[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimsmeistari í minni, Ben Pridmore, 32 ára bókhaldari frá Derby, er aðeins 30 sekúndur að leggja röð spilastokks á minnið og klukkutíma 26 til viðbótar. Sem þýðir að hann man og getur þulið upp nákvæmlega röð 1.

Heimsmeistari í minni, Ben Pridmore, 32 ára bókhaldari frá Derby, er aðeins 30 sekúndur að leggja röð spilastokks á minnið og klukkutíma 26 til viðbótar. Sem þýðir að hann man og getur þulið upp nákvæmlega röð 1.404 spila, sem stokkuð hafa verið af handahófi. Fyrir vikið varð hann heimsmeistari í The World Memory Championship 2008, rétt eins og 2004 og 2006, en keppnin hefur árlega verið haldin síðan 1991. Samt segist Pridmore iðulega ganga inn í herbergi og steingleyma erindinu, opna ísskápinn og furða sig á að hverju hann sé að leita. Að eigin sögn er hann líka frægur fyrir að gleyma nöfnum og andlitum fólks.

Hann bar fyrir sig minnisleysi þegar hann á dögunum mætti of seint til fundar við fréttamann fréttavefjar BBC. Honum þótti afsökun heimsmeistarans þó frekar slök, einkum í ljósi þess að skömmu síðar var hann aðeins 10 mínútur að leggja á minnið röð spilanna í 7 spilastokkum, utan reyndar að honum fipaðist einu sinni í upptalningunni á 364 spilum.

Pridmore hefur margoft sýnt og sannað að minni hans er óbrigðulla en flestra. Hann hefur komið fram í sjónvarpi og þulið upp röðina í spilastokki á 26,28 sekúndum, einnig lagt á minnið 819 tölustafi á korteri og tveggja stafa tölur með samtals 4.140 tölustöfum á hálftíma. Hann segir hæfileikann velta á að þjálfa minnið og slíkt útheimti alls ekki að menn séu snillingar að eðlisfari, sjálfur telur hann sig ekki í þeim hópi. „Hugsið í myndum vegna þess að heilinn man myndir betur en nokkuð annað,“ ráðleggur Pridmore.

Þótt tækni þeirra sem keppa í minni sé mismunandi, byggist hún yfirleitt á að breyta upplýsingum í myndir. Pridmore hefur þróað kerfi með ólíkum myndum fyrir hverja hugsanlega samsetningu tveggja spila, sem þýðir að hann hefur búið til 2.704 myndlíkingar í huganum. Þótt meðaljóninum sé slíkt með öllu ofviða og vitagagnslaust í þokkabót, er aðferðafræðin sögð hafa margt sér til ágætis.

„Við vitum að minni er afar sjónrænt og að sjónrænar minningar eru sterkari. Ímyndun er góð byrjun,“ segir dr. Chris Moulin, taugasálfræðingur við Leeds-háskólann.

Númeralögunarkerfi

Sem dæmi um gagnlegar myndlíkingar, ekki óáþekkar þeim sem Pridmore hugsar sér, er svokallað númeralögunarkerfi, sem Dominic O'Brien, áttfaldur heimsmeistari í minni, þróaði og byggist á því að hann „þýðir“ tölustafi yfir í myndir, sem minna á lögun þeirra:

0 = Fótbolti, hringur, hjól.

1 = Kerti, götuljós, stafur.

2 = Svanur, snákur.

3 = Varir, handjárn.

4 = Seglbátur, flagg.

5 = Snákur, sæhestur.

6 = Fílsrani, einglyrni.

7 = Bjúgverpill, öxi, hamar.

8 = Snjókarl, stundaglas, kona.

9 = Blaðra í bandi, snara.

Fyrrgreind dæmi eru úr bókinni How to Develop A Brilliant Memory (Hvernig á að þróa frábært minni) eftir O'Brien, en hann hefur skrifað nokkrar bækur um sama efni og starfar sem minnisþjálfari.

Efalítið þætti mörgum langt seilst að tileinka sér aðferðir O'Briens til að muna pin-númerið sitt. Sé það til dæmis 1580, ráðleggur hann að ímynda sér að maður gangi inn í banka með kertastjaka (1) í höndunum, standi síðan í röð fyrir aftan snák (5) og horfi á snjókarl (8) sparka bolta (0) bak við afgreiðsluborðið.

