Ég var svo heppin að geta sótt tónlistarhátíðina „Aldrei fór ég suður“ í Skíðavikunni á Ísafirði í ár eins og ég hef reyndar gert árlega frá því hún var fyrst haldin, fyrir 5 árum.
Ég var svo heppin að geta sótt tónlistarhátíðina „Aldrei fór ég suður“ í Skíðavikunni á Ísafirði í ár eins og ég hef reyndar gert árlega frá því hún var fyrst haldin, fyrir 5 árum. Hátíðin olli ekki vonbrigðum nú frekar en áður, þvert á móti var þessi sú besta hingað til. Hátíðin stóð í tvo daga, föstudag 21. mars og laugardaginn 22. mars. Fólk á öllum aldri skemmti sér vel, aðgangur var ókeypis og það voru engin slagsmál eða leiðindi núna frekar en endranær.

Upphafið

Árið 2004 var rokkhátíðin haldin í fyrsta skipti að frumkvæði popparans Mugison og föður hans, Guðmundar Magnússonar, hafnarstjóra á Ísafirði. Sjálfur Mugison lýsti tildrögum hátíðarinnar svo í pistli á heimasíðu hátíðarinnar, www.aldrei.is: „Við feðgar vorum að drekka bjór í útlöndum sumarið 2003 og fórum þá að ímynda okkur stórhátíð á Ísafirði þar sem venjulegt fólk væri stjörnurnar og poppstjörnurnar væru í algeru aukasæti. Okkur langaði að bjóða nokkrum vinum úr bransanum vestur og jafnframt langaði okkur að sýna þeim af hverju við feðgar búum á mörkum hins byggilega heims, ástæðan er náttúrlega augljós, fólkið hérna fyrir vestan. Án þess að detta í einhvern þjóðernisrembing þá finnst okkur feðgum samt fólkið hérna með eindæmum skemmtilegt og opið, hér eru allir sérvitringar, allir hafa skoðanir á öllu og okkur fannst hreinlega kominn tími til að minna fólkið sjálft á þessa staðreynd og um leið sýna vinum og kunningjum hversu skemmtilegt það getur verið hérna fyrir vestan.“

Framkvæmd til fyrirmyndar

Hátt í hundrað sjálfboðaliðar buðu fram krafta sína til að starfa að hátíðinni og eflaust hefur það átt sinn þátt í að skapa þann jákvæða anda sem ríkti, allt fór einstaklega vel fram og ölvun var hófleg. Þarna mætti fólk á öllum aldri og naut tónlistarinnar. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar, kallaður rokkstjóri, var Hálfdán Bjarki Hálfdánsson og hann á sannarlega hrós skilið fyrir sína frammistöðu. Það er mjög óvenjulegt að tónleikar gangi jafn snurðulaust fyrir sig og raunin varð vestra. Þegar ein hljómsveit lauk leik sínum tók næsta við án þess að þreyta gesti með endalausum hljóðfærastillingum og töfum. Þá var rokkhátíðin send út í beinni á netinu fyrir þá sem komust ekki á hátíðina og nýtti fólk sér það óspart, bæði hérlendis og erlendis. Þannig gátu þeir sem sóttu hátíðina líka fylgst með framvindunni til að sjá hvenær kæmi að atriði sem þeir voru að bíða eftir.

Dýrmæt viðurkenning

Aldrei fór ég suður hlaut í janúar Eyrarrósina árið 2008, verðskuldaða viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Auk þess heiðurs sem viðurkenningin hefur í för með sér, fylgdi henni töluverður fjárstyrkur sem gerði aðstandendum hátíðarinnar auðveldara að framkvæma hana í ár. Viðurkenningin var dýrmæt og stuðningurinn afar mikils virði. Sá menningarviðburður sem Aldrei fór ég suður er, er einstakur, því hann eflir sjálfsmynd Vestfirðinga og sýnir óumdeilanlega að hægt er að skapa magnaða menningarhátíð á norðurhjara veraldar með því að virkja mannlífið þar. Rokkhátíð alþýðunnar á Ísafirði er öflug áminning til þeirra sem vilja reisa olíuhreinsunarstöð vestra um að það er hægt að fara svo miklu jákvæðari leiðir en þær sem geta ógnað náttúru Vestfjarða um alla framtíð. Aðstandendur rokkhátíðarinnar eiga sannarlega heiður skilinn fyrir framtakið og vonandi verður framhald á um ókomin ár. Frumkvöðlunum hefur tekist það sem þeir lögðu upp með: Að minna fólkið sjálft á að það er einstakt og um leið sýna vinum og kunningjum hversu skemmtilegt það getur verið fyrir vestan.

Höfundur er Vestfirðingur