Sigrún Elsa Smáradóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir
Eftir Sigrúnu Elsu Smáradóttur: "Fiskur verður áfram veiddur og verkaður. Samhliða fyrningarleiðinni verður að sjá til þess að stöðugleiki atvinnuvegarins verði tryggður"

ÞVÍ hefur verið haldið að okkur undanfarin ár að einkarekstur sé í eðli sínu betri en opinber rekstur. Að einkaaðilar fari betur með sitt eigið fé og eignar-auðlindir, en ríkisstarfsmenn með almannafé og sameiginlegar auðlindir. Nú höfum við fengið að sjá að þetta er alls ekki algilt. Einkaaðilar fara ekki endilega betur en opinberir aðilar með fjármagn, fyrirtæki, orðspor eða auðlindir.

Einkavæðing auðlinda

Við höfum slæma reynslu af einkavæðingu auðlinda hér á Íslandi. Allt frá því að framsal aflaheimilda var heimilað og aflaheimildir sem útgerðir höfðu fengið úthlutaðar án endurgjalds urðu að seljanlegri og veðsetjanlegri „eign“, hefur skuldsetning sjávarútvegsins margfaldast. Þau byggðarlög sem treyst hafa á sjávarútveg til atvinnusköpunar hafa með framsalinu orðið háð velvilja, siðgæði og nennu útgerðarmanna á hverjum stað. Möguleiki á veðsetningu kvóta hefur vissulega gert það að verkum að útgerðir hafa getað skapað sjómönnum sínum betra og öruggara vinnuumhverfi en skuggahliðin er sú að marga hefur brostið siðferðisþrek þegar milljarðar eru boðnir í aflaheimildir og gildir þá einu þó að það kosti aðrar fjölskyldur í byggðarlaginu lífsviðurværi sitt. Þannig hefur einkavæðing á auðlindinni orðið til þess að einkahagsmunir hafa verið teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar, sem er grátlegt þegar um sameginlega auðlind þjóðar er að ræða.

Fyrningarleiðin

Afskriftaleið ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að 5% aflaheimilda séu endurheimt árlega, það er mildileg leið til þess að ná auðlindinni aftur í almannaeigu og endurúthluta á öðrum grunni. Verði aflaheimildir endurheimtar þurfa þeir sem vilja koma að sjósókn ekki að kaupa sig inn í greinina með því að borga útgerðarmönnum sem fyrir eru „eignarverð“ fyrir kvótann, eða leigja kvóta af þeim tímabundið, á uppsprengdu verði. Þá greiða þeir sem vilja stunda sjávarútveg hinu opinbera, almenningi, sem á auðlindina, hóflegt „afnotagjald“. Sjávarútvegur mun ekki leggjast af með fyrningarleiðinni, fiskur verður áfram veiddur og verkaður og samhliða fyrningarleiðinni verður að sjá til þess að stöðugleiki atvinnuvegarins sé að öðru leyti tryggður.

Framsalið eykur skuldsetningu

Það er rétt að flestir sem í dag „eiga“ aflaheimildir keyptu þær (með skuldsetningu atvinnuvegarins) af öðrum, sem tóku þá peninga út úr sjávarútvegi og skildu eftir skuldirnar. Það voru sjálfsagt mistök þeirra sem keyptu að halda að óveiddur fiskur í sjónum, sameign þjóðarinnar, yrði einkaeign um ókomna tíð. Það væru enn stærri mistök að leyfa þessari hringrás að halda áfram, að þeir sem nú „eiga“ kvóta selji, taki peninga úr atvinnuveginum, sem verður fyrir vikið enn skuldsettari. Það verður að losa undirstöðuatvinnuveg og helstu auðlind þjóðarinnar út úr þessari hringrás sem svipar helst til keðjubréfa eða píramídasvindls.

Auðlindir í almannaeigu

Auðlindir þjóða geta aldrei verið einkamál fárra, þær eru lífsviðurværi þjóða, sá grunnur sem hvert samfélag hefur til að byggja á. Þróa sína atvinnuvegi og ná samfélagslegum árangri. Það að afhenda fáum auðlindir heillar þjóðar er vanviska og raunar ófyrirgefanlegt. Þjóðin öll á að njóta auðlinda sinna og nýting þeirra á að vera með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Ef við lítum á aðra mikilvæga auðlind, orkuauðlindina, er það mikil gæfa að tvö stærstu orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, eru enn að fullu í almannaeigu. Orkufyrirtækin gegna mikilvægu hlutverki sem liggur í því að nýta mikilvægar auðlindir landsins, auk þess að veita mikilvæga grunnþjónustu. Nýting á sameiginlegum orkuauðlindum verður að vera sjálfbær og í sátt við umhverfið og ráðstöfun orkunnar verður að fara saman við þjóðarhagsmuni. Að fyrirtækin verði áfram í opinberri eigu er grundvöllur þess að tryggja að svo verði. Ekki er nóg að orkufyrirtækin hafi viðunandi hagnaðarvon af orkusölunni heldur ber okkur skylda til að beina notkuninni í þjóðhagslega hagkvæman farveg. Horfa verður til fjölbreytni, mannaflsþarfar og umhverfissjónarmiða þegar við horfum til uppbyggingar á raforkufrekum iðnaði.

Sú grunnþjónusta sem Orkuveitan veitir, rafmagn, hitaveita, drykkjarvatn, gagnaveita og fráveita er þess eðlis að miklir samfélagslegir hagsmunir liggja í því að þessi starfsemi sé á hendi opinberra aðila sem hafa fyrst og fremst samfélagslega hagsmuni í fyrirrúmi. Einkarekstur og samkeppni hafa vissulega kosti fyrir uppgang í samfélaginu en einkarekstur er ekki sjálfkrafa betri en opinber rekstur. Sérstaklega þegar kemur að þáttum þar sem nauðsynlegt er að hagsmunir heildarinnar séu ávallt ofar einkahagsmunum, þetta á við um helstu innviði samfélagsins og sameiginlegar auðlindir. Því verðum við að ná þeim auðlindum til baka sem stjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa í leyfisleysi gefið frá okkur og verja þær auðlindir og þá grunnþjónustu sem enn er í almannaeigu.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingar og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur.