<strong>Teikningar grunnskólabarna á Djúpavogi af Hans Jónatan og komu hans til Íslands.</strong>
Teikningar grunnskólabarna á Djúpavogi af Hans Jónatan og komu hans til Íslands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gísla Pálsson gpals@hi.is

Síðla sumars árið 1812 er norskur landkönnuður og kortagerðarmaður, Hans Frisak að nafni, á ferð um Austfirði.

Eftir Gísla

Pálsson

gpals@hi.is

Síðla sumars árið 1812 er norskur landkönnuður og kortagerðarmaður, Hans Frisak að nafni, á ferð um Austfirði. 1 Þann fjórða ágúst skráir hann í dagbók sína stutta frásögn af aðstoðarmanni sínum sem lóðsar hann um fjöll og firnindi:

„Afgreiðslumaðurinn við verslunina hér er frá Vestur-Indíum, ber ekkert ættarnafn ... en kallar sig Hans Jónatan. Hann er mjög dökkur á hörund og er með kolsvart krullað hár. Faðir hans er evrópskur en móðirin negri. Hann var tólf ára gamall þegar hann kom til Danmerkur frá Vestur-Indíum ásamt Schimmelmann landstjóra og tuttugu og eins árs þegar hann kom hingað til lands fyrir sjö árum. 2

Frásögn Frisaks, sem nýlega kom í leitirnar nánast fyrir tilviljun þegar grúskarar á Þjóðskjalasafni báru saman bækur sínar, er eina tiltæka heimildin um komu Hans Jónatans. Samkvæmt henni settist hann að á Íslandi árið 1805, þremur árum eftir að danskir dómarar fyrirskipuðu með frægum og umdeildum dómi að hann skyldi fluttur sem þræll á bernskuslóðirnar í Karíbahafi. Áður var þó vitað að hann tók við stjórn dönsku verslunarinnar á Djúpavogi árið 1819. 3 Saga Hans Jónatans er með ólíkindum, en um leið segir hún merkilega sögu sem á erindi við umræður nútímans um fjölmenningu, kynþáttahyggju, nýlendustefnu og eignarhald á fólki; á margan hátt endurómar hún einnig hræringar sem nú á tímum eru gjarnan kenndar við hnattvæðingu. Fyrir mannfræðing er margt athyglisvert í þessari sögu.

Móðir Hans Jónatans hét Emilia Regina og átti ættir að rekja til Ghana í Vestur-Afríku. Hún var ambátt hjónanna Henriette og Heinrich Ludwig Ernst von Schimmelmann og vann á plantekru þeirra á eynni St. Croix á Jómfrúaeyjum, sem var dönsk nýlenda. Nöfn þrælanna endurspegluðu hefðir dönsku þrælahaldaranna að öðru leyti en því að ættarnöfnum var sleppt; ætternið var aukaatriði og jafnvel lögð á það áhersla að rjúfa þau tengsl sem ættarnöfn jafnan undirstrikuðu. Ekki er ljóst hver var faðir Hans Jónatans, en leiða má líkur að því að sá hafi verið sjálfur heimilisfaðirinn Schimmelmann. Schimmelmannhjónin fluttu til Danmerkur frá St. Croix árið 1789 og settust að í Sct Annæ Øster hverfinu í Kaupmannahöfn að Amaliegade 23, ásamt tveimur ambáttum. Önnur þeirra var Emilia Regina. Hans Jónatan varð eftir á St. Croix, en kom til Kaupmannahafnar nokkrum árum síðar. Samkvæmt íslenskum kirkjubókum kvæntist hann Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi skammt frá Djúpavogi árið 1820 og skömmu síðar fluttist hann ásamt konu sinni að Borgargarði þar sem hann bjó þar til hann lést árið 1827. Þrællinn frá Jómfrúaeyjum var orðinn bóndi uppi á Íslandi, sumpart að hætti Bjarts í Sumarhúsum. Þau Hans Jónatan og Katrín eignuðust tvö börn sem komust á legg, Lúðvík Stefán og Hansínu Regínu, og af þeim er fjöldi manns kominn.