Kannski væri tilveran skemmtilegri með aðferðum O'Briens til að muna margar og mismunandi samsetningar auðkennis- og öryggistalna í sífellt rafrænni og dulkóðaðri veruleika. „Sáraeinfalt,“ segir Pilmore, sem stingur upp á að til að muna nöfn fólks mætti ímynda sér það í aðstæðum, sem tengjast nöfnunum. Hægt væri að sjá George Bush fyrir sér, klæddan sem heilagan George, ráðast á runna sem hefur verið klipptur út eins og dreki í laginu. Og pylsur, brauð og mjólk á innkaupalistanum með því að búa til í huganum mynd af mjólk, sem væri hellt yfir brauð, sem væri pakkað inní pylsur... (!)„Gerðu myndina minnisstæða,“ segir hann, „ef þú ert að reyna að muna eitthvað leiðinlegt, kryddaðu það þá pínulítið.“

Tengingar eru lykillinn

Minni er samansett úr tengingum, útskýrir O'Brien og bendir á að jarðarber kunni að ýta undir hugsanir um tennis á Wimbledon. „Veldu þína eigin jarðarberjaakra eða allt annað en skilgreininguna á jarðarberi í orðabókinni,“ segir hann. Báðir minnismeistararnir eru á því að aðgangur að þessum tengingum sé lykillinn að minninu og geti þannig verið lykillinn að lyklunum, sem fólk er sífellt að týna.

Þegar hér er komið sögu kunna einhverjir að hafa ekki einungis tapað lyklinum heldur líka þræðinum. En Pridmore heldur ótrauður áfram á fréttavef BBC: „Sestu niður, lokaðu augunum, reyndu að fara hægt yfir sviðið. Ímyndaðu þér að þú sért að fara gegnum dyr. Bættu við öllum þeim smáatriðum, sem þú getur – hugsaðu um myndirnar á veggnum, teppið – og þú gætir alveg kallað fram minninguna af sjálfum þér þar sem þú leggur frá þér lyklana. Minningin er til staðar, þú þarft bara að ná henni.“

Tæknin, sem flestir þátttakendur í minnisheimsmeistarakeppninni nota að einhverju leyti, á rætur aftur í aldir og gengur m.a. undir nafninu Loci-aðferðin. Pridmore nefnir sína aðferð einfaldlega „ferðatækni“. Tæknina segir hann einnig geta auðveldað mönnum að halda ræðu, þeir þjappi henni saman í nokkur lykilorð, myndgeri orðin og kalli myndirnar fram á mismunandi áfangastöðum ferðalagsins. Þannig muni þeir betur í hvaða röð og hvenær þeir vilja leggja sérstakar áherslur.

O'Brien segir tæknina einfaldlega byggjast á eðlilegri aðferð mannsins til að muna. Sé fólk beðið um að rifja upp athafnir sínar, byrji það yfirleitt á að fara yfir viðkomustaðina. Doktor Moulin segir aðferðina ekki sveipaða neinum töfrum, í rauninni bæti hún ekki minnið sem slíkt heldur umgjörð minnisins. Og Pridmore tekur í sama streng og líkir henni við skjalavörslu; vistun skjala, sem þegar eru í heilanum, en komið fyrir í aðgengilega röð og reglu. „Í grunninn munum við allt sem við sjáum, heyrum, finnum, brögðum á og finnum lykt af. Það sem við gerum við minnið er að við lærum að vista upplýsingarnar á skynsamlegan hátt,“ segir hann.

Þótt fáir fari í grafgötur um að árið er 2009, mætti prófa að búa til sögu í huganum, svona rétt til að minna sig á að árið 2007 er liðið. Til að mynda gæti 2009 birst sem snákur, sem glefsar í krónupening, evrumynt stæði keik og kringlótt við hlið hans og blaðra í bandi hæfist á loft. Nokkurn veginn þannig hugsa minnismeistarar heimsins, að því er best verður skilið.

vjon@mbl.is