Eyðimörk Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ítekað varað við lífsskilyrðum í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak þaðan sem flóttafólkið á Akranesi kom síðastliðið haust.
Eyðimörk Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ítekað varað við lífsskilyrðum í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak þaðan sem flóttafólkið á Akranesi kom síðastliðið haust.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvar finnurðu steikjandi sumarhita, reglubundna sandstorma og eyðimörk með snákum og sporðdrekum? Bættu svo við þunnum tjöldum og ískulda á vetrum – og þú gætir verið í Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak. Flóttafólkið sem flutti á Akranes síðastliðið haust kom frá Al Waleed.

Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur

sigridurv@mbl.is

Hvernig er að búa í tjaldi í eyðimörk um hásumar og komast hvergi í skjól undan brennandi sólinni?

Hitinn er lamandi, ætlar alla að kæfa, hér er engan skugga að fá. Ljósgulur sandurinn er eins og glóandi kol en inni í tjaldinu er enn heitara, nærri 50°C. Sól er hátt á lofti en á samt enn eftir að rísa hærra. Getur ekkert skyggt á hana?

Kannski að sandstormur geti dregið ský fyrir sólu. Hann veitir þó ekki mikið skjól heldur – fínn sandurinn fyllir öll vit, smýgur inn í tjöldin, inn undir fötin, ofan í lungun, kæfir þá sem húka inni í þunnum tjöldum með slæðu fyrir vitunum. Og bíða. Bíða eftir að storminn lægi, bíða eftir að komast í burtu úr einskismannslandinu. Einhver hlýtur að heyra um neyð þeirra og láta sig hana varða. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur þegar allt kemur til alls ítrekað varað við lífsskilyrðum í Al Waleed. Þetta eru ómanneskjulegar aðstæður, svæði sem engan veginn er fallið til búsetu.

Ískaldar nætur

En kannski eru viðbrögðin við neyðinni lítil sem engin. Sandurinn í stundaglasinu rennur hljóðlega niður, rennur saman við sandstorma, vikur verða að mánuðum og mánuðir að árum. Steikjandi sumarhitar víkja fyrir nístandi vetrarkuldum. Þá skjálfa tjaldbúarnir í eyðimörkinni og skríða undir teppi, en það er sama hversu teppin eru mörg, þeim hitnar ekki.

Næturnar eru verstar. Ísköld nóttin er óralöng og virðist aldrei ætla að víkja fyrir morgunbirtunni. Endalaus skjálftinn þreytir en það er of kalt til að ná að festa blund. Einn veturinn snjóar meira að segja í Al Waleed og tjöldin falla saman undan snjóþunganum. Kuldinn nær inn að beini og börn með bláar varir velta fyrir sér hvort fólki geti í alvörunni orðið kalt á beinunum. Hvort er betra að kafna úr hita eða frjósa úr kulda?

Til Akraness

Einu sinni í mánuði kemur starfsfólk Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í eyðimerkurbúðirnar. Einstaka sinnum eru sendinefndir frá öðrum löndum með þeim – einn daginn frá Íslandi. Þeim Línu, Aydu, Manal, Fatin, Narjis, Sawsan, Abeer og Wafa er boðið að flytja á Akranes ásamt börnum sínum. Börnin eiga kost á framtíð, í Al Waleed er engin framtíð.

En sendinefndirnar eru fáar. Áhugi stórþjóðanna ekki nægur, pólitískur vilji ekki til staðar. Börnunum með bláu varirnar er hins vegar sama um allt heimsins skrifræði eða skrýtnar útskýringar á því af hverju þau eiga ekkert heimaland – þau vilja bara komast í burtu.

Í Al Waleed eru ekki sinni milljónir af fólki. Í tjöldunum hírast rétt um 1500 manns. Væri viljinn til staðar mætti leysa búðirnar upp strax á morgun. Ef Ísland með sína 300.000 íbúa gat tekið 29 manna hóp, hvað ættu Bandaríkin þá að geta tekið marga? Bretland? Þýskaland? Ástralía? Spánn? Einhver? Heyrir einhver í mér af þeim sem réðust á Írak?

Sá sem hírst hefur í tjaldi í eyðimörk í þrjú ár getur ekki annað en spurt sig. Öskrað sig hásan. Verst að það heyrist ekki út úr sandflæminu.

Sprengingar og mannshvörf

Rowaydu Falah grunaði ekki að hún myndi eignast sitt fyrsta barn búandi í tjaldi. Hún er systir hennar Línu sem flutti á Skaga. Lína er 29 ára gömul og Rowayda 26 ára.

