Svipmyndir úr sveitum landsins á lýðveldisafmæli Hallgrími Sveinssyni: Hvað sem hver segir, verður því ekki neitað með sanngirni, að það hafa orðið verulegar breytingar til batnaðar á dagskrá Ríkissjónvarpsins, þá mánuði sem Hrafn Gunnlaugsson hefur...

Svipmyndir úr sveitum landsins á lýðveldisafmæli Hallgrími Sveinssyni: Hvað sem hver segir, verður því ekki neitað með sanngirni, að það hafa orðið verulegar breytingar til batnaðar á dagskrá Ríkissjónvarpsins, þá mánuði sem Hrafn Gunnlaugsson hefur haldið þar um stjórnvöl.

Á haustdögum var eins og dagskráin yrði öll léttari, fjölbreyttari og skemmtilegri, þó margt megi auðvitað að henni finna. Efnistök eru önnur og betri en var, þegar á heildina er litið. Það var að vísu fullkomið undrunarefni hvernig Hrafn Gunnlaugsson var settur til starfa við Sjónvarpið á sínum tíma. En hvað um það. Þar hefur orðið breyting til batnaðar. Nema að einu leyti. Og það viðkemur einni af undirstöðum Íslendinga sem frjálsrar þjóðar.

Það er eins og sumu fólki sé ekki sjálfrátt þegar fjallað er um landbúnað hér í fortíð og nútíð. Öfgarnar til og frá eru svo miklar að allt er undir brot og slit. Það er óskiljanlegt með öllu hvernig sumir hafa leyft sér að stilla þessum atvinnuvegi upp við vegg og þeim sem við hann starfa. Auðvitað er ýmislegt að í landbúnaði okkar eins og er meira og minna hjá öllum vestrænum þjóðum, eftir þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa á næstliðnum áratugum. En að íslenskur landbúnaður sé eins óalandi og óferjandi eins og umræðan hefur bent til að undanförnu er að sjálfsögðu fáránlegt og nær engri átt.

Nú ætti Hrafn og hans fólk að gera hér góða bragarbót og framleiða almennilega mynd um íslenskan landbúnað og gæti það verið afmælisgjöf þeirrar stofnunar til íslenska lýðveldisins. Við Sjónvarpið starfar margt fólk sem getur gert þetta sómasamlega og ekki þarf slík mynd að kosta neitt stórfé. Ef engir peningar eru til er þó alltaf hægt að skeyta saman ýmsum myndum úr sveitum landsins, sem Sjónvarpið hefur látið taka á liðnum árum og mætti það verk gjarnan kallast "Svipmyndir úr sveitum landsins á lývðeldisafmæli".

íslenskt bændafólk á það inni hjá þjóðarheildinni að leiðrétt verði sú slagsíða sem orðið hefur í landbúnaðarumræðunni nú um sinn. Það er enginn að biðja um neina lofgjörðarvælu, heldur raunsanna túlkun á ástandi og horfum í íslenskum landbúnaði í dag. Þar verður að sjálfsögðu að segja bæði kost og löst. Hér má vel hafa orð Ara fróða að leiðarljósi eins og oftar: "Hafa skal heldur þat es sannara reynisk".

HALLGRÍMUR SVEINSSON,

Hrafnseyri.

Landbúnaður er ein af undirstöðuatvinnugreinum landins.