KARAKAS, höfuðborg Venesúela á þann vafasama heiður að vera höfuðborg morðanna, en þar er mest tíðni morða í heiminum. Í desembermánuði einum voru að minnsta kosti 510 morð framin í borginni.

KARAKAS, höfuðborg Venesúela á þann vafasama heiður að vera höfuðborg morðanna, en þar er mest tíðni morða í heiminum.

Í desembermánuði einum voru að minnsta kosti 510 morð framin í borginni. Samkvæmt skýrslu tímaritsins Foreign Policy er Karakas ekki bara efst á listanum því morð þar voru áberandi fleiri en í þeim borgum sem fylgdu í kjölfarið. Næstu borgir á lista voru Höfðaborg í Suður-Afríku, New Orleans í Bandaríkjunum og Moskva, höfuðborg Rússlands.

Samkvæmt skýrslunni voru framin 130 morð á hverja 100.000 íbúa í Karakas en í borginni búa um fjórar milljónir manna.

„Karakas hefur orðið mun hættulegri en aðrar suðuramerískar borgir á liðnum árum og slær jafnvel út hina alræmdu Bogotá, höfuðborg Kólumbíu,“ sagði í skýrslunni.

Morðin í Karakas eru talin enn fleiri þar sem fjöldi morða kemst aldrei á skrá hjá lögreglu. Ofbeldið í Karakas er talið tengjast fátækt þar sem flest morðin eru framin í fátækrahverfum. Flest þeirra eru framin meðal ungs fólks undir þrítugu og tengjast yfirleitt eiturlyfjum og gengjabardögum.

Frá áttunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda þrefaldaðist fjöldi fátækra en yfirvöld hyggjast berjast af auknu kappi gegn ofbeldi á nýju ári. jmv@mbl.is