Ólafur Lárusson Myndlist Eiríkur Þorláksson Gallerí Einn Einn neðst við Skólavörðustíginn er þá aftur tekið til starfa, eftir að hafa tekið sér góða hvíld frá því fyrir síðustu jól.

Ólafur Lárusson Myndlist Eiríkur Þorláksson Gallerí Einn Einn neðst við Skólavörðustíginn er þá aftur tekið til starfa, eftir að hafa tekið sér góða hvíld frá því fyrir síðustu jól. Margur hefur saknað staðarins, og jafnvel óttast um frekara sýningarhald þar, en það hefur reynst ástæðulaust; framundan mun vera þéttskipuð dagskrá fram eftir árinu. Fyrsta sýningin að þessu sinni er innsetning sem Ólafur Lárusson myndlistarmaður hefur unnið á veggi fremra rýmisins, og gefið hinn óræða titil "Svo lítið ... ". Ólafur hefur lengi verið drjúgur þátttakandi í myndlistarlífinu, haldið fjölbreyttar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Verk hans og hugmyndir hafa oft komið á óvart og leitt af sér fjörugar vangaveltur vegna þeirra tilvísana, sem þar er að finna, og það gildir einnig um sýningu hans hér.

Verk Ólafs eru að þessu sinni gerð úr kunnuglegum efnum; veggirnir hafa verið smurðir smjöri, lambsblóði eða súkkulaði, en trjágreinar og gaddavír síðan fest inn á fletina. Aðrar tilvísanir en áðurnefndan titil er ekki að finna á sýningunni; gestir verða því að eiga allar túlkanir við sjálfa sig, og hver þeirra hlýtur að verða jafngild þeirri næstu.

Öll tengjast þessi efni saman á eðlilegan hátt, þegar betur er að gáð, og má lesa úr á ýmsan hátt. Trjágreinarnar eru tákn þess jarðargróðurs, sem allt líf er sprottið af; gaddavírinn er merki um yfirráð mannsins, eða tilraunir hans til að eigna sér náttúruna og beisla hana sér til hagsbóta. Afurðirnar sem við lifum af koma síðan frá náttúrunni í einni eða annarri mynd, og afurðir gróðurs (súkkulaði) lifandi dýra (smjör) og sláturdýra (blóð) eru helstu flokkar þeirra. Allt er þetta þó aðeins lítill hluti af því sem náttúran getur gefið okkur, því hin andlegu auðæfi lífsfyllingar koma ekki fram hér.

Önnur tilvísun sem eðlilega kemur fram í huga sýningargesta á þessum árstíma snýr að píslarsögu Krists. Blóðið og gaddavírinn geta verið augljós tákn þessa, og trjágreinarnar vísa til þess jarðargróðurs, sem var lagður að fótum meistarans við innreið hans í Jerúsalem.

Fleiri hugrenningar kunna að kvikna á þessari sýningu, en hér skal staðar numið að sinni. Oft er óheppilegt að listafólk láti engar upplýsingar frá sér um þá listhugsun sem býr að baki listsköpuninni, og það heftir sýningargesti við að nálgast verkin; hér gefur þessi upplýsingafátækt gestum frelsi til að nálgast innsetninguna á eigin forsendum, og það getur ekki síður verið mikilvægur þáttur hinnar listrænu upplifunar.

Sýning Ólafs Lárussonar "Svo lítið ..." í Gallerí Einn Einn við Skólavörðustíg stendur til fimmtudagsins 24. febrúar.

Ólafur Lárusson.