Félag íslenskra stórkaupmanna krefst bættrar samkeppnisstöðu Hlutur verslunar í gjaldeyristekjum var 2,8 milljarðar í fyrra Jöfnun starfsskilyrða milli atvinnugreina gæti þýtt 2-3.000 ný störf KAUPMENN telja að með því að færa samkeppnisstöðu íslenskrar...

Félag íslenskra stórkaupmanna krefst bættrar samkeppnisstöðu Hlutur verslunar í gjaldeyristekjum var 2,8 milljarðar í fyrra Jöfnun starfsskilyrða milli atvinnugreina gæti þýtt 2-3.000 ný störf

KAUPMENN telja að með því að færa samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar til samræmis við aðrar atvinnugreinar og það sem gerist í nágrannalöndunum megi búa til störf fyrir 2-3.000 manns. Í fyrra var hlutur verslunar af eyðslu ferðamanna innanlands 2,8 milljarðar og segir Stefán Guðjónsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna að verslun hafi orðið útundan í umræðunni um vaxandi ferðamannaiðnað. Markmiðið er að ná verslun sem fer fram erlendis inn í landið og leggja áherslu á þriðjalandsviðskipti, það er að selja vöru frá einu landi til annars, annað hvor beint eða með viðkomu hér. Með auknu frelsi í innanlands- og milliríkjaviðskiptum skapist nýir vaxtarmöguleikar sem mikilvægt sé að hlúa að og til þess að svo megi verða beri að létta skattbyrði greinarinnar.

Bent er á að kaupmenn greiði hæsta hlutfall allra atvinnugreina til samneyslunnar, eða 4,35 milljarða króna árið 1992 á meðan sjávarútvegur og iðnaður greiddu rúmlega 2 milljarða og tæplega 2,3 milljarða. Birgir Rafn Jónsson formaður Félags íslenskra stórkaupmanna, FÍS, segir að að hlutfall verslunarfólks af mannafla sé 14,5% sem sé minna en í nágrannalöndunum. Telur hann að það hlutfall gæti verið miklu hærra, í Evrópu sé það um 17% sums staðar og um 20% í Bandaríkjunum. Formaður útbreiðslunefndar FÍS, Haukur Þór Hauksson, segir að umsvif verslunar séu meiri en iðnaðar og útgerðar til samans en veltan fyrir árið 1991 hafi numið 259 milljörðum. Haukur segir að ef verslunin fengi að dafna hindrunarlaust gæti hún skapað störf fyrir 2-3.000 manns. Hann segir hins vegar að skattar og gjöld íþyngi greininni og nefnir sem dæmi að af þeim 400 milljónum sem skattar á skrifstofu- og verslunarhúsnæði muni færa ríkinu á þessu ári megi áætla að verslun greiði 180 milljónir þar af. Eignarskattur muni færa ríkissjóði 1.195 milljónir eða 428 milljónir úr verslunargeiranum. Einnig bendir Haukur á að tryggingagjald verslunar nemi 3,7 milljörðum af 10,7 sem ríkið fái í sinn hlut. Verslun greiði 6,35% tryggingagjald meðan iðnaður og sjávarútvegur greiði 2,85% og í Evrópu sé þetta hlutfall 0,3-2,5%.

Stefán Guðjónsson framkvæmdastjóri FÍS bendir á að hvorki ríkið né samtök kaupmanna eigi að hafa skoðun á því hvernig verslun eigi að þróast, samkeppnin ein segi fyrir um það en til þess að svo megi verða beri að jafna aðstöðu innanlands sem utan. Stefán segir samkeppni vanta í banka- og flutningsstarfsemi en gífurleg mismunun sé á flutningsgjöldum milli atvinnugreina. Hann segir að markmiðið sé að ná verslun sem vitað er að fram fer erlendis inn í landið með því að skapa sömu samkeppnisaðstöðu og leggja áherslu á þriðjalandsviðskipti með því að einblína ekki eingöngu á innanlandsmarkað eða útflutning héðan heldur afla umboða til þess að flytja erlenda framleiðslu milli landa. Segir hann að um 15% þeirra sem skilgreindir séu sem inn- eða útflytjendur stundi slík viðskipti. Til dæmis kaupi eitt fyrirtæki plastkassa í Evrópu og flytji til Bretlands.

Haukur Þór Hauksson segir einnig að stórir hópar af vel menntuðu og hæfu fólki sé að detta út af vinnumarkaðnum og brýnt sé að skapa þessu fólki tækifæri með því að búa til viðunandi rekstrarumhverfi fyrir lítil fyrirtæki svo sækja megi á nýja markaði.

Talið frá vinstri: Haukur Þór Hauksson, Birgir Rafn Jónsson og Stefán Guðjónsson.