Flutningur þeirra mæðgina Emilia Regina og Hans Jónatans til Evrópu kveikti vonir í brjósti þeirra um frelsi og betri kjör, enda blésu nýir vindar í Evrópu í kjölfar frönsku byltingarinnar. Heinrich lést skömmu eftir heimkomuna til Danmerkur og ekkjan Henriette virðist ekki fyllilega hafa ráðið við sitt lið. Kannski hafði hún alltaf litið á Hans Jónatan sem óþægilegan aðskotahlut. Hann var ekki einungis svartur Schimmelmann, hann var bæði þræll hennar og sonur manns hennar. Þetta fór ekki vel saman, þótt ekki væri það einsdæmi í Danaveldi eða nýlenduheiminum yfirleitt. Þar við bættist að Hans Jónatan var greindur og spurull og hafði lært sitt hvað; hann kaus að fara sínar eigin leiðir, losa sig undan hlekkjum þrældómsins og hasla sér völl í hinum stóra heimi. Henriette leit hins vegar á hann eins og hverja aðra „nýlenduvöru“ sem Schimmelmannfjölskyldan hafði flutt með sér frá St. Croix.

En þrældómur er ekkert grín og Hans Jónatan er nóg boðið. Þann 22. mars 1801 lætur hann til skarar skríða, sextán ára að aldri, kveður móður sína og fer að heiman. Daginn áður virðist hann hafa gefið til kynna að hann hygðist leggja Dönum lið í hernaði þeirra gegn Englendingum, en Henriette léði ekki máls á því. Hún bíður ekki boðanna og samdægurs kærir hún Hans Jónatan – „gulleitan múlatta“ (mulat af en gulagtig Couleur) – og krefst þess að hann verði handtekinn og færður til síns heima að Amaliegade. Með því hefjast söguleg málaferli sem lýkur með umdeildum dómi í Hof- og Stadsret Kaupmannahafnar vorið 1802 sem mælir svo fyrir að Hans Jónatan skuli sendur aftur til St. Croix ásamt móður sinni, sem þræll í eigu Henriette Schimmelmann. 4

Í fljótu bragði mætti ætla að þótt dómurinn yfir Hans Jónatan hafi skipt sköpum í lífi hans hafi hann verið léttvægur, hversdagslegur atburður í Danaveldi. Vera má að dönsku dómararnir hafi gengið til verka sinna fullvissir þess að dómar þeirra hefðu litla þýðingu fyrir síðari tíma, en mál Hans Jónatans átti eftir að draga dilk á eftir sér. Segja má að með uppreisn sinni hafi Hans Jónatan skráð sig rækilega á spjöld danskrar réttarsögu. Bæði er það að dómurinn yfir honum hefur ítrekað verið til umræðu meðal danskra lögspekinga, enda vakti hann grundvallarspurningar um eignarhald á fólki, og svo hitt að saga hans og málsatvik eru nú fastur liður í námsefni í danskri réttarsögu við Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla. 5 Danskir lögfræðingar kunna þess vegna furðu góð skil á sögu Hans Jónatans, a.m.k. Danmerkurdvöl hans.

Kjólar, fólk og aðrar nýlenduvörur

Um 1800 voru tugir blökkumanna búsettir í Kaupmannahöfn og voru flestir þeirra þrælar frá Vestur-Indíum eða afkomendur þeirra. Danskir þrælahaldarar höfðu hagnast á þrælasölu og ræktun sykurreyrs í nýlendunum og mikill áhugi var fyrir því í Danmörku að fá þetta fólk og auðæfi þess heim. 6 Réttindi þrælanna og skyldur voru hins vegar óljós og sum ágreiningsmál urðu aðeins leyst með dómi. Tvö prófmál árið 1801 mörkuðu djúp spor í þessum efnum og var annað þeirra mál Henriette Schimmelmann gegn Hans Jónatan. Vandinn var sá að lög um eignarhald á fólki frá dönskum nýlendum voru fremur óskýr í kjölfar þess að þrælahald var afnumið í Danmörku, auk þess sem tíðarandinn var ört að breytast þar eins og víðast annars staðar í Evrópu.

