— Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÖGUR lokaverkefni við Háskóla Íslands hlutu í gær verðlaun frá Félagsstofnun stúdenta fyrir framúrskarandi gæði. Um var að ræða tvö lokaverkefni í grunnnámi og tvö lokaverkefni í meistaranámi og nam verðlaunaféð 150 þúsund krónum.
FJÖGUR lokaverkefni við Háskóla Íslands hlutu í gær verðlaun frá Félagsstofnun stúdenta fyrir framúrskarandi gæði. Um var að ræða tvö lokaverkefni í grunnnámi og tvö lokaverkefni í meistaranámi og nam verðlaunaféð 150 þúsund krónum. Verkefnin spanna að þessu sinni breitt svið og fjalla m.a. um áfallastreituröskun, kortlagningu sprungna í og norður af Öskju, áhættuhegðun sprautufíkla og stöðu íranskra kvenna. Verkefnastyrkur Félagsstofnunar er veittur þrisvar á ári.

andresth@mbl.is

Fór til Írans

„KONUR alls staðar í heiminum eru kúgaðar. Það er stigsmunur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það,“ segir Halla Gunnarsdóttir um stöðu kvenna í Íran.

Halla fór til Írans í september síðastliðnum og tók viðtöl við þrettán íranskar konur vegna meistararitgerðar sinnar í alþjóðasamskiptum. Markmiðið var annars vegar að varpa ljósi á það hvernig konurnar sjálfar upplifðu stöðu sína í landinu og hins vegar hvernig byltingin 1979 hefði breytt lífi þeirra.

„Hugmynd margra er sú, að fyrir byltinguna [í Íran] hafi þar verið tiltölulega opið og lýðræðislegt samfélag, svo hafi verið gerð bylting og þá hafi allt farið aftur til steinaldar,“ útskýrir Halla og segir að þetta sé mikil einföldun, þar sem fyrir byltinguna hafi ríkt einræði og ekki hafi allar konur haft það gott. „Fyrir byltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltingu segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.“

Þá komst Halla að því að stétt og það hvort konur aðhylltust trúarbrögð hefði mikil áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu og hvernig þær upplifðu stöðu sína.

Konan ber fram te, eiginmaðurinn talar um stöðu kvenna

Það gekk á ýmsu þegar Halla tók viðtöl við konurnar. Hún var ýmist beðin að taka viðtalið ekki upp eða eyða upptökunni og í eitt skiptið svaraði heimilisfaðirinn spurningum um stöðu konunnar meðan eiginkonan bar fram te. „Þetta hljómar eins og hið versta kúgunarsamband, en það var það ekki endilega. Þarna var um að ræða konu sem hafði gifst 15 ára og þau hjónin voru vön að hátta sínum samskiptum svona,“ útskýrir Halla.

„Áhugi minn á Íran kviknaði þegar ég fór þangað árið 2005 og var í einn mánuð,“ segir Halla, sem segir að við ferðina hafi hún fengið „land og þjóð á heilann“.

Brottfluttir Súðvíkingar í meiri andlegum vanda en þeir sem enn búa þar

ÞEIR sem fluttust frá Súðavík í kjölfar snjóflóðsins árið 1995 eru líklegri til að þjást af martröð, depurð, einangrun, tilfinningasveiflum og sektarkennd en þeir sem bjuggu þar áfram eftir flóðin. Þetta er meðal þess sem kemur fram í BA-ritgerð Eddu Bjarkar Þórðardóttur í sálfræði við Háskóla Íslands en hún kannaði áfallastreituröskun hjá þolendum snjóflóðsins.

„Þegar ég athugaði þessa tvo hópa virðist eins og þeim [brottfluttu] liði verr en þeim sem eru áfram á heimaslóðum,“ segir Edda, „og þá var ég búin að taka tillit til þátta eins og missis og alvarleika áfallsins,“ bætir hún við. Aðspurð um ástæður þessa segist hún vera með þá kenningu að með því að lifa áfram á Súðavík í kringum allt sem vekur upp þessar minningar, vinni eftirlifendur úr áfallinu. Í sálfræði sé talað um berskjöldun (e. exposure) í þessu samhengi.

Líðanin breytist ekki

Hlutfall þeirra sem Edda mat með svokallaða áfallastreituröskun er það sama og í rannsókn sem gerð var árið 1996 eða um 18% og eru konur og brottfluttir í áhættuhóp.

Áfallastreituröskun kemur í kjölfar áfalls og einkennist af stöðugri endurupplifun áfallsins, hliðrun frá hugsunum og atburðum, sem tengjast áfallinu, og stöðugum einkennum um ofurárvekni.

47 tóku þátt í könnuninni og átti helmingur enn heima á Súðavík en hinir voru brottfluttir. Dr. Jakob Smári var leiðbeinandi Eddu.

Yfir 80% fíkla endurnýta nálar

„Við gerðum rannsókn á sprautunotkun hjá fíklum á Íslandi,“ segir Jóna Sigríður Gunnarsdóttir um BS-verkefni hennar og Rúnu Guðmundsdóttur í hjúkrunarfræði. „Við vorum að skoða hvernig fólk sprautar sig og áhættuhegðun tengda sprautunotkun,“ en með áhættuhegðun er m.a. átt við það að nota sömu nál oft og að deila nálum með öðrum fíklum. „Áhættuhegðun er mjög algeng, það er alvanalegt að nálar séu endurnýttar og samnýttar,“ segir Rúna um niðurstöðurnar, en samkvæmt þeim endurnýta eða samnýta um 80% fíkla nálar.

Þá sögðust þær báðar telja mikilvægt að aðgengi að nálum yrði bætt og nefndu sérstaklega í því samhengi að þær þyrftu að vera á boðstólum víðar, allan sólarhringinn og vera ókeypis. „Það kom sérstaklega fram í viðtölum að slæmt aðgengi ýti undir áhættuhegðun,“ útskýrir Rúna. Það þurfi að viðurkenna vandann og draga úr skaðanum.

„Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði í verknámi,“ útskýrir Jóna en þær stöllur unnu báðar á áfengis- og vímuefnadeild Landspítalans. Báðar hyggjast starfa á þessum vettvangi í framtíðinni. Leiðbeinandi þeirra í verkefninu var dr. Helga Sif Friðjónsdóttir.

Sprungur í og við Öskju kortlagðar

Ásta Rut Hjartardóttir var verðlaunuð fyrir meistaraverkefni sitt í jarðeðlisfræði, sem nefndist „Sprungusveimur Öskju í Dyngjufjöllum“. Í verkefninu voru sprungur í og norður af Öskju skoðaðar og kortlagðar en sprungurnar marka flekaskilin milli Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans.

Sprungurnar myndast þannig að kvika skýst neðanjarðar, jafnvel nokkra tugi kílómetra og stundum til yfirborðs en stundum ekki. Við þetta rifnar yfirborðið og sprungur á borð við þær hjá Öskju eða Kröflu myndast. En hefur kortlagning þeirra eitthvert hagnýtt gildi? „Maður skilur betur hvernig flekaskilin eru,“ segir Ásta og segir að betur sjáist hvar flest eldgosin verði. Flest gosin á svæðinu verði nálægt Öskju, þannig að kvikan fer nær yfirborðinu við gos undir Öskju en annars staðar.

Þá rannsakaði Ásta líka fallgíga en þeir eru 50 til 150 metrar á breidd og sumir hverjir hundraða metra á lengd og finnast í Kollóttudyngju. „Það virðist myndast holrúm undir svæðinu og jörðin hefur fallið niður um 50 metra og eru veggirnir lóðréttir.“ Leiðbeinendur Ástu voru þeir dr. Páll Einarsson og dr. Haraldur Sigurðsson.