Nóg að gera Gunnar hefur unnið hljóð fyrir sautján stuttmyndir á rúmum tveimur árum.
Nóg að gera Gunnar hefur unnið hljóð fyrir sautján stuttmyndir á rúmum tveimur árum. — Morgunblaðið/ Halldór Kolbeins
Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is MAÐUR heldur að maður sé búinn að kortleggja nokkurn veginn hvaða landar manns eru í heimsókn hér á rivíerunni þegar maður heyrir skyndilega nýja íslenska rödd á barnum.

Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

MAÐUR heldur að maður sé búinn að kortleggja nokkurn veginn hvaða landar manns eru í heimsókn hér á rivíerunni þegar maður heyrir skyndilega nýja íslenska rödd á barnum. Hún tilheyrir Gunnari Óskarssyni, fyrrverandi gítarleikara í Stjörnukisa, sem er staddur hér út af því að hann sá um hljóðhönnunina í einni af stuttmyndunum sem sýndar voru í opinbera prógramminu hér í Cannes, By the Grace of God eftir búlgörsku leikstýruna Ralitzu Petrovu.

„Ég flutti til London fyrir sex árum þegar Stjörnukisi fór í frí og sótti um og komst inn í National Film and TV School í Beaconsfield á Englandi árið 2006. Þaðan útskrifaðist ég svo með MA í hljóðhönnun í apríl 2008,“ segir Gunnar mér um hvernig hann leiddist út í að hanna hljóðheima kvikmyndanna. Venjulega þarf að vinna hljóð fyrir þrjár stuttmyndir til að útskrifast en eftirspurnin eftir Gunnari var svo mikil að myndirnar urðu sjö og alls hefur hann nú unnið hljóð fyrir sautján stuttmyndir á rúmum tveimur árum. Þessar myndir hafa svo ferðast á kvikmyndahátíðir á borð við Sundance, Karlovy Vary, Locarno, Edinburgh og Clermont.

Óljós mörk

En hvernig hófst samstarf hans og Petrovu hinnar búlgörsku? „Hún var á árinu fyrir neðan mig og kom til mín og spurði hvort ég væri til í að vinna myndina hennar. Þetta er nokkuð sérstök mynd að því leyti að hún er algjör skáldskapur en hefur element af heimildarmynd; maður veit aldrei hvar maður hefur hana. Sum atriðin voru skotin með falinni myndavél, það voru sjö hljóðrásir og því mjög flókin hljóðvinnsla.“

Gunnar segir raunar mörkin á milli hljóðvinnslu í kvikmyndum og þess að semja kvikmyndatónlist verða sífellt óskýrari. „Ég hef unnið nokkuð í því sem kallast „musical sound design“. Það er hljóðhönnunarstíll sem er að verða sífellt vinsælli og kemur oft alveg í staðinn fyrir eiginlega kvikmyndatónlist. Nýlegt dæmi er myndin hans Lars Von Trier, Antichrist , þar sem öll hljóðrásin er unnin af hljóðhönnuðinum. Þar eru tónlistarelementin unnin úr hljóðum, elektróník, feedbacki, röddum og stafrænni meðhöndlun hljóða í hljóðforritum. Þetta er stíll sem hefur þróast frá tilraunakenndum myndum frá leikstjórum á borð við David Lynch og svo seinna í myndum Ridleys Scotts, sbr. Blade Runner þar sem Vangelis sá um elektróníska/ambient tónlist sem sat meira til baka en áður hafði þekkst og varð stærri hluti af stemningu og landslagi myndarinnar. Margir telja að þetta sé framtíð kvikmyndatónlistar, þar sem tónlistin og tónlistar-frumelement koma frá hljóðum í myndinni sjálfri og áferðarmiklum hljóðelementum en er ekki „hlaðið ofaná“ eins og venjan hefur verið, sérstaklega þegar mikið er notað af strengjum og stórum sinfónískum útsetningum.“

Það er margt í bígerð hjá Gunnari en alls óvíst hvað er næst á dagskrá. Oftast myndast ákveðið teymi í gegnum samstarf við stuttmyndir og flestir leikstjórarnir sem Gunnar hefur unnið með eru að reyna að koma mynd í fullri lengd á koppinn. „Svo er bara að veðja á hver verður fyrstur úr startholunum.“