SÆNSKA ríkið tók í gær tilboði franska áfengisframleiðandans Pernod í Vin & Sprit, áfengisframleiðslufyrirtækið sem lengi hefur staðið til að einkavæða.
SÆNSKA ríkið tók í gær tilboði franska áfengisframleiðandans Pernod í Vin & Sprit, áfengisframleiðslufyrirtækið sem lengi hefur staðið til að einkavæða. Langþekktasta vörumerki Vin & Sprit er Absolut Vodka en Pernod þarf að reiða fram 55 milljarða sænskra króna fyrir fyrirtækið, jafngildi um 711 milljarða króna.

Í samningnum við Pernod er kveðið á um að framleiðsla V&S verði áfram í Svíþjóð þótt Mats Odell, fjármálamarkaðsráðherra landsins, segi ekki hægt að tryggja að svo verði um alla framtíð. Þrátt fyrir það er hann að sögn Dagens Industri sannfærður um að Pernod muni ekki færa framleiðsluna. „Það stendur á hverri einustu Absolut-flösku að innihaldið sé framleitt úr hausthveiti af skánskum ökrum. Það er ekki þeirra hagur að breyta því,“ segir Odell.

Tilboð Pernod þykir mjög hátt en það er 21 sinnum hærra en EBITDA-hagnaður V&S og 5 sinnum hærra en velta félagsins.