Reyndar grunaði þær systur heldur ekki að þær ættu eftir að upplifa sjálfsmorðssprengingar og mannshvörf. Hvað þá að þær myndu neyðast til að segja skilið við lífið í borginni og enda í tjaldi í eyðimörk – eða að önnur færi alla leið til Íslands.

Í Bagdad áttu þær heimili – fallegar stofur með fallegum munum, hús með þaki og þykkum veggjum. Í borginni fóru börnin í skóla, foreldrar í vinnu; á helgum voru ættingjar heimsóttir, kannski skroppið í skemmtigarð. Lífið gekk sinn vanagang og líf í þunnu tjaldi var jafnólíklegt og að sólin kæmi einn dag upp í vestri en ekki austri.

Það var þá. Síðan breyttist allt – árið 2003. Sex árum síðar hefur Rowayda upplifað meira ofbeldi en hún vill vita af. Sex árum síðar er hún flúin frá Bagdad og flutt inn í tjald.

Lífið í Al Waleed er þrautaganga en allt er betra en ofsóknirnar í Bagdad. Of margir hafa verið drepnir í kringum Rowaydu til að hún treysti sér til að dvelja áfram á heimili sínu. Sumu er erfitt að gleyma – sumt verður ef til vill aldrei hægt að komast yfir.

Staðfastar þjóðir fjarlægðu Saddam Hussein vorið 2003 án þess að hafa úthugsaða áætlun um hvað ætti að koma í staðinn. Vopnaðir öfgahópar fylltu fljótlega tómarúmið – hópar sem sumir hverju vildu palestínska flóttafólkið í burtu, þetta væri ekki þeirra land. Saddam var farinn, hann hafði verndað þau í Írak – nú skyldu þau í burtu sömuleiðis. Áður en lögleysan og ringulreiðin hófst höfðu þau hins vegar átt ágætis líf í Írak.

Fjögurra daga gömul

Daginn sem ég smeygi mér inn í tjaldið hennar Rowaydu með bréf og myndir frá Línu systur hennar á Íslandi, situr hún og gefur ungbarni brjóst. Undan hvítu teppi glittir í agnarsmátt höfuð með mikið svart hár. Þetta er lítil stúlka, fædd fjórum dögum áður.

Móðirin situr á fallegu rúmteppi skreyttu gulum og bláum blómum. Við hliðina á rúminu er vagga. Á tjaldstöng hanga bleik plastblóm en á tjaldvegginn hefur verið saumað plakat með mynd af strönd og pálmatrjám. Litla fjölskyldan hefur lagt sig í líma við að gera líf í tjaldi eins eðlilegt og mögulegt er. Klæðast samanpressuðum fötum og hafa fínt í tjaldinu sínu. Halda reisninni.

Þegar komið var að því að fæða litlu stúlkuna hossaðist Rowayda í næsta þéttbýli: 160 kílómetra í burtu. Þó ekki til að finna borg með hátæknisjúkrahúsi, heldur heilsugæslu í 25.000 manna bæ, Rutbah. Rutbah er vestasti bærinn á leiðinni frá Bagdad til Damaskus í nágrannaríkinu Sýrlandi – fjarri byggðum bólum. Svona um það bil á enda veraldar. Al Waleed er við sama þjóðveg – enn dýpra inni í eyðimörkinni, flatneskjunni, endalausu landflæminu. Næsta sjúkrahús er 400 kílómetra í burtu frá flóttamannabúðunum.

Litla stúlkan fæddist klukkan sex á föstudagsmorgni og seinna sama dag hossaðist móðir hennar til baka alla 160 kílómetrana, inn í tjaldið sitt. Í Al Waleed er lítil heilsugæsla sem er opin frá klukkan 10-13 og 17-19 en þar skortir allan aðbúnað. Bráðadeildin er á stærð við meðalsvefnherbergi á Íslandi.

„Rutbah er svo langt í burtu héðan – fólk gæti verið dáið þegar það loksins kemst alla leið þangað!“ segir læknirinn í Al Waleed, Jakob Yusef, og ranghvolfir í sér augunum. „Svo erum við ekki einu sinni með sjúkrabíl hérna.“

Yusef bendir á að það sé ekkert sem segi að fæðandi konur í Al Waleed nái endilega að fara í tæka tíð alla leið til Rutbah, hvað þá á almennilegt sjúkrahús.

