27. júní 2008 | Minningargreinar | 2063 orð | 1 mynd

Sverrir Norðfjörð

Sverrir Norðfjörð fæddist í Reykjavík 17. júní 1941. Hann lést á heimili sínu, að Hrefnugötu 8, á afmælisdeginum sínum, 67 ára gamall. Foreldrar Sverris voru Agnar Norðfjörð, hagfræðingur og stórkaupmaður í Reykjavík, f. 2.12. 1907, d. 19.1. 1982, og Ingibjörg Bernhöft Norðfjörð húsmóðir, f. 22.3. 1911, d. 23.4. 1987. Systkin Sverris eru Kristín Norðfjörð lögfræðingur, f. 27.8. 1942, Ingibjörg Nanna Norðfjörð flugfreyja, f. 3.6. 1947, og Agnar Óttar Norðfjörð viðskiptafræðingur, f. 8.3. 1949. Sverrir átti auk þess einn hálfbróður, samfeðra, Jón Edwald Ragnarsson hæstaréttarlögmann, f. 24.12. 1936, d. 10.6. 1983.

Eiginkona Sverris var Alena Friðrikka Anderlova, arkitekt og kennari, f. í Prag í Tékklandi 21.1. 1945. Foreldrar hennar voru Václav Anderle læknir, f. 4.8. 1914, d. 3.12. 1985, og Marta Anderlova viðskiptafræðingur, f. 11.1. 1914, d. 23.5. 1994. Börn Sverris og Alenu eru a) Sverrir Jan Norðfjörð verkfræðingur, f. 22.3. 1976, kvæntur Bryndísi Pétursdóttur hagfræðingi, f. 5.3. 1976, börn þeirra eru Hákon Jan Norðfjörð, f. 5.9. 2002, og Pétur Wilhelm Norðfjörð, f. 9.5. 2006, og b) Óttar Martin Norðfjörð rithöfundur, f. 29.1. 1980, sambýliskona Eloísa Vázquez Vega málfræðingur, f. 16.3. 1983.

Sverrir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1961 en eftir það lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í arkitektúr við Kunstakademiets Arkitektskole 1964-70. Dvölin þar reyndist gjöful, hann víkkaði sjóndeildarhringinn með námsferðum til Norðurlanda, Rússlands, Tyrklands og Bandaríkjanna og kynntist eiginkonu sinni til 39 ára í skólanum. Sverrir lauk lokaprófi úr skólanum árið 1971 en meðfram náminu vann Sverrir á ýmsum teiknistofum; á Teiknistofu Dans Finks, Kaupmannahöfn 1962-63, Teiknistofunni Höfða sumurin 1965-67 og Teiknistofunni Óðinstorgi sumarið 1968. Eftir útskrift vann Sverrir á Teiknistofu Jeans Fehmerlings í Danmörku og Liechtenstein 1969-73 og Teiknistofunni Höfða 1973-82. Sverrir rak sína eigin teiknistofu, Vinnustofuna Hrefnugötu 8, frá 1982 til dauðadags og teiknaði á þeim tíma fjölmörg einbýlishús, raðhús og parhús víðs vegar um landið auk þess sem Sverrir annaðist flestar skoðunarstöðvar Bifreiðaskoðunar Íslands og teiknaði hina fallegu Seljakirkju.

Þótt Sverrir hafi snemma heillast af arkitektúr, sem og klassískri tónlist sem hann stillti hátt á meðan hann sat við teikniborðið, má segja að helsta ástríðan í lífi hans hafi verið skákin. Hann hóf að tefla ungur og tefldi mikið á námsárum sínum, ýmist á mótum eða í fjölteflum, en Sverrir lagði m.a. Bobby Fischer í einu slíku. Hin síðari ár stundaði Sverrir bréfskák í auknum mæli en þar fann hann loks draumaformið sitt enda var klukkan ævinlega hans helsti óvinur á skáksviðinu. Í bréfskák gat hann aftur á móti eytt dögum í að undirbúa næsta leik en Sverrir vissi fátt skemmtilegra en að sitja með lítið segultaflborð hjá sér og brjóta heilann um hvernig hann gæti fórnað næsta taflmanni. Hin allra síðustu ár byrjaði Sverrir einnig að sækja alþjóðleg skákmót, eins og Politiken Cup og Czech Open, og naut þess að slá á létta strengi með öðrum keppendum á milli skákanna. Það er einmitt glettni Sverris og einstök lífssýn hans sem mun fylgja öllum þeim sem kynntust honum.

Útför Sverris fer fram frá Seljakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi minn og afi okkar.

Síðasti afmælisdagurinn þinn, 17. júní 2008, hverfur okkur seint úr minnum, enda kom skyndilegt andlát þitt að morgni afmælisdagsins þíns okkur öllum að óvörum.

