fer fram og þótt aðstæður hafi verið einstaklega erfiðar nú fyrir keppendur og starfsmenn er ljóst að Orkugangan er komin til að vera.