Jónas Fr. Jónsson
Jónas Fr. Jónsson
JÓNAS Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að eftirlitið hafi hafið rannsókn á því hvort neikvæðum orðrómi hafi verið dreift með skipulögðum hætti um Ísland og íslensku bankana, í því skyni að hagnast á því.

JÓNAS Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að eftirlitið hafi hafið rannsókn á því hvort neikvæðum orðrómi hafi verið dreift með skipulögðum hætti um Ísland og íslensku bankana, í því skyni að hagnast á því. Financial Times greindi frá rannsókninni í gær.

Jónas segir þessa gagnaöflun standa yfir og síðan verði gögnin metin, og hvort ástæða verði til að leita tilsinnis hjá systurstofnunum FME í nágrannalöndunum. Viðurlög við meintri markaðsmisnotkun af þessu tagi eru allt að sex ára fangelsi, en Jónas bendir á að málið geti lent undir erlenda lögsögu. „Þetta er ekki einfalt mál og sönnunarbyrði getur verið erfið,“ segir Jónas.

Kaupþing íhugar kæru

Aðspurður tjáir hann sig ekki um hvort heimsókn Bear Stearns og fjögurra vogunarsjóða til Íslands í janúar sl. sé til rannsóknar en Kaupþing íhugar að kæra Bear Stearns fyrir þátt bankans í meintu áhlaupi á íslensku bankana, eins og kom einnig fram í frétt FT .

Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Kaupþings, staðfestir að þetta mál sé til skoðunar meðal lögfræðinga bankans. Starfsmenn frá fjárfestingabankanum Bear Stearns og vogunarsjóðunum DA Capital Europe, King Street, Merril Lynch GSRG og Sandelman Partners komu til Íslands í lok janúar sl. og heimsóttu bankana, Fjármálaeftirlitið og fleiri aðila. Í framhaldinu kom m.a. greining frá Bear Stearns sem Kaupþingi þótti vafasöm.