Tvöfaldur flóttamaður

Daginn eftir að litla stúlkan fæddist var sterkur sandstormur í Al Waleed og ekki hægt að sjá út úr augum. Rowayda stundi, enn dauðþreytt eftir fæðinguna. Gat ekkert gert annað en vafið stúlkuna sína í teppi, mörg teppi, og vonað að veðrið skánaði. Vonað að tjaldfestingarnar losnuðu ekki í vindhviðunum. Að tjaldið legðist ekki saman. Ekki einu sinni enn.

Beðið inni í tjaldi – beðið eins og venjulega, hvenær myndi hún losna héðan, myndi hún einhvern tímann fá lausn sinna mála? Hún var þegar búin að hírast í tjaldi í tvö ár. Upplifa tvö steikjandi sumur og tvo ískalda vetur.

Litla stúlkan stóð af sér fyrsta sandstorminn en það koma fleiri stormar og fleiri vetur. Foreldrarnir eru áhyggjufullir. Hvað verður um hana, hvað verður um þau, hvernig gerðist það að ríkið Ísrael var stofnað í miðri Palestínu? Hvernig stóð á því að Palestínumönnum var útskúfað úr Írak? Hvernig meðhöndlar maður ungbarn í tjaldi?

Sú litla er alls grunlaus um áhyggjur foreldra sinna og drekkur mjólkina hraustlega. Hún hefur ekki hugmynd um að hún er fædd flóttamaður. Tvöfaldur flóttamaður. Þriðju kynslóðar flóttamaður frá Palestínu að reyna að koma sér í burtu frá Írak.

Á flótta frá Palestínu, á flótta frá Írak. Undarlegt? Enn undarlegra er að stúlkan kemst ekki í burtu frá landinu sem útskúfaði henni: Hún er föst í Írak – vegabréfslaus eins og allir hinir Palestínumennirnir og kemst því ekki yfir landamærin. Hún mun alast upp langt frá næsta byggða bóli, ef frá er talin bandarísk herstöð nærri búðunum, en þangað má hún heldur ekki fara.

Í eyðimörkinni geta írösku Palestínumennirnir verið í friði fyrir ofbeldinu í Bagdad, ofsóknunum gegn þeim – haldið lífi.

Verst að í eyðimörkinni er ekkert líf.

Fædd ríkisfangslaus

En stúlkan veit það auðvitað ekki ennþá. Hvernig ætti lítið barn líka að skilja það sem fullorðnum reynist erfitt að botna í?

Hún veit ekki enn að hún er fædd ríkisfangslaus – að það er ekkert land í veröldinni sem hún getur gert tilkall til og sagt: hér á ég heima, þetta er mitt, ég er þegn í þessu landi með öllum þeim réttindum og skyldum sem því tilheyra. Sú litla getur ekki verið í Írak og kannski mun hún aldrei geta farið til Palestínu – ekki meðan sjálfstætt ríki Palestínu hefur ekki enn verið stofnað, áratugum eftir að átti að gera það.

Jafnvel þótt slíkt ríki verði einhvern tímann stofnað á hernumdu svæðunum á Vesturbakkanum og Gaza þá er borg ömmu hennar og afa, Haifa, langt inni í Ísrael í dag. Munu hún og fjölskyldan fá að fara þangað aftur eða er húsið þeirra að eilífu horfið inn í ríki sem þeim er meinað að búa í – ríki sem þau mega ekki einu sinni heimsækja?

Litla stúlkan opnar annað augað, grætur örlítið og drekkur síðan meira – alls grunlaus um að hún er strandaglópur í eyðimörk, peð á pólitísku taflborði. Hún hefur ekki hugmynd um alla hina landlausu Palestínumennina, eða árásina árið 2003 sem átti að frelsa Íraka en færði Palestínu-Íraka á hinn bóginn í fjötra. Hvað þá bjölluna sem hangir í mötuneytinu í bandarísku herbúðunum með áletruninni „Let Freedom Ring“.

Enginn póstur í eyðimörk

Seinni daginn sem ég hitti nýfæddu stúlkuna í Al Waleed hringir gemsi í tjaldinu hennar. Þetta er móðursystirin Lína, hringjandi af Akranesi. Hún vill vita allt um þá litlu, vita hvernig gangi, vita hvort umslagið sem ég tók með frá Íslandi komst til skila – það er engin póstþjónusta í einskismannslandinu.

Ég fæ gemsann í hendurnar og við Lína ræðum málin. Systur Línu fylgjast stoltar með símtalinu. Lína þeirra flutti til Íslands ekki alls fyrir löngu en er farin að tala það góða íslensku að við getum auðveldlega spjallað saman í síma.

