Nýsköpun á Íslandi! "Í stuðningi stjórnvalda við nýsköpun í atvinnulífinu er stöðugleiki í verðlagi og gengismálum mikilvægasta framlagið, samfara hóflegri skattlagningu og fjármagnskostnaði fyrirtækja," segir Bragi Hannesson, forstjóri Iðnlánasjóðs í...

Nýsköpun á Íslandi! "Í stuðningi stjórnvalda við nýsköpun í atvinnulífinu er stöðugleiki í verðlagi og gengismálum mikilvægasta framlagið, samfara hóflegri skattlagningu og fjármagnskostnaði fyrirtækja," segir Bragi Hannesson, forstjóri Iðnlánasjóðs í Iðnlánasjóðstíðindum. Staksteinar staldra við grein Braga - sem og frásögn Hagtalna mánaðarins um 8,5 milljarða aukna útlánagetu banka og sparisjóða.

Stefnumörkun stjórnvalda

Bragi Hannesson segir í Iðnlánasjóðstíðindum:

"Mikil verkefni eru framundan við mótun nýsköpunarstefnu á Íslandi, þar sem aðgerðir stjórnvalda þyrftu að vera samræmdar, stefna mótuð um samvinnu og verkaskiptingu milli stofnana, hugað að sameiningu opinberra stofnana og sjóða, athugaðar breyttar áherzlur á opinberum stuðningi við nýsköpun vegna gjörbreytts viðskiptaumhverfis og stuðningur efldur við nýsköpunarstarf fyrirtækja.

Stuðningsaðgerðir stjórnvalda þurfa ekki endilega að kalla á ný útgjöld. Þannig munu aðgerðir, sem lúta að samræmingu, samvinnu og verkaskiptingu stofnana og sjóða efla nýsköpunarstarf. Slík stækkun stofnana og sjóða verður að byggjast á nýjum markmiðum og árangri, sem er virði tilkostnaðarins við breytingarnar."

Eiginfjárstaða fyrirtækja

"Í suðningi stjórnvalda við nýsköpun í atvinnulífinu er stöðugleiki í verðlagi og gengismálum mikilvægasta framlagið, samfara hóflegri skattlagningu og fjármagnskostnaði fyrirtækja. Þessi grundvallaratriði eru fyrir hendi á Íslandi og því ættu stuðningsaðgerðir við fyrirtæki að skila raunhæfum árangri.

Mestu máli skiptir hvaða leiðir eru valdar til þess að efla nýsköpun innan veggja fyrirtækjanna sjálfra. Þar stöndum við frammi fyrir þeim vanda, að íslenzk fyrirtæki eru flest mjög lítil og mörg með veika eiginfjárstöðu. Miðað við þessar aðstæður er mikilvægt, að opinberar stuðningsaðgerðir hafi það markmið að efla og styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna og styðja við innra starf þeirra með ráðgjafarþjónustu."

Skattalegar aðgerðir

"Til þess að ná þessum markmiðum þurfa stjórnvöld að halda áfram að beita skattalegum aðgerðum til að hvetja til fjárfestingar í atvinnurekstri. Almenn þátttaka í atvinnurekstri með hlutabréfaeign er líklegasta leiðin til þess að efla skilning á eðli atvinnustarfsemi og skapa nauðsynlegt aðhald að þeim sem stjórna.

Smæð íslenzkra fyrirtækja er þeim fjötur um fót í nýsköpun og markaðsmálum. Vegna þess skiptir miklu máli að stutt sé við alla viðleitni þeirra til þess að afla sér þekkingar á þessum málum..."

Aukin útlánageta bankakerfisins

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til lækkunar vaxta 29. október sl. var því meðal annars beint til Seðlabankans að endurskoða ákvæði um bindiskyldu og lausafjárkvöð banka og sparisjóða í því skyni að stuðla að lækkun vaxta. Seðlabankinn ákvað síðan 8. nóvember sl. að breyta fyrirkomulagi bindiskyldu- og lausafjárhlutfalls. Bindiskylduhlutfall lækkaði úr 5% í 4% og öllu ráðstöfunarfé öðru en bundnum innistæðum og verðbréfum sem lækkaði úr 5% í 2,5%. Lausafjárhlutfall lækkaði úr 12% í 10% af reiknigrunni lausafjárhlutfalls.

Um þetta efni segir m.a. í Hagtölum mánaðarins:

"Áætlað er að aðgerðir Seðlabanka Íslands í haust hafi aukið útlánagetu innlánsstofnana um 8,5 milljarða króna. Þessi upphæð samsvarar um 5,2% af almennum útlánum innlánsstofnana um síðustu áramót. Lægri bindiskylda og vaxtauppbót jók útlánagetu um 3 milljarða króna. Lækkun lausafjárhlutfalls jók hana um 3,5 milljarða króna, og rýmkun lausafjárkvaðar jafngilti um 2 milljörðum króna. Samfara þessu hafa lántökur banka og sparisjóða í Seðlabankanum minnkað."

Bragi Hannesson, forstjóri Iðnlánasjóðs