10. júní 1979 : „Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði og raunar víðar um landið hefur lagt mikið af mörkum í sambandi við ýmis hagsmunamál sjómanna.
10. júní 1979 : „Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði og raunar víðar um landið hefur lagt mikið af mörkum í sambandi við ýmis hagsmunamál sjómanna. Þar munar mest um hið gífurlega átak, sem gert hefur verið í málefnum aldraðra og ekki má gleyma sumarbúðunum í Grímsnesi.

Á hinn bóginn er því ekki að leyna, að sá mikli skuggi hvílir yfir þessum sjómannadegi, að vinnustöðvun hefur verið á farskipaflotanum um margra vikna skeið og engar verulegar líkur á, að úr rætist í bráð. Jafnframt er svo komið vegna mikilla olíuverðshækkana að grundvöllurinn er brostinn undan útgerðinni, en ný fiskverðsákvörðun hefur látið á sér standa. Fyrir þessar sakir horfir nú svo sem allur fiskiskipaflotinn stöðvist á morgun.

Vissulega er kreppan vegna olíuverðshækkana utanaðkomandi. En það breytir þó ekki því, að áfallið verður meira en ella vegna þeirrar óstjórnar, sem verið hefur.“

11. júní 1989 : „Sú skoðun hefur lengi verið uppi, að ein af forsendum þess að skapa mætti hér heilbrigðara efnahagslíf væri sú, að draga úr þátttöku og áhrifum ríkisins í fjármálakerfinu. Á meðan ríkisvaldið væri svo áhrifamikið í bankakerfinu væri ekki hægt að búast við því, að útlánastefna bankanna markaðist eingöngu af sjónarmiðum heilbrigðs atvinnurekstrar. Þess vegna er ástæða til að fagna því sérstaklega, að ríkisstjórnin hefur nú undirritað samkomulag um að selja einn ríkisbankanna til einkaaðila.

Í annan stað er augljóst, að þessi kaup einkabankanna og fyrirhuguð sameining þeirra fyrir mitt næsta ár styrkir mjög stöðu einkarekstrar í fjármálakerfinu. Hingað til hafa einkabankarnir verið of litlir og þess vegna ekki haft burði til þess að takast á við meiriháttar verkefni í atvinnulífinu. Nú verður til einkabanki, sem nálgast Landsbankann að stærð. Sú staðreynd á eftir að hafa áhrif í atvinnulífi hér á næstu árum.“