Gunnar Karel Másson Verkið hans verður frumflutt í Þýskalandi í dag.
Gunnar Karel Másson Verkið hans verður frumflutt í Þýskalandi í dag.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

„ÞAÐ var óskað eftir íslensku tónskáldi, sem væri yngra en 25 ára og ennþá í námi,“ segir Gunnar Karel Másson tónskáld, sem boðið var á tónlistarhátíðina Sommerliche Musiktage Hitzacker í Hitzacker við ána Elbu í Þýskalandi. Hátíðin er rótgróin, var fyrst haldin 1946 og er því haldin í 64. sinn í ár. Þremur ungum evrópskum tónskáldum var boðið, og með boðinu fylgdi að tónskáldin skyldu semja verk fyrir píanótríó, byggt á einhvern hátt á stefinu úr „Óðinum til gleðinnar“ úr níundu sinfóníu Beethovens. Verk Gunnars verður frumflutt við opnunarathöfn hátíðarinnar í dag.

Allsherjar tónlistarhátíð

„Við tónskáldin verðum líka með tónlistarsmiðju fyrir krakka á aldrinum tólf til tuttugu og eins. Þetta er allsherjar tónlistarhátíð, en dans og ballett eru með, og þarna verða líka alls konar fyrirlestrar um tónlist. Hluti af hátíðinni er sérstaklega ætlaður ungu fólki.“

Hin tónskáldin sem valin voru, eru Eivind Buene frá Noregi og Benjamin Scheuer frá Þýskalandi. „Þeir eru báðir búnir að semja helling af tónlist.“

Tónskáldin þurftu að skila verkum sínum inn um miðjan júní, svo tónlistarfólkið hefði tíma til að æfa þau.

En hvernig tæklar ungt tónskáld fræknasta stríðsfák tónlistarsögunnar, níundu sinfóníu Beethovens? „Ég tók bút úr melódíunni og bjó til hálfgerða „spektral-analýsu“ yfir það og læt píanóið spila „spektrann“ meðan fiðlan og sellóið skreyta á móti, og það er allt verkið.“ Og nú þarf Gunnar heldur betur að útskýra nánar. „Já, sko... í „spektral-analýsu“ tekur maður einn tón og hleður ofan á hann öllum þeim tónum sem heyrast. Ef þú spilar nótu á píanó, þá heyrðirðu enduróm af fleiri tónum líka – yfirtónunum. Þetta eru þeir. Ég gerði þetta, en breytti aðeins tónunum sem raðast ofaná, svo þetta yrði ekki allt of „banalt“,“ segir Gunnar Karel. „Það verður mjög gaman að sjá hvernig þetta kemur út.“

Langar í Juilliard

Gunnar Karel útskrifast úr Listaháskóla Íslands næsta vor, en í vetur var hann í hópi þeirra tónskálda sem valin voru til að semja verk fyrir tónlistarhátíðina Við Djúpið á Ísafirði fyrr í sumar. En hvað svo, þegar námi lýkur?

„Ég ætla að reyna að komast í mastersnám strax eftir Listaháskólann. Það er draumurinn að komast í Juilliard í New York, New York og París eru efst á óskalistanum.“

Í hnotskurn
» Gunnar Karel Másson hóf tónlistarnám sitt á blokkflautu en færði sig yfir á túbu í Tónlistarskólanum í Reykjavík. 2004 fór hann í Tónlistarskóla FÍH í trompetnám, djass og klassík og lýkur tónsmíðaprófi frá LHÍ næsta vor.