Þótt þrælahald hafi verið afnumið í Danmörku viðgekkst það enn um skeið í dönskum nýlendum. Þegar þrælahaldararnir fluttu heim til Kaupmannahafnar ásamt „húsþrælum“ sínum þurfti því að skera úr um hvor skyldu vega þyngra dönsk lög eða hefðirnar í nýlendunum. Gátu menn ráðskast með fólk eins og aðrar „eignir“? Dönsk tilskipan frá 1792 bannaði flutning þræla landa á milli, en hún átti ekki að taka gildi fyrr en áratug síðar. Henriette Schimmmelmann mátti því vita að kæmi hún ekki Hans Jónatan í verð í nýlendunum áður en árið 1802 var á enda væri það um seinan. En nú var óhægt um vik þar sem stráksi hafði hlaupist á brott og skráð sig í danska sjóherinn. Henriette leggur tvívegis fram kæru hjá lögreglu Kaupmannahafnar á hendur Hans Jónatan, segir hann hafa stolið einhverjum munum frá sér og krefst þess að hann verði handtekinn. Kröfum hennar er ekki sinnt, en um síðir tekst henni með aðstoð fógeta að fá Hans Jónatan handtekinn. Þann 31. maí árið 1802 er dómur upp kveðinn. Í vitnaleiðslum þurfti að skera úr um hvort húsþrælarnir sem voru kallaðir til vitnis hefðu hlotið skírn, annars væri ekki um persónur að ræða í lagalegum skilningi. Vissulega átti það við um Hans Jónatan.

Að öðru leyti snerust réttarhöldin um eignarréttarhugtakið, notkun þess og þýðingu. Verjandi sakbornings benti á að þótt ekki væri vitað hver væri faðir Hans Jónatans væri ljóst að um frjálsan hvítan mann væri að ræða og því væri krafa Henriette um eignarrétt byggð á hæpnum forsendum. Lögmaður Henriette svaraði því hins vegar til að faðernið væri málinu óviðkomandi. Hans Jónatan hefði fæðst sem þræll þar sem móðir hans hefði verið ambátt og því væri eignarhald Henriette hafið yfir allan vafa. Rétturinn féllst á það. Skipti þar litlu að Friðrik krónprins hafði ritað bréf til stuðnings Hans Jónatan, minnugur ágætrar frammistöðu hans í sjóorustu við Englendinga.

Ekki var þó loku fyrir það skotið að eignarrétturinn hefði rýrnað við flutning þrælsins til Danmerkur. Sækjandi málsins hélt því fram að það væri eins með þræla frú Schimmelmann og kjóla hennar, að þótt færa mætti sönnur á að þeir væru keyptir annars staðar félli eignarrétturinn ekki úr gildi þegar þeir væru fluttir til annars lands. Dómararnir voru sammála í niðurstöðum sínum en þá greindi á um forsendur dómsins og því er málið enn á dagskrá meðal danskra lögspekinga. Sumir töldu eignarréttinn óhaggaðan, en aðrir vísuðu til laga um forræði yfir vinnufólki og hjúum. Einn atkvæðamesti dómarinn, A. S. Ørsted, var reynslulítill, rúmlega tvítugur að aldri, og virðist hafa séð sig um hönd síðar á ferli sínum. Meirhluti dómaranna úrskurðaði að frú Schimmelmann hefði eignast Hans Jónatan í samræmi við vestur-indískan rétt, handtaka hans hefði verið lögmæt og eigandanum væri frjálst að flytja þrælinn aftur til Vestur-Indía. Hans Jónatan komst hins vegar undan og sigldi til Íslands á vit frelsisins.

