19. júlí 1627 Tyrkjaráninu lauk. Ræningjar frá Algeirsborg héldu heim á leið eftir að hafa numið á brott allt að fjögur hundruð manns, myrt fjörutíu og rænt miklum fjármunum. Þeir komu að landinu 20.
19. júlí 1627
Tyrkjaráninu lauk. Ræningjar frá Algeirsborg héldu heim á leið eftir að hafa numið á brott allt að fjögur hundruð manns, myrt fjörutíu og rænt miklum fjármunum. Þeir komu að landinu 20. júní og gerðu strandhögg í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum.
19. júlí 1813
Gengið var á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk á Öræfajökli, í fyrsta sinn. Það gerðu Hans Frisak, norskur landmælingamaður, og fylgdarmaður hans, Jón Árnason hreppstjóri.
19. júlí 1938
Farið var á bíl suður yfir Kjöl í fyrsta sinn. Komið var að Gullfossi eftir 34 klukkustunda ferð úr Svartárdal.
19. júlí 1953
Minnisvarði um Stephan G. Stephansson skáld var afhjúpaður við hátíðlega athöfn að Arnarstapa á Vatnsskarði í Skagafirði en þá voru liðin um hundrað ár frá fæðingu hans.
19. júlí 1989
Bygging þyrlupalls í Kolbeinsey hófst. Á hann voru festir ratsjárspeglar og jarðskjálftamælar. Kolbeinsey er 74 km norðvestur af Grímsey og er nyrsti grunnlínupunktur fiskveiðilögsögunnar.
19. júlí 1999
Bandaríski kvikmyndaleikarinn Kevin Costner kom til landsins vegna gerðar sjónvarpsþátta um stangveiði. „Mér finnst fólkið hérna alveg einstaklega vingjarnlegt,“ sagði hann við blaðamann Morgunblaðsins í lok heimsóknarinnar, „og íslenskar konur, vá, þær eru í einu orði sagt stórkostlegar“.Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson