Sjómannadagurinn er nú haldinn hátíðlegur um land allt. Sjómenn geta verið stoltir af þeim miklu áföngum sem náðst hafa í réttindum þeirra, aðbúnaði og öryggi á undanförnum áratugum. Og í dag er sérstök ástæða til að fagna.

Sjómannadagurinn er nú haldinn hátíðlegur um land allt. Sjómenn geta verið stoltir af þeim miklu áföngum sem náðst hafa í réttindum þeirra, aðbúnaði og öryggi á undanförnum áratugum. Og í dag er sérstök ástæða til að fagna. Sjórinn við Ísland hefur tekið margan góðan drenginn, en enginn mannskaði varð á sjó hér við land á síðasta ári. Á þessu ári hefur heldur enginn sjómaður horfið í hafið. Þeir sem gerst þekkja telja að fara verði allt aftur á landnámsöld til að finna slysalaust ár á sjó hér við land.

Sjómenn hafa orðið sér æ betur meðvitandi um hættur á sjó og allt kapp hefur verið lagt á að draga úr þeim hættum. Þar munar miklu, að sjómenn eru skyldugir til að sækja námskeið í Slysavarnaskóla sjómanna og fá reglubundna endurmenntun. Skipafloti landsmanna er líka bæði öflugur og öruggur. Því miður verður aldrei tryggt að ekki verði hörmuleg slys á hafi úti, en þjóðinni ber skylda til að búa svo að sjómönnum sínum að hættan sé eins lítil og mögulegt er.

Á þessum sjómannadegi er engin lognmolla í umræðu um sjávarútveg. Stjórnvöld vilja freista þess að leiðrétta hið mikla óréttlæti, sem fólst í því að útgerðarmönnum voru afhent mikil verðmæti endurgjaldslaust þegar kvótakerfinu var komið á. Ríkisstjórnin vill fyrna aflaheimildir í skömmtum á 20 árum, en þar blasir við annars konar óréttlæti: Margir hafa selt kvóta sinn og þeir sem keyptu háu verði sjá enga sanngirni í að missa kvótann, en sitja uppi með skuldirnar. Sátt er því enn ekki í sjónmáli.

Ríkisstjórnin telur líka rétt að heimila frjálsar handfæraveiðar, en þar blasir líka við óréttlæti sem felst í að smábátasjómenn, sem hafa selt kvóta sinn, geta haldið aftur til veiða án endurgjalds. Við hlið þeirra róa menn, sem keyptu af þeim kvótann dýrum dómum. Sjónarmið þessara manna verður án efa erfitt að sætta.

Hvernig sem fer er ljóst að sjávarútvegurinn verður áfram grunnstoð íslensks atvinnu- og efnahagslífs. Sjómennirnir, sem halda daginn sinn hátíðlegan í dag, geta verið stoltir af framlagi sínu og forvera sinna til þjóðarbúsins. Án þeirra væri enginn fiskur dreginn úr sjó. Harka þeirra og dugnaður hefur tryggt uppbyggingu nútímaþjóðfélags og eftir hrun efnahagskerfisins hafa margir áttað sig á hver raunveruleg verðmæti eru. Íslenskir sjómenn njóta virðingar og þakklætis þjóðarinnar.

Mörgum stoðum hefur verið rennt undir atvinnulíf á Íslandi á undanförnum áratugum og ólíkt er um að litast á þeim velli nú og þegar sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur. Sú fjölbreytni hefur þó ekki megnað að draga úr mikilvægi sjávarútvegsins.

Morgunblaðið færir sjómönnum árnaðaróskir á sjómannadaginn.