Frjáls maður

Hans Jónatan var enginn venjulegur þegn. Það orð fór af honum í Danmörku að hann væri óróaseggur og til alls vís ef hann gengi laus, bein ógnun við danska ríkið. Sérstakar ráðstafanir voru gerðar af lögreglu Kaupmannahafnar til að grennslast fyrir um hann. Hann virðist hins vegar hafa horfið með öllu af sjónarsviði danskra yfirvalda eftir að dómurinn umdeildi hafði verið kveðinn upp. Í ítarlegri grein frá árinu 1964 eftir Knud Waaben prófessor í lögum við Hafnarháskóla, sem rekur dóminn og forsendur hans, segir að nánast ekkert sé vitað um afdrif þrælsins annað en það að hann hafi ekki skilað sér til St. Croix þegar hálft ár var liðið frá dómnum. 7 Fregnir af Íslandsdvöl hans berast ekki, að því er virðist, til Danmerkur fyrr en löngu eftir að hann er genginn á vit feðra sinna, í lok tuttugustu aldar. Það kom í hlut eins af afkomendum Hans Jónatans, Helga Más Reynissonar, að segja Waaben frá því fyrir nokkrum árum að Hans Jónatan hefði flust til Íslands þar sem hann hefði stofnað fjölskyldu og gerst gegn og mætur þegn. Annars eru fáar heimildir til um manninn, lítið um hann vitað og fátt um hann skrifað. Sennilega hefur umfjöllun Stefáns Jónssonar vakið meiri athygli á honum en nokkuð annað. 8

Þrælasala Evrópumanna á átjándu öld var forneskjuleg starfsemi. Um leið fól hún í sér vísi að því sem nú er kennt við hnattvæðingu. Hans Jónatan er ágætur fulltrúi hnattvæðingar síns tíma, hann fór víða, talaði nokkur tungumál og lagaði sig að aðstæðum hverju sinni, bæði sem þræll og frjáls maður. Fyrir honum hafa Austfirðir eflaust verið nýr og framandi heimur, en ekki er annað að sjá en hann hafi verið fljótur að semja sig að íslenskum siðum. Þótt Íslendingum hafi sjálfsagt í fyrstu orðið starsýnt á þennan aðkomumann er alls ekki sjálfgefið að þeir hafi einblínt á hörundslit hans þrátt fyrir að danskir þrælahaldarar hafi lýst honum sem „negra“ eða „múlatta“. Hermt er að Hans Jónatan hafi verið vinsæll og boðið af sér góðan þokka. Stefán Jónsson segir að á Austurlandi hafi „þótt fremd í því að geta rakið ættir til Hans Jónatans og fólk hafi komið því að „af stoltri ljúfmennsku“. Niðjar hans efndu til ættarmóts á Stöðvarfirði og Djúpavogi árið 2002 og var það fjölsótt. Ekki er annað að sjá en að á Íslandi hafi Hans Jónatan notið sín sem frjáls maður, óbundinn af merkimiðum nýlendukerfisins sem tóku mið af hörundslit og uppruna.

Heimildir:

1. Snævarr Guðmundsson 1999. Þar sem landið rís. Reykjavík.

2. Hans Frisaks dagbøker 1810-1815. Filma 82 a II. Bókasafn Oslóarháskóla.

3. Ingimar Sveinsson 1989. Djúpivogur: 400 ár við voginn. Djúpivogur.

4. Generalmajorinde Henriette de Schimmelmann contra mulatten Hans Jonathan 1802. Landsover, samt Hof- og Stadsretten. Transskription af dokumenter fra pådømte sager. Nr. 356/1801.

5. Amalie G. Thystrup 2008. Dansk retshistorie. Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla. (Lokuð vefsíða).

6. Alex Frank Larsen 2008. Slavernes slægt. Kaupmannahöfn.

7. Knud Waaben 1964. A. S. Ørsted og negerslaverne I København. Juristen 321-343.

8. Stefán Jónsson 1987. Að breyta fjalli. Reykjavík.

Þakkir eru færðar nemendum Grunnskóla Djúpavogs fyrir teikningar, Björk Ingimundardóttur og Snævari Guðmundssyni fyrir lestur á dagbókum Hans Frisaks, og Agli Þór Níelssyni og Rannveigu Lárusdóttur fyrir aðstoð við heimildir.

