Þórarinn Ævarsson
Þórarinn Ævarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur sia@mbl.is „ÉG SPYR á móti, hvernig er þetta ekki hægt?

Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur

sia@mbl.is

„ÉG SPYR á móti, hvernig er þetta ekki hægt?“ svarar Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, þegar hann er spurður hvernig fyrirtækið ætli að fara að því að standa við loforð um verðöryggi en verð í vörulista IKEA frá því í ágúst 2007 mun ekki breytast þrátt fyrir gengisfall krónunnar.

Hann segir flesta markaði vera með stöðugt gengi en Íslendingar búi við óstöðugt gengi. „Við hjá IKEA leggjumst í smávinnu á hverju vori þegar við reiknum út hvert við höldum að gengið verði. Við reynum að reikna út eitthvert miðgengi, hvað sé líklegt. Frá því í ágúst í fyrra hefur evran verið veikari og krónan sterkari en við áttum von á,“ segir Þórarinn og bætir við að hið sama eigi við um fjöldamörg önnur fyrirtæki í innflutningi. „Á meðan krónan var sterk nutum við þess með meiri framlegð. Núna hallar aðeins á og þá þurfum við bara að bíta á jaxlinn og kyngja því.“

Hann segir að vegna sterks gengis krónunnar hafi framlegðin hjá IKEA verið meiri en búist var við á fyrri hluta tímabilsins og svo hljóti einnig að vera um fleiri fyrirtæki. „Nú, svo er það þannig að við erum með framvirka samninga og erum búnir að tryggja okkur gengið í ákveðinni tölu. Hið sama á við um mjög mörg fyrirtæki í innflutningi sem hafa gert framvirka samninga; hafa keypt evrur eða dollara eða hvaða gjaldmiðil það er sem þau nota,“ segir hann og að IKEA sé þannig búið að tryggja sig að ákveðnu marki. „Svo erum við líka með risastóran lager, sem aðrir eru vissulega með líka. Og við erum með margra mánaða birgðir af ákveðnum vöruliðum. Þar fyrir utan er ég með helling af vöru niðri á kaja sem ég er búinn að tolla og ég er ekkert einn um þetta,“ segir hann með áherslu. „Það sem ég skil ekki, þú spyrð hvernig er þetta hægt og ég spyr á móti hvernig er hægt að hækka, í sömu vikunni og gengið fellur, vöruna um 30%? Það finnst mér miklu meira spurningarmerki.“

Mun fleiri fyrirtæki gætu haldið verðinu óbreyttu

Þórarinn telur mjög líklegt að miklu fleiri fyrirtæki en IKEA gætu haldið óbreyttu verði og að engin ástæða sé til að hækka strax. „Það á aldrei að vera fyrsta ráðstöfun hjá neinu fyrirtæki að hækka verðið,“ segir hann.

Til lengri tíma litið býst Þórarinn ekki við að IKEA muni tapa á því að hækka ekki verðið strax, þvert á móti telur hann að aukinn hagnaður verði hjá fyrirtækinu. „Menn eru búnir að koma fram í fjölmiðlum og gaspra um að þeir þurfi að hækka verðið um 20-30%. Við ætlum hins vegar ekkert að hækka. Þetta mun, held ég, skila sér í aukinni sölu hjá okkur, sem við erum reyndar þegar farin að sjá. Og það má vel vera að ég hagnist minna af hverjum þúsundkalli sem ég sel. En kakan bara stækkar og ég held að ég muni koma út í plús eða á svipuðu róli þegar upp er staðið.“

Þórarinn ítrekar að engin ástæða sé til að hækka verð strax og tekur dæmi til að útskýra innkaupsverð og útsöluverð. „Eins og umræðan er á matvörumarkaði, krónan fellur um 30%, þá er náttúrlega úti á túni að hækka vöruna um annað eins. Innkaupsverð seldra vara er bara brot af útsöluverðinu og sem dæmi er matvara sem keypt er inn á 100 kr. og seld á 500 kr. Jú, jú, krónan fellur um 30% og þá er innkaupsverðið komið í 130 kr.! Þá er að sjálfsögðu engin ástæða til að selja þessa vöru á 800-900 krónur!“

Þórarinn segist verða að taka undir með stjórnmálamönnum og verkalýðsforystunni í gagnrýni á kollega sína. „Mér finnst engin ástæða til að hækka verðið svona hratt. Það má ekki velta öllu beint út í verðlagið. Íslenski neytandinn er bara því miður vanur því að láta valta yfir sig og menn hafa gengið á lagið með það. Þetta myndi aldrei gerast í öðrum löndum en á Íslandi.“