Þorsteinn Sævar Jensson íþróttakennari ­ Minning Fæddur 2. júlí 1958 Dáinn 15. febrúar 1994 Mig langar með fáum orðum að minnast vinar míns og fyrrverandi sambýlismanns, Þorsteins Sævars Jenssonar. Það var sumarið 1986 sem við kynntumst. Hann kom þá sem íþróttaþjálfari til Þingeyrar þar sem ég bjó. Samband okkar þróaðist mjög hratt og um haustið fluttist ég með honum til Borgarness þar sem hann starfaði sem íþróttakennari. Þar bjuggum við næstu fjóra vetur en höfðum sumardvöl á Þingeyri þar sem Þorsteinn sá um íþróttastarf barna og unglinga. Haustið 1990 fluttumst við svo til Hafnar í Hornafirði en þurftum fljótlega að hverfa þaðan vegna veikinda Þorsteins.

Það var í byrjun árs 1988 sem Þorsteinn fór að kenna sér meins. Hann fór að fá krampaköst og þurfti að sætta sig við breyttar lífsvenjur. Maður sem lifði og hrærðist í íþróttum gat ekki lengur tekið þátt í þeim á sama hátt og áður, þar sem veikindi hans settu honum takmörk.

Eftir miklar rannsóknir kom í ljós meinsemd við heila sem olli meðal annars krampaköstunum.

Þrátt fyrir veikindin bar hann sig vel, var ætíð bjartsýnn og vongóður um betri tíma. Og aldrei heyrðist hann kvarta yfir örlögum sínum.

Árið 1991 fór hann í geislameðferð sem varð til þess að æxlið lagðist í dvala og þegar tíminn leið vonuðum við og trúðum því að það væri dautt og okkar áhyggjur út af því væru á enda.

En í desember sl. þegar Þorsteinn fór í sitt reglubundna eftirlit kom í ljós að æxlið var farið að vaxa aftur. Í byrjun febrúar veiktist hann svo alvarlega og dró fljótt af honum.

Hinn 15. febrúar öðlaðist hann hinn eilífa frið.

Margrét, Jens, Sigga, Guðmundur og Erlingur, með þessum fátæklegu orðum bið ég guð um að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Þrátt fyrir að við Þorsteinn ákvæðum að slíta samvistum leið okkur ávallt vel í návist hvors annars og þá minningu mun ég ætíð varðveita. Þorsteinn, þakka þér fyrir allt sem við áttum saman, þú munt alltaf vera mér mikils virði. Ég vil trúa því að þú sért núna á stað þar sem þér líður betur, laus við allar þjáningar.

Þín Rakel Ragnarsdóttir.