Höfundur er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands

„ Hvernig var’ann á litinn?“

Á haustdögum árið 2008 gerði ég mér ferð til Djúpavogs, meðal annars í því skyni að ræða við grunnskólanemendur um Hans Jónatan. Ég sagði þeim lauslega frá ferli mannsins, móðirin hefði verið frá Ghana og faðirinn frá Danmörku, hann hefði fæðst og slitið barnsskónum á Jómfrúaeyjum og mig langaði að biðja þau að reyna að gera sér í hugarlund hvernig hann hefði litið út, jafnvel teikna fyrir mig myndir af honum. Engin mynd væri mér vitanlega til af Hans Jónatan og þeirra hugmyndir væru eins góðar og hugmyndir annarra. Nemendur báðu mig umsvifalaust að lýsa honum: „Hvernig skyldi hann hafa verið á litinn?“ Ég gætti þess að láta enga skoðun í ljós, enda var ég að fiska eftir þeirra skoðunum. Einn nemandi benti á það kankvís á svip að ef svörtu og gulu væri blandað saman ætti niðurstaðan að vera græn?“ „Allt í lagi,“ sagði ég, „hafðu manninn þá grænan!“ Myndir barnanna sýna töluverða fjölbreytni. Kannski endurspegla þær fjölmenningarsamfélag samtímans.

Annar var mórauður, hinn sauðsvartur

Ég hafði allan minn heiður af Jónatan,“ segir Kristín Sigfinnsdóttir í Sjólyst á Djúpavogi eftir afa sínum, en Katrín Antoníusdóttir viðhafði þessi orð um fyrri mann sinn Hans Jónatan. Til er lítil falleg þjóðsaga á Djúpavogi um það hvernig Hans Jónatan náði í konuna sína, selstúlkuna Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi. Hans Jónatan og annar verslunarstarfsmaður fengu sér gönguferð inn á Búlandsdal einn fagran sunnudag að sumarlagi, en selið frá Hálsi var á Búlandsdal austan ár og sér enn móta fyrir rústum þess. Þeir hittu tvær ungar stúlkur í selinu. Þeir dvöldu þar lengi dags og komu trúlofaðir til baka. Ég hef heyrt þá sögu að þegar Hans Jónatan kom inn á Búlandsdal hafi Katrínu þótt slæmt að hún var í ósamstæðum sokkum. Annar var mórauður, hinn sauðsvartur.

Árið 1820 giftast Hans Jónatan og Katrín – „sem enn fór orð af í bernsku minni í fjögurra kynslóða fjarlægð fyrir glæsileika og mannkosti“, segir Stefán Jónsson í bók sinni Að breyta fjalli . Katrín og Hans Jónatan eignuðust tvö börn, Lúðvík Stefán og Hansínu Regínu. Afkomendur þeirra eru margir og dreifðir um heiminn, en ekki fengu þau að eiga saman nema sjö ár. Hans Jónatan varð bráðkvaddur árið 1827.

Anna María Sveinsdóttir, afkomandi Hannesar og Hans Jónatans

Ættarmót í tilefni 200 ára afmælis réttarmorðs

Hinn 16.-17. júní 2002 var haldið á Djúpavogi og Stöðvarfirði ættarmót afkomenda Hans Jónatans og Katrínar Antoníusardóttur. Vel á annað hundrað ættingar söfnuðust saman til að minnast forfeðra sinna og einnig til að minnast þess að 200 ár voru liðin frá því að Hans Jónatan var af dönskum dómstóli dæmdur til þrælkunar – þó svo þrælahald væri bannað í Danmörku. Afkomendur þeirra Hans Jónatans og Katrínar eru rúmlega 500 og dreifðir um allan heim. Fyrsta dag ættarmótsins var farið um heimaslóðir þeirra hjóna á Djúpavogi og um kvöldið var kvöldvaka ásamt því að það nýjasta í ættarsögunni var kynnt. Á öðrum degi var haldið til Stöðvarfjarðar þar sem sett hafði verið upp sýning með þeim gögnum sem fundist höfðu um réttarhöldin ásamt myndum af afkomendum. Þar flutti einnig danski rannsóknarblaðamaðurinn Alex Frank Larsen erindi um sögu Hans Jónatans og deilur þær sem risu í Danmörku vegna dómsins yfir honum – sem þekktir lögfræðingar hafa kallað réttarmorð. Allt ættarmótið var kvikmyndað af kvikmyndatökuliði frá danska sjónvarpinu sem tók upp atburðinn. Hann var síðar sýndur í danska og íslenska sjónvarpinu undir nafninu Slavernes slekt. Síðar hafa komið út tvær bækur um sögu hans, önnur byggð á sjónvarpsþáttunum og hin söguleg skáldsaga.

Helgi Már Reynisson