„FRAMTÍÐ norðurskautsins varðar allt mannkyn, enda er talið að 25-30% af gas- og olíuauðlindum heimsins liggi undir ísnum,“ segir Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, sem tekið hefur að sér að vera sendiherra Frakka gagnvart...

„FRAMTÍÐ norðurskautsins varðar allt mannkyn, enda er talið að 25-30% af gas- og olíuauðlindum heimsins liggi undir ísnum,“ segir Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, sem tekið hefur að sér að vera sendiherra Frakka gagnvart heimskautunum.

„Ef þessar orkulindir yrðu nýttar, þá gæti það magnað verulega gróðurhúsaáhrifin, og það er eitt af því sem margir vísindamenn óttast.“

Framundan eru erfiðar samningaviðræður um skiptingu hafsvæðanna, sem opnast vegna hlýnunar jarðar.

„Það er mikið í húfi,“ segir Rocard. „Með hlýnun sjávar má gera ráð fyrir að ný fiskimið verði til og að fiskiskipaflotinn fylgi í kjölfarið. En þarna eru engir vitar, engir björgunarbátar, engin sjúkraþjónusta, engin landamæri og ekkert aflahámark.“

Rocard segir að samningarnir séu mun flóknari en þeir sem gerðir voru um suðurskautið, en hann átti stóran þátt í þeim í forsætisráðherratíð sinni. „Þar voru bara mörgæsir og engir kjósendur,“ segir hann brosandi. „Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að það búa um fjórar milljónir manna norðan heimskautsbaugs.“ | 14