— Morgunblaðið/Valdís Thor
ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ávarpaði fjárfestaþingið Seed Forum Iceland í gær, þar sem fimm íslensk sprotafyrirtæki voru kynnt. Hann sagði nýsköpun og þróun vera helstu vopn Íslands í samkeppni við aðrar þjóðir.

ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ávarpaði fjárfestaþingið Seed Forum Iceland í gær, þar sem fimm íslensk sprotafyrirtæki voru kynnt. Hann sagði nýsköpun og þróun vera helstu vopn Íslands í samkeppni við aðrar þjóðir. Sem iðnaðarráðherra hefði hann þá stefnu að stuðla sem mest að bættri aðstöðu fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki að starfa í.

Þetta væri gert t.d. með samstarfi háskóla og stofnana á borð við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Menntakerfið yrði að útvega þá þekkingu og mannauð sem iðnaður nútímans gerði kröfu um.

Össur sagði ríkisstjórnina leggja mikla áherslu á nýsköpun, framlög til rannsókna- og þróunarstarfs hefðu verið aukin og skattar verið lækkaðir á fyrirtæki. Stjórnvöld þyrftu að sýna ákveðið frumkvæði til að árangur næðist en oftar en ekki næðist góður árangur vegna framkvæmda frumkvöðlanna og hugmynda þeirra. Hlutverk sitt sem ráðherra væri að skapa réttu aðstæðurnar fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki.

Sagði Össur fjárfestaþing sem Seed Forum gefa sprotafyrirtækjum gríðarlega mikilvæg tækifæri á að komast í samband við erlenda samstarfsaðila og fjárfesta.