RANNSÓKNIR Á ÍSLANDI Umsjón: Sigurður H. Richter Melgresið endurvakið Eftir KESÖRU ANAMTHAWAT-JÓNSSON Með jurtakynbótum verður hægt að baka hágæðabrauð úr korni melgresis í framtíðinni.

RANNSÓKNIR Á ÍSLANDI Umsjón: Sigurður H. Richter Melgresið endurvakið Eftir KESÖRU ANAMTHAWAT-JÓNSSON Með jurtakynbótum verður hægt að baka hágæðabrauð úr korni melgresis í framtíðinni. FORSAGA elgresismjöl var sumstaðar notað í bakstur á Íslandi allt fram yfir síðustu aldamót en þá varð innflutt hveiti alls ráðandi. Einnig hafa rannsóknir fornleifafræðinga leitt í ljós mikið af melgresisfrjókornum á stöðum á Nýfundnalandi þar sem talið er að víkingar hafi búið og bendir það til þess að þeir hafi ræktað melgresi. Á Íslandi hverfur notkun á melgresi að öllum líkindum vegna þess hve auðvelt varð í seinni tíð að flytja inn korn erlendis frá og á öðrum norrænum slóðum vegna framfara í kornræktun sem þokuðu ræktun hefðbundinna korntegunda (t.d. hveitis) norður á bóginn.

MELGRESI ER ÍSLENSK JURT

Melgresi (1. mynd) tilheyrir kornfjölskyldunni. Grasafræðinafnið er Leymus arenarius og er á íslensku nefnt melgras, melgresi eða melur. Þessi tegund hefur verið hér frá síðustu ísöld. Heimkynni melgresis eru aðallega Evrópa og Evrasía, frá Síberíu, Rússlandi, Skandínavíu til Íslands, Norður­Bretlands og Grænlands. Einnig er til náskyld norðuramerísk tegund, Leymus mollis eða dúnmelur, sem sáð hefur verið hér nýlega, t.d. í Múlakoti. Melgresið er mjög harðgerð tegund og ræturnar eru duglegar við að binda sanda. Þannig hefur melgresið reynst mjög notadrjúgt við sandgræðslu. Melgresið er fjölært og gefur af sér fræ í mjög ár, án þess að þurfa sáningu árlega eins og bygg eða hveiti. Axið er 12 til 24 sentimetra langt og inniheldur 50 til 100 fræ (korn).

NOTAGILDI MELGRESIS SEM KORNMETIS

Sæmundur Magnússon Hólm ritaði ítarlega um atvinnuhætti á Íslandi á 18 öld. Í ritinu "Rit Þess Íslenska Lærdómslistarfélags, 1781", gefið út í Kaupmannahöfn, er lýsing á aðferðum við uppskeru melgresis, þreskingu og mölun í Vestur-Skaftafellssýslu. Svo virðist sem framleitt hafi verið nógu mikið á þessu svæði svo að engin þörf hafi verið fyrir innflutt mjöl til brauðgerðar. Og margir töldu að gæði melgresismjöls væru mikil.

Með þessa reynslu fyrri alda að leiðarljósi var gerð tilraun til brauðgerðar úr melgresismjöli. Fengin voru nokkur kíló af melkorni frá frætilraunum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í Gunnarsholti. Kornið var skorið upp við Eyrarbakka. Mölun og bakstur fór fram hjá bresku brauðrannsóknarstofnunni í Chorleywood í Suður-Lundúnum. Bresk hveitiafbrigði þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og flest afbrigði eru prófuð hjá þessari stofnun.

Þrjár mismunandi brauðgerðir, A, B og C (sjá 2. mynd), voru bakaðar og í þrem eintökum hver. Eitt brauð af hverri gerð var sent til Íslands samdægurs til bragðprófana en hin voru notuð til mælinga á ýmsum efniseiginleikum. Bragðprófun var framkvæmd hjá matvæladeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og tóku 24 starfsmenn þátt í þeim. Niðurstöður voru mjög jákvæðar. Öll þrjú brauðin reyndust álíka góð (3. mynd). Sumir fundu betra bragð og áferð úr brauði sem innihélt melgresi. Hnetubragð var meðal annars nefnt.

