Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is LÍFEYRISSJÓÐIRNIR eru tilbúnir að setja 90-100 milljarða króna í fjármögnun opinberra framkvæmda á næstu fjórum árum, að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns Landssamtaka lífeyrissjóða.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

LÍFEYRISSJÓÐIRNIR eru tilbúnir að setja 90-100 milljarða króna í fjármögnun opinberra framkvæmda á næstu fjórum árum, að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns Landssamtaka lífeyrissjóða.

Í þessu samhengi hafa verið nefnd einstök verkefni, eins og Vaðlaheiðargöng, bygging samgöngumiðstöðvar í Reykjavík, tvöföldun Hvalfjarðarganga og bygging nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Kristján Möller samgönguráðherra segist fagna aðkomu lífeyrissjóðanna að samgönguframkvæmdum enda sé hún afar mikilvæg fyrir atvinnulífið.

Gangagerð fljótlega á næsta ári

Að sögn Kristjáns eru gögn vegna samgöngumiðstöðvar og Vaðlaheiðarganga „svo gott sem tilbúin“ og gætu framkvæmdir hafist fljótlega á næsta ári, að loknu forvali og útboði. Kristján segir að þessi tvö verk séu til skoðunar því þau hafi verið komin mun lengra en áframhaldandi tvöföldun Suðurlands- og Vesturlandsvegar, en nokkuð hávær krafa hefur verið uppi um að halda áfram tvöföldun þeirra til að auka umferðaröryggi.

Lífeyrissjóðirnir líta á aðkomu sína að þessum verkefnum sem verðugan fjárfestingarkost til þess að ávaxta fé sjóðfélaga. Á sama tíma væri aðkoma þeirra til þess fallin að skapa ný störf og örva atvinnulífið. Miðað við þær upphæðir sem nefndar eru legðu lífeyrissjóðirnir 20-25 milljarða króna á ári í opinberar framkvæmdir. Í þessu samhengi má benda á að gert er ráð fyrir að framlög ríkisins til stofnkostnaðar í vegagerð samkvæmt fjárlögum þessa árs verði 17,5 milljarðar króna.

  • Göngin framar í röðinni | 4