Allt í einu verður tengingin á milli Al Waleed og Íslands nánast yfirþyrmandi. Sagan of lifandi. Kunnugleikinn í framandleikanum of mikill. Systur Línu eru sláandi líkar henni – þetta gæti raunar verið hún þarna í eyðimörkinni. Það var eftir allt saman hér sem hún hírðist í nærri tvö ár eftir háskalegan flótta frá Bagdad. Það þarf ekkert smávegis hugrekki og viljastyrk til að takast á við slíkt. Rífa sig svo upp frá eftirlifandi fjölskyldumeðlimum og halda mörg þúsund kílómetra í norðurátt.

Í heimabæ mínum, á Akranesi, höfum við Lína setið og spjallað klukkutímum saman í vetur. Í fjörunni rétt fyrir neðan íbúðina hennar skellur Atlantshafið á Langasandi en í hina áttina ber Akrafjall við himin. Á köldum vetrardegi er gott að sitja í stofunni hjá Línu og horfa á snjókomuna út um gluggann. Hugurinn hvarflar ósjálfrátt yfir hafið, til gluggalausra tjaldanna í Al Waleed.

Aðstæðurnar eru gjörólíkar en þegar öllu er á botninn hvolft er eyðimörkin einungis einu símtali frá ísnum – og Lína hinum megin á línunni. Ættingjarnir eru eftir, strand í sandi. Vonlitlir velta þeir fyrir sér hvort þeir sjálfir munu enn vera þarna eftir eitt ár, fimm ár, tíu. Munu þeir einhvern tímann sjá dætur sínar og systur aftur? Munu fleiri lönd gera eins og Ísland og taka fólk frá Al Waleed?

Kossar til Íslands

Það er tilfinningaþrungin stund þegar kveðjurnar frá Akranesi berast í tjaldbúðirnar. Systir Fatin biður fyrir kossa og kveðjur, systkini Wafa tárast, ættingjar Manal sömuleiðis, mágar og frændsystkini Línu – dóttir Aydu.

Dóttir? Elsta dóttir Aydu varð eftir í Al Waleed því hún er gift og íslenski hópurinn samanstóð eingöngu af einstæðum mæðrum og börnum þeirra. Dóttirin Sama var hins vegar einungis 17 ára þegar móðir hennar fékk boð um að koma til Íslands, ásamt yngri systkinum hennar, Ahmed sem þá var 15 ára og Aseel 11 ára. Faðir barnanna lést nokkrum árum áður. Móðirin Ayda stóð frammi fyrir vali um áframhaldandi líf í eyðimörkinni ásamt öllum börnunum sínum – eða för til Íslands þar sem tvö af þremur ættu kost á framtíð án sandstorma og sporðdreka, kost á menntun og lífi án sprengjutilræða og líflátshótana.

Ayda spjarar sig vel á Íslandi en engan skyldi undra að hugurinn er hálfan daginn hjá elstu dótturinni og tengdasyninum unga. Hvernig er veðrið í Al Waleed í dag? Var Sömu kalt í nótt? Hvað verður um þau?

Þegar ég kveð Sömu í Al Waleed biður hún fyrir stóran koss til móður sinnar og systkina, marga kossa, öll heimsins faðmlög, hjartans kveðjur.

Síðan laumar hún að mér litlum böggli til að taka með heim til fjölskyldunnar á Íslandi. Kveðju úr einskismannslandinu.

S&S

-Hvernig stendur á því að fólkið er Palestínumenn en samt frá Írak?

Flóttafólkið í Al Waleed – og hópurinn sem endaði á Akranesi – eru Palestínu-Írakar. Þau eru fædd og uppalin í Írak en eru annarrar, þriðju og fjórðu kynslóðar palestínskir flóttamenn.

-Af hverju endaði fólkið í Írak?

Fyrstu Palestínumennirnir í Írak komu þangað eftir að hafa flúið borgina Haifa þegar Ísraelsríki var stofnað árið 1948. Haifa sem áður hafði tilheyrt Palestínu varð nú hluti af Ísrael. Palestínumenn sem bjuggu á svæðinu dreifðust víðsvegar og um 5.000 þeirra enduðu í Írak. Flestir töldu að þeir yrðu í Írak einungis stutta stund – þeir hlytu að endurheimta aftur heimili sín í Haifa. Síðan liðu sextíu ár og Palestínumennirnir og afkomendur þeirra eru enn í Írak.

-Hvernig var Palestínumönnum tekið í Írak?

Palestínska flóttafólkið fékk niðurgreidda húsaleigu og aðgang að ýmsum opinberum störfum. Saddam Hussein hélt verndarhendi yfir því. Ósáttir Írakar dirfðust ekki að setja sig upp á móti því sem þeir sáu sem sérréttindi palestínsku flóttamannanna. Flóttafólkið fékk á hinn bóginn ekki ríkisborgararétt í Írak og hafði því hvorki ríkisborgararétt í Írak né í Palestínu.

-Af hverju hófust síðar ofsóknir gegn þeim í Írak?

Daginn eftir að Saddam-stjórnin féll – í apríl 2003 – var mörgum Palestínumönnum gert að yfirgefa húsnæði sitt. Í lögleysunni og ringulreiðinni sem jókst síðan jafnt og þétt hófust skipulegar ofsóknir öfgahópa sjíta-múslíma gegn Palestínumönnum – þeir skyldu burt úr Írak. Sjítum hafði lengi verið haldið niðri af Saddam Hussein og sumir þeirra horft löngunaraugum á hlutskipti palestínska flóttafólksins.

Ný ríkisstjórn Íraks breytti lögunum um Palestínumenn þannig að nú þurfa þeir að endurnýja landvistarleyfi sitt á tveggja mánaða fresti, þótt þeir hafi búið í Írak alla sína ævi. Ferlið er ógagnsætt og getur tekið marga daga.

Vegabréfslausir og ríkisfangslausir hafa flóttamennirnir ekki getað komið sér yfir landamærin og í burtu. Margir enduðu því úti í eyðimörkinni nálægt landamærum Sýrlands og Jórdaníu þangað sem þeir sóttu frið fyrir ofsóknunum.

Honey Nut Cheerios í eyðimörkinni

Nærri Al Waleed-flóttamannabúðunum er bandarísk herstöð. Það er þar sem ég gisti ásamt starfsmönnum Flóttamannastofnunar SÞ. Ég get valið um margar tegundir af gosi, margar tegundir af muffins og skóflað í mig snakki að vild. Langar mig ef til vill heldur í Honey Nut Cheerios eða örbylgjupitsu?

Ég á erfitt með að velja, hugurinn er í tjöldunum nokkra kílómetra frá. Strákarnir í eldhúsinu skellihlæja og velja fyrir mig: Pasta með rækjum. Ég sest niður undir bandaríska fánanum og glápi annars hugar á sjónvarpið. Miðað við tjöldin í Al Waleed eru bandarísku bíómyndirnar og allur innflutti maturinn, fluttur sérstaklega til Íraks alla leið frá Bandaríkjunum, út úr kú. Eða kannski er það bara ég sem er út úr kú.

Tölvuleikir og vídeó

Ég maula múslístöng í eftirmat og velti fyrir mér hvort hermennirnir séu allir í alvörunni 18 ára eða hvort þeir líti bara út fyrir að vera það. Þetta er eins og að vera í skólaferðalagi.

Strákarnir á næsta borði reynast vera 21 og 22 ára og segjast ýmist spila tölvuleiki á kvöldin sér til dundurs eða horfa á vídeó. Allt hefur verið með kyrrum kjörum hér um nokkurra mánaða skeið og lítið fyrir hermennina að gera annað en að vakta At Tanf-landamærastöðina rétt hjá.

Fyrst eftir innrásina voru sýrlensku landamærin galopin og bandarísk stjórnvöld kvörtuðu yfir því að erlendir bardagamenn streymdu til Íraks í gegnum Sýrland. Nú hefur allt eftirlit verið hert og hver sá sem fer yfir landamærin þarf að fara í gegnum augnskanna og ítarlegt eftirlit.

Ég býð strákunum í mötuneytinu góða nótt og er strax komin með valkvíða um hvort ég eigi að fá mér beyglu, kók, beikon eða egg í morgunmat daginn eftir.

29 konur og börn til Íslands

Frá því að tjöld byrjuðu að hrannast upp í Al Waleed í desember 2006 hafa samtals farið þaðan 187 flóttamenn til 6 landa:

Til Svíþjóðar: 54

Til Noregs: 48

Til Íslands: 29

Til Danmerkur: 26

Til Hollands: 24

Til Frakklands: 6

Flóttamannastofnun SÞ hefur lýst yfir ánægju með móttöku hópsins á Íslandi og verkefnið fengið margvíslega athygli á alþjóðavísu.

Stofnunin bindur vonir við að Bretland bjóði til sín 28 manna hópi á næstunni, sem og að Bandaríkin taki við stórum hópi. Enn er 1531 í Al Waleed.

Þar sem fólkið í Al Waleed er vegabréfslaust getur enginn í búðunum yfirgefið þær og farið sem flóttamaður til annars lands án utanaðkomandi hjálpar.