Gunnar Örn Sigurðsson gítarsmiður: „Það er ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af smíðum til að koma á námskeiðið.“
Gunnar Örn Sigurðsson gítarsmiður: „Það er ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af smíðum til að koma á námskeiðið.“ — Morgunblaðið/Valdís Thor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nemendur á gítarsmíðanámskeiði Gunnars Arnar Sigurðssonar eru himinlifandi þegar þeir fá gítarinn sinn í hendurnar enda er ólýsanlegt að spila á gítar sem maður hefur smíðað sjálfur.
Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Ég hugsa að það sé ólýsanlegt að spila á gítar sem maður hefur smíðað sjálfur,“ segir Gunnar Örn Sigurðsson gítarsmiður sem leiðbeinir á gítarsmíðanámskeiði hjá Tækniskólanum. „Námskeiðið er haldið í þriðja sinn núna en eftir eitt námskeið er hver nemandi búinn að smíða sinn gítar. Ég er með tvær týpur sem hægt er að smíða, Telecaster og Stratocaster. Námskeiðið fer þannig fram að það er ekki mikið um glósur heldur er kennslan fremur í formi spjalls um gítara og hvernig þetta er gert,“ segir Gunnar Örn og bætir því við að það fari svo eftir viðkomandi nemanda hvort hann geti smíðað annan gítar eftir námskeiðið. „Það fer eftir því hvort nemandinn tekur vel eftir og hvað hann punktar mikið hjá sér.“

Getur verið flókið

Gunnar talar um að það séu helst karlmenn sem sækja námskeiðið en þó hafi ein kona setið fyrsta námskeiðið. „Hún hafði enga reynslu af smíðum en smíðaði frábæran gítar. Það er nefnilega ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af smíðum til að koma á námskeiðið. Reyndar getur smíðin verið flókin en oft er það þannig að það sem maður kann ekki er flókið. Þetta getur því vafist fyrir sumum en það er misjafnt hvernig svona leikur í höndunum á fólki. Í raun er þetta svipað því að spila á gítar, það virkar ekkert flókið þegar menn kunna það en þegar menn eru að læra á gítar getur það verið flókið,“ segir Gunnar og bætir við að námskeiðið sé í rúmlega tvo mánuði eða um 100 klukkustundir. „Það tekur þann tíma að smíða einn gítar frá grunni því við smíðum allt. Nemendur fá fjórar spýtur og úr því verður gítar, tvær spýtur í búkinn og tvær í háls. Allt tréefni er innifalið í námskeiðinu en nemendur þurfa að kaupa „hardware“ og „pickup“ sem eru stilliskrúfur, rafkerfið, hljóðboxið og fleira.“

Fínn hljómur

Námskeiðið er tvisvar sinnum í viku og kennt er frá klukkan fimm til tíu að kvöldi. „Þetta eru mjög frambærilegir gítarar og meira en það. Menn hafa því verið mjög ánægðir með sína gripi en oft eru nemendurnir spilarar í einhverri hljómsveit eða að byrja að spila. Hljómurinn er fínn í gítarnum en það veltur líka á því hvað er keypt í gítarinn. Fyrst og fremst þarf viðurinn að hljóma, hann þarf að hljóma til að geta framlengt yfir í magnara úr „pickup“. En þetta hefur komið vel út og vissulega endurspeglar gítarinn viðkomandi smið því menn eru misjafnlega vandvirkir. Sama hvernig getan er þá eru menn alltaf jafn ánægðir þegar verkinu er lokið og gítarinn tilbúinn. Það er mjög skemmtilegt að upplifa það að hafa smíðað gítar sem er hægt að nota og allt virkar vel. Flestir fá mun meira út úr því en að fara út og kaupa sér gítar.“