Kyrrlátt við fjörðinn Hornfirðingar kanna kosti þess að starfa með sunnlenskum sveitarfélögum í stað austfirskra og vilja hag sínum betur borgið.
Kyrrlátt við fjörðinn Hornfirðingar kanna kosti þess að starfa með sunnlenskum sveitarfélögum í stað austfirskra og vilja hag sínum betur borgið. — Morgunblaðið/Sara Sigurðardóttir
Höfn | Sveitarfélagið Hornafjörður hefur hug á að ganga í Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi (SASS) og þar með úr Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi (SSA).

Höfn | Sveitarfélagið Hornafjörður hefur hug á að ganga í Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi (SASS) og þar með úr Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi (SSA). Sveitarfélagið tilheyrir suðurkjördæmi og kannar nú hvort hagsmunum þess sé betur borgið meðal Sunnlendinga.

Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn, hefur sagt samstarf við SSA farsælt en athuga beri hvor kosturinn sé vænlegri.

Búast má við lyktum málsins snemma í næsta mánuði.

„Málefnið um stöðu Hornfirðinga innan SSA hefur komið inn á borð framkvæmdaráðs og stjórnar SSA að beiðni Hornfirðinga,“ segir Þorvaldur Jóhannsson, framkvæmdastjóri SSA. Á fundi sambandsins og forystu Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrr í vor kom m.a. fram að reglulega hafi spurningar vaknað um hvort hagsmunum sveitarfélagsins væri betur borgið í SASS.

Myndi veikja starfsemi SSA

Við kjördæmabreytinguna 1999 hafi Hornfirðingar valið að fylgja suðurkjördæmi og það orðið til að þeir eigi trauðla samleið með öðrum aðildarsveitarfélögum SSA með aðgangi að þingmönnum og ýmsum verkefnum. Þetta setji aðkomu þeirra að Alþingi og ríkisvaldinu í skrítna stöðu í samstarfi SSA.

SSA telur að kjósi bæjarstjórn Hornafjarðar að ganga úr SSA og í SASS muni það veikja starfsemi SSA þar sem sveitarstjórnarmenn á Hornafirði hafi ávallt verið öflugir samstarfsaðilar og útverðir SSA í suðri. Hornfirðinga sé hins vegar valið og með kosningu íbúanna 1999 þegar þeir „kusu“ sig suður megi segja að fyrsta skrefið hafi verið tekið.

Skipulagsreglur og samþykktir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi kveða á um hvernig farið er með úrsögn. Þorvaldur Jóhannsson segist ekki geta leynt vonbrigðum sínum ef verði af úrsögn Hornfirðinga úr sambandinu.

Í hnotskurn
» Sveitarfélagið Hornafjörður hyggst í byrjun júní taka ákvörðun um hvort það kýs fremur að starfa með Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi eða Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Það tilheyrir Suðurkjördæmi.
» Framkvæmdastjóri sambandsins á Austurlandi segir að slík tilfærsla yrði vonbrigði og myndi veikja sameiginlegan samstarfsvettvang sveitarfélaganna á Austurlandi.