Óvænt Niðurstöður óformlegar könnunar í flughöfninni í Kastrup leiddi í ljós að efnahagskreppan yfirgnæfir afrek þjóðarinnar á öðrum sviðum.
Óvænt Niðurstöður óformlegar könnunar í flughöfninni í Kastrup leiddi í ljós að efnahagskreppan yfirgnæfir afrek þjóðarinnar á öðrum sviðum.
Eftir Ingvar Örn Ingvarsson ingvarorn@mbl.is Íslendingar hafa undanfarið verið vanir því að vera mikið á faraldsfæti og liggur leiðin þá oft um flugvöllinn í Kastrup í Kaupmannahöfn.

Eftir Ingvar Örn Ingvarsson

ingvarorn@mbl.is

Íslendingar hafa undanfarið verið vanir því að vera mikið á faraldsfæti og liggur leiðin þá oft um flugvöllinn í Kastrup í Kaupmannahöfn. Fyrir aðeins nokkrum mánuðum prýddu veggi flughafnarinnar auglýsingar frá íslenskum útrásarfyrirtækjum og verslunum í eigu Íslendinga. Þær eru nú farnar fyrir löngu þótt enn sjáist auglýsingar frá flugfélaginu Sterling, sem nú reyndar gengur undir nafninu Cimber Sterling eftir nýlega uppstokkun og enn ein eigendaskiptin. Blaðamaður átti leið um flughöfnina á dögunum og þótti af því tilefni tilvalið að spyrja aðra ferðalanga um viðhorf þeirra til Íslands, nánar tiltekið hvað væri það fyrsta sem fólki dytti í hug þegar Ísland væri nefnt á nafn.

Nokkur vonbrigði

Það var nokkuð auðvelt að gera hagnýtan samanburð á þessari óformlegu könnun og eldri viðhorfum útlendinga þar sem blaðamaður hefur undanfarin ár umgengist mikið af erlendu fólki og iðulega spurt fólk hvort það þekki til Íslands eða hafi komið þangað. Í gegnum tíðina hefur verið hægt að sjá ákveðið þekkingarmynstur hjá erlendu fólki hvað Ísland varðar. Fólk sem er um og yfir fertugt nefnir t.d. iðulega tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur en yngra fólkið nefnir frekar hljómsveitirnar Sigur Rós eða Múm. Sigur Rós virðist reyndar hafa náð ótrúlegri útbreiðslu og hefur blaðamaður t.d. hitt konu frá Istanbúl sem hafði meira að segja Sigurrósarhúðflúr á öxlinni.

Þá þekkja Danir, og reyndar Þjóðverjar líka, vel til íslenska hestsins en að auki hefur blaðamaður rekist á þýska stúlku sem vissi allt um Nonna og Manna vegna sjónvarpsþáttanna sem sýndir voru í þýsku sjónvarpi. Þá hafa breskir þegnar iðulega minnst á náttúru landsins en hún virðist höfða sérlega mikið til þeirra.

„Finanskrisen“

Í flughöfninni í Kastrup voru niðurstöður könnunarinnar hins vegar mikið litaðar af atburðum síðustu mánuða. Nánast allir Danir sem voru spurðir hvað væri það fyrsta sem þeim dytti í hug þegar Ísland væri nefnt nefndu „finanskrisen“ eða efnahagskreppuna alræmdu.

Ekki varð unað við þá niðurstöðu og voru því fleiri spurðir þangað til annað svar fékkst og loksins, þegar búið var að ganga á sex manns, fundust tvær ungar stúlkur sem nefndu Íslendingasögurnar. Það kom undirrituðum á óvart þar sem hann hafði fastlega búist við því að einhver nýmóðins hljómsveit yrði fyrir valinu. Nei, þegar allt kemur til alls eru það Íslendingasögurnar sem enn hefja okkur til vegs og virðingar.

Ennfremur má vera ljóst af þessari óformlegu könnun að það er ekki bara sjálfsmynd Íslendinga sem er í molum heldur hefur ímynd lands og þjóðar líka beðið hnekki. Líklegast er lærdómurinn sá að erfitt er að gera garðinn frægan á hverfulli sviðum lífsins eins og viðskiptum og listum en þegar það tekst þá límist það í minni þeirra sem þekkja eitthvað til landsins svo um munar og skiptir þá litlu hvort það er að góðu eða illu. Jafnvel festist orðspor landsins svo rækilega í hugmótum fólks að jafnvel ein mesta hneisa sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir megnar ekki að skyggja á Íslendingasögurnar, ef nógu oft er spurt það er að segja.