MöGULEIKAR MEð KYNBÓTUM

Baksturstilraunin hefur sýnt fram á að brauðgæði melgresiskorns eru góð. En til þess að nota eingöngu melgresismjöl er nauðsynlegt að kynbæta melgresið svo að brauð úr því lyfti sér eins og brauð úr hveitimjöli. Tvö eggjahvítuefni, glúten og gliadin, eru mikilvæg fyrir brauðgæði. Rannsóknir í erfðatækni og kynbætur á kornjurtum eru komnar mjög langt og er nú hægt að kynbæta sérstaka eiginleika milli tegunda (sem dæmi um þetta hefur sjúkdómavernd verið færð frá byggi til hveitis).

Kortlagning erfðaeinda í korntegundum er líka komin ákaflega langt og nú er algengt að fylgst sé nákvæmlega með erfðaeiginleikum í kynbótatilraunum. Við vitum nú til dæmis hvar erfðaeindirnar eru sem stjórna brauðgæðum í kornjurtum og hvernig þær erfast. En okkar melgresi vantar ekki bara eiginleika tengda brauðgæðum. Melgresiskorn þarf að verða stærra og uppskeran betri. Það er líka nauðsynlegt að halda góðum eiginleikum sem eru ekki til í almennum kortjurtum. Melgresi er fjölær, frjósöm jurt og þolir norðlægt umhverfi eins og á Íslandi.

KYNBÓTAVERKEFNI

Besta leiðin til að ná ofangreindum markmiðum er að víxla saman melgresi og hveiti. Með samstarfi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (RALA) og Cambridge Laboratory (plöntuerfðafræði- og kynbótastofnun) í Bretlandi fengust síðastliðið sumar fyrstu kynblendingarnir. Þeir voru fengnir með víxlunum milli brauðhveitis sem móður og melgresis sem frjókornsgjafa (bæði var notast við íslenskt melgresi og Alaska dúnmel). Slík víxlun getur ekki gerst í náttúrunni en í tilraunum er hægt að bjarga kímunum. Plönturnar vaxa frá kímum á vefjaræktunaræti og þegar plönturnar eru nógu sterkar eru þær fluttar í venjulega mold og leyft að vaxa áfram. Plönturnar vaxa hratt eins og hveiti og eru duglegar að gefa af sér nýja sprota eins og melgresi. Útlit plantnanna liggur á milli foreldrategundanna. Mynd 4 sýnir litningainnihald plantnanna og staðfestir að þær eru ósviknir kynblendingar.

Næsta skref verður að breyta kynblendingunum svo að þeir verði frjósamir og að búa til fleiri kynblendinga til þess að auka erfðabreytileika. Síðan eru tvær leiðir. Annars vegar eru kynblendingarnir kynbættir áfram með úrvali þangað til stofninn er stöðugur. Hin leiðin er að víxla kynblendingum til baka með melgresi til þess að bæta við melgresiseiginleikum fyrir okkar umhverfi.

Allt þetta gæti tekið langan tíma en melgresisræktun gæti bæst við landbúnað á Íslandi og í öðrum norðlægum löndum.

Höfundur er jurtaerfðafræðingur og starfar á Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Myndaskýringar

1. mynd.

Melgresi í Skagafirði. Ljósmynd: Árni Sæberg.

2. mynd.

Brauð úr baksturstilraun. A er 100% heilhveitibrauð, B er brauð með 15% melgresismjöli og C er brauð með 15% melgresismjöli og 5% glúteni (eggjahvítuefnið sem lyftir brauði).

3. mynd.

Niðurstöður bragðprófana (10 = mjög gott, 0 = mjög vont).

4. mynd.

Smásjármynd af litningum kynblendinganna sem eru merktir með flúrljómunaraðferð. Grænir litningar eru frá melgresi og rauðir litningar eru frá brauðhveiti. Litningarnir eru stækkaðir 2500 sinnum.