Annasamt Það var í nógu að snúast hjá stjórnendum Eimskips í gær í starfsstöð félagsins við Sundahöfn. Nú verður reynt að lægja öldur.
Annasamt Það var í nógu að snúast hjá stjórnendum Eimskips í gær í starfsstöð félagsins við Sundahöfn. Nú verður reynt að lægja öldur. — Morgunblaðið/hag
Eftir Björgvin Guðmundsson bjorgvin@mbl.is Stjórn Eimskips telur meiri líkur á að það reyni á ábyrgð félagsins á yfir 200 milljón dollara láni XL Leisure Group þar sem erfiðlega gengur að endurfjármagna lánið.

Eftir Björgvin Guðmundsson

bjorgvin@mbl.is

Stjórn Eimskips telur meiri líkur á að það reyni á ábyrgð félagsins á yfir 200 milljón dollara láni XL Leisure Group þar sem erfiðlega gengur að endurfjármagna lánið. Til að lágmarka áhrifin sem þessi skuldbinding kann að hafa á starfsemi Eimskips ætla Björgólfsfeðgar ásamt fleiri fjárfestum að kaupa ábyrgðina og fresta gjalddaga hennar falli hún á félagið. Með þessu á að tryggja stöðu Eimskips og eyða þeirri óvissu sem hefur verið í kringum fyrirtækið undanfarnar vikur.

Stjórnendur XL Leisure Group munu áfram reyna að endurfjármagna lánið. Það hefur gengið erfiðlega meðal annars vegna erfiðra aðstæðna á lánamörkuðum og krefjandi rekstrarskilyrða flugfélaga.

Landsbankinn veitti kaupendum XL lánið þegar Eimskip seldi það seint á árinu 2006. Björgólfsfeðgar eru stórir hluthafar í Eimskip og Landsbankanum.

Lækkað um 32% á mánuði

Óvissan í kringum Eimskip varð þess valdandi að félagið lækkaði um 8,2% í Kauphöllinni í gær. Veltan nam 30 milljónum króna. Gengið í lok dags var 9,5 en var fyrir ári í kringum 40. Á fjórum vikum hafa hlutabréf í félaginu lækkað um 32,8% og 72,6% það sem af er ári. Markaðsverðmæti Eimskips í gær var tæpir 18 milljarðar króna og hefur það rýrnað um 57 milljarða króna á einu ári.

Eimskip var fært á athugunarlista Kauphallarinnar í gær vegna hættu á að ójafnræði meðal fjárfesta.

Á morgun verður kynnt níu mánaða uppgjör Eimskips. Unnið hefur verið að því að lækka skuldir félagsins og selja eignir eftir taprekstur.

Þeir sem Morgunblaðið ræddi við í gær sögðust ekki búast við stórum fréttum, hvorki slæmum né góðum, þegar uppgjörið verður kynnt.

Í hnotskurn
» Markaðsverðmæti Eimskips hefur rýrnað um 57 milljarða á einu ári.
» Stjórnin hefur hist vegna óvissu í kringum félagið og verður reynt að eyða henni í dag.
» Stjórnendur Eimskips vinna að því að selja eignir og lækka skuldir.