Á stund sem þessari verða minningar nokkuð sem ég leita í. Ég á fjölmargar þegar ég sit á móti þér á teiknistofunni og læri, les eða teikna á meðan þú vinnur. Á uppvaxtar- og skólaárum mínum sátum við þöglir tímunum saman með klassískt undirspil í útvarpinu á meðan þú teiknaðir og ég gerði heimavinnuna mína. Ég rauf þögnina öðru hvoru og spurði um dönsk sagnorð, fjöll á Íslandi eða stafsetningarreglur. Hvað sem ég spurði um hafðir þú alltaf svar á reiðum höndum. Þú vissir hvaða tónverk voru í útvarpinu og þú vissir hvert nýjasta parið í Hollywood var, því það var ekkert í mannlífinu eða umhverfinu sem lét þig ósnortinn eða fór framhjá þér. Þú hafðir áhuga á öllu og öllum og einmitt þess vegna gastu rætt við fólk af öllum stærðum og gerðum, við hvaða tækifæri sem er. Ekki skipti máli þó viðkomandi væri krakki í barnaafmæli eða kona á listasýningu, umræðuefnið gat verið hvað sem er, allt frá íþróttum til pólitískra heimsmála. Þú gafst þér alltaf tíma til að ræða við náungann og að fræðast um skoðanir hans og áhuga. Þú varst alltaf tilbúinn að hlusta og læra eða miðla af eigin reynslu. En alltaf voru samræðurnar þó á léttum nótunum því það var fátt sem þú tókst of hátíðlega og yfirleitt sást þú tilveruna í kímnu ljósi.

Hin síðari ár hafa litlu strákarnir mínir sóst eftir sömu upplifun og ég hafði vanist. Að þeirra mati jafnaðist ekkert á við það að fara á teiknistofuna á Hrefnugötu 8 og sitja í ró og næði með afa Sverri og dunda sér með kubba eða að teikna, svipað og ég gerði á mínum yngri árum.

En nú er teiknistofan tóm. Þar er enginn til að sitja á móti, það er enginn til að svara spurningunum. Þú ert farinn að eilífu og ekkert getur fyllt það skarð.

Það eina sem við getum nú gert er að varðveita lífssýn þína og viðhorf, að taka okkur ekki of hátíðlega og hafa gaman af öllu því sem er umhverfis okkur, að taka lífinu með bros á vör og koma alltaf vel fram við alla í kringum okkur, bæði menn og málleysingja.

Þínir,

Sverrir Jan, Hákon og Pétur.

Elsku pabbi, ég hélt að við fengjum fleiri morgundaga. Ég hélt að við sæjumst aftur á föstudag. En með einu símtali frá bróður mínum var því breytt. Með þremur orðum varð undirstaða lífs míns að sandi og heimurinn málaður svartur.

Það fara svo margar hugsanir af stað við svona sorgarfréttir. Ég hef verið að rifja upp síðustu ár með þér og allt til fyrstu minninga minna. Þær gleðja mig. Þeim tekst samt ekki að yfirskyggja sorg mína. Hvers vegna gat ég ekki vitað að símtalið á mánudag yrði í síðasta sinn sem ég heyrði rödd þína? Ég hefði viljað segja þér svo margt annað, en í staðinn töluðum við um fótbolta, göntuðumst um afmælið framundan, útlandsför ykkar mömmu og heimferð mína og Elo. En kannski er það í lagi. Þannig töluðum við alltaf saman.

Ég skil varla að þú sért farinn, pabbi. Ég bíð eftir því að heyra í bílnum þínum bakka í skotið eða ískrið í vinnustólnum þegar þú snýrð þér. Ég geng upp á efri hæðina til þín, eins og ég hef gert alla mína ævi, og vonast til að sjá þig við vinnuborðið með Gömlu gufuna undir og tikkið í klukkunni á móti. En þú situr ekki lengur þar. Allt svo einkennilega tómt og þögult. Samt hefur nærvera þín aldrei verið svona sterk. Alpahúfan hangandi á horni teikniborðsins, hálfkláraðar teikningar víða og opnar skákbækur sem undirbúa næsta leik.

Mig dreymdi þig í nótt, pabbi, og allt var eins og það átti að vera. Ég var að segja þér frá hugmynd og þér leist vel á hana. Það var einn af fjölmörgum kostum þínum; þú sýndir öllu því sem ég gerði svo einlægan áhuga. Það varst þú sem gafst mér fyrstu heimspekibókina mína. Það varst þú sem last yfir fyrstu ljóðabókina mína. Vegna áhuga þíns hélt ég áfram. Vegna hans geri ég það sem ég geri. Það eina sem ég vildi var að gera þig og mömmu stolt af mér.

Bless pabbi, ég sakna þín svo mikið að mér er illt, en ég veit að vegna þess hvernig þú ólst mig upp og hvernig maður þú varst mun ég læra að brosa á ný. Og þá mun ég hugsa til þín.

Óttar M. Norðfjörð.

Elsku tengdapabbi minn,

ég mun aldrei gleyma því hvernig mér leið á þeirri stundu þegar elsku Alena hringdi og sagði að afi Sverrir væri dáinn. Allt í einu varð allt hljótt og tómarúmið svo mikið og nánast óbærilegt. Líf okkar með elsku Sverri afa er búið og verður aldrei eins. Hvað við hefðum viljað hafa átt meiri tíma með þér.

Hversdagslegar stundir eins og matur á sunnudögum á Hrefnugötunni, þar sem afi beið brosandi í tröppunum og litlir afastrákar kalla á afa sinn og hlaupa til hans, verða að dýrmætum minningum. Afi var alltaf um leið dreginn inn í leikherbergi og þar sátu þeir og léku og unu sér svo vel saman. Ófáum stundum varði líka Hákon Jan við teikningar uppi á teiknistofunni hans afa þar sem hlustað var á „alvörumúsík“ (sem er að sjálfsögðu klassísk tónlist) og spjallað saman. Sverrir talaði oft um það hvað tíminn með börnunum væri mikilvægur og það lærði maður að meta meira með aldrinum.

Þú varst svo einstakur og hafðir svo góða nærveru að það löðuðust allir að þér jafnt ungir sem aldnir. Þú gast spjallað við alla um daginn og veginn og sýndir öllum áhuga. Það var alltaf stutt í spaugið hjá þér og þú fékkst mann alltaf til að hlæja. Ég man þegar þú sýndir mér nýja handfrjálsa búnaðinn þinn heima sem var svo sniðugur að þú gast teiknað og talað í símann á sama tíma. Sá búnaður samanstóð reyndar af þráðlausum síma og gúmmíteygju sem var strengd utan um höfuðið og síminn settur undir, en slík uppátækjasemi einkenndi Sverri. Svo ótalmargar minningar vekja kátínu og fá mann til að fyllast þakklæti yfir að hafa átt þessar ómetanlegu stundir með þér.

Þú varst að fara á eftirlaun og hlakkaðir svo mikið til að fara að minnka við þig vinnuna og eyða meiri tíma með barnabörnunum og í að tefla. Við hlökkuðum líka til að eyða meiri tíma með þér og sérstaklega litlu afasnáðarnir þínir sem elskuðu afa sinn svo óendanlega mikið. Það er stórt skarð í hjarta okkar sem enginn mun fylla. Það eina sem við getum gert er að heiðra minningu þína og læra að lifa án þín. Þín lífsviðhorf og gildi munu halda áfram að leiða okkur í gegnum lífið og berast til barna okkar.

Ég kveð þig með svo miklum trega og söknuði. Minning þín mun ávallt lifa í hjarta okkar elsku tengdapabbi minn.

Þín,

Bryndís.

Elsku hjartans bróðir minn er látinn á 67 ára afmælisdegi sínum. Á erfiðum tíma koma upp í hugann dýrmætar minningar um yndislegan bróður. Alltaf þegar við hittumst eða töluðum saman í síma hlógum við mikið enda höfðum við líka sýn á tilveruna. Við leystum svo sem ekki neinn vanda heldur töluðum um hvað lífið væri dásamlegt og skemmtilegt. Sverrir var stóri bróðir minn sem ég elskaði mikið og leit upp til. Hann var alltaf góður og umhyggjusamur við mig þegar við vorum yngri og ég man ekki eftir rifrildi okkar á milli. Þannig var hann alltaf, vermdi alla með nærveru sinni. Í minningunni var ég leið þegar Sverrir kvaddi og hélt til náms í arkitektúr. Það var langt til Kaupmannahafnar á þeim tíma. Kannski valdi ég mér ung að vera flugfreyja til að geta heimsótt hann, sem ég gerði oft. Þetta voru ógleymanlegar ferðir. Sverrir kenndi mér svo margt á lífsleiðinni, til dæmis að hafa húmor fyrir sjálfum sér og samferðarmönnum, njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða og dæma engan. Einnig kenndi hann mér að við þurftum ekki að eignast allt til þess að vera hamingjusöm heldur að vera ánægð með það sem við höfum. Eitt af áhugamálum Sverris var skákin. Hún átti hug hans allan frá unga aldri og mér fannst stundum nóg komið þegar ég þurfti að keppa um athygli hans þegar hann var sokkinn í skákina. Hann reyndi þó að vekja áhuga minn á skákinni, kenndi mér mannganginn en við sáum fljótt að ég yrði seint skákkona. Sverrir vann sem arkitekt en var þó búinn að tala um að draga úr vinnu því hann væri að verða „löggiltur ellismellur“. Hann hafði hug á að ferðast meira, en hann og Alena höfðu unun af ferðalögum og voru þau nýkomin heim út einni skemmtiferðinni þegar hann lést. Sverrir var mikill fjölskyldumaður og elskaði að hafa ættingjana í kringum sig. Litlu sonarsynirnir voru líf hans og yndi og hann hlakkaði mikið til að fylgja þeim út í lífið. Það er svo margt fleira fallegt sem ég get sagt um bróðir minn en ég læt þetta nægja, það hefði hann viljað – „minna er betra“. Ég sakna bróður míns sárt en hlýjar minningar um hann geymi ég í hjarta mínu.

Elsku Alena, Sverrir Jan, Óttar Martin, Bryndís, Eloísa og litlu afastrákar. Megi góður guð umvefja ykkur í þessari miklu sorg.

Blessuð sé minning Sverris og hvíl þú í friði elsku bróðir.

Nanna systir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.