Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, hefur mikið til síns máls þegar hann segir að byggja verði umræður um umsókn Íslands um aðild að sambandinu á staðreyndum, en ekki sögusögnum.

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, hefur mikið til síns máls þegar hann segir að byggja verði umræður um umsókn Íslands um aðild að sambandinu á staðreyndum, en ekki sögusögnum.

„Oft eru uppi sögusagnir um ESB, bæði innan aðildarríkja sambandsins og ríkja sem sækja um aðild. Eina leiðin til að taka lýðræðislegar ákvarðanir er hins vegar að mínu viti byggð á staðreyndum,“ segir Rehn í samtali við Morgunblaðið í gær. „Þess vegna svaraði ég því til hér áðan [á opnum fundi í Háskóla Íslands] að það væri klárlega flökkusaga að það tæki Ísland 15 ár að taka upp evruna. Ég skýrði það út að það yrði vissulega mun styttri tími.“

Bæði andstæðingar og stuðningsmenn ESB-aðildar þurfa að gæta sín á því að segja ekki skilið við staðreyndirnar í umfjöllun sinni um sambandið.

Af hálfu andstæðinganna er því stundum haldið fram, að því er virðist í fullri alvöru, að við ESB-aðild myndu fiskimiðin fyllast af útlendum togurum og Ísland missti yfirráð yfir orkulindum sínum. Staðreyndin er hins vegar sú að fiskveiðistefna ESB kveður á um sögulegan veiðirétt, sem önnur ESB-ríki eiga ekki hér. Lagaumhverfið varðandi orkulindir yrði nánast óbreytt frá því sem nú er. Þetta liggur hvort tveggja fyrir.

Algengt er að af hálfu stuðningsmannanna sé fullyrt að Ísland geti fengið víðtækar og varanlegar undanþágur frá reglum sambandsins, til dæmis varðandi sjávarútveginn. Það er ekki raunsætt, eins og Morgunblaðið hefur ítrekað bent á. Hins vegar er sjávarútvegsstefna ESB í þróun, eins og Olli Rehn vekur athygli á í samtalinu við Morgunblaðið, og ESB reynir yfirleitt að koma til móts við mikilvæga þjóðarhagsmuni umsóknarríkja. Það sýna staðreyndirnar líka.

Rehn bendir sömuleiðis á að það liggi nokkuð ljóst fyrir út á hvað starfsemi ESB gengur; „spil Evrópusambandsins [eru] þegar á borðinu, fyrir allra augum. Það er að segja regluverk Evrópusambandsins og meginreglur þess.“ Við það þarf að miða í umræðum um aðild að sambandinu, fremur en lítt rökstudda óskhyggju.

Á næstunni mun ríkisstjórnin skipa starfshóp til að sinna upplýsingamiðlun til almennings um ESB og umsóknarferlið. Mikið mun reyna á þann hóp að miðla réttum upplýsingum, þannig að almenningur geti myndað sér skoðun byggða á staðreyndum.