Áki Elísson ­ viðbót Fæddur 15. febrúar 1958 Dáinn 12. mars 1994 Fyrir nokkru íþyngdu mér hugsanir sem ég gerði mér ekki grein fyrir að hefðu neina sérstaka merkingu. Ef til vill hafa þær heldur ekki haft neina merkingu. Ég fann hjá mér þörf, sem ekki verður útskýrð með orðum, til að leiða hugann norður til Akureyrar, til æskuvinar míns og félaga, Áka Elíssonar.

Það var mér því þungbært að heyra að hann Áki hefði veikst alvarlega og látist laugardaginn 12. mars.

Mér er hugleikinn sá tími sem við áttum sem börn og unglingar austur á Breiðdalsvík þar sem við ólumst upp, en síðan skildi leiðir.

Fyrir norðan fann Áki ástina sína, hana Bryndísi Karlsdóttur. Á Akureyri kusu þau að reisa sér framtíðarheimili sem þau gerðu svo myndarlega að Borgarsíðu 18. En þau létu ekki þar við sitja heldur fylltu það af litlum "blómastelpum", þeim Fjólu, Sóleyju og Lilju, sem eru hver annarri yndislegri, og svo bættist prinsinn, Brynjar Elís, í hópinn.

Þó langt væri á milli okkar höfum við samt alltaf haft samband reglulega og það var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Áki var alltaf eins, glaður og kátur. Ég var svo heppinn að koma á Akureyri vegna starfs míns öðru hvoru undanfarin ár og hef þá notað tækifærið og heimsótt Áka og fjölskyldu hans í leiðinni. Þær fáu stundir sem við áttum saman við þessi tækifæri voru notaðar til að rifja upp bernskubrek okkar, mér til mikillar ánægju.

Þó stundirnar sem við áttum saman hafi verið allt of fáar, kæri vinur, eru þær ljúfar. Er mér efst í huga þessa stundina: verslunarmannahelgin 1980 þegar við komum norður og þú sýndir okkur svo stoltur frumburðinn, hana Fjólu, sem ennþá var á fæðingardeildinni, afmælisdagurinn hennar þegar þið voruð hjá okkur austur á Hornafirði og hún varð ekki mjög glöð að vera kennd við blómið, 17. júní 1989 þegar við nutum gestrisni ykkar sem oft áður. Það var svo af ótrúlegri tilviljun að við skyldum vera heima síðastliðið sumar þegar þið komuð í stutta en ánægjulega heimsókn með öll börnin, þann dag vorum við búin að ákveða að vera utanbæjar, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fórum við ekki. Þegar við kvöddumst þennan sólríka góðviðrisdag í júlí gerði ég mér ekki grein fyrir að þetta yrði okkar síðasta kveðja.

Hann Áki er farinn.

Eftir því sem ég sit hér lengur og hugsa aftur þá finn ég að ég á óteljandi skemmtilegar minningar tengdar þessum góða dreng. Ég minnist hans með gleði, um leið er sárt að kveðja hann svona alltof fljótt.

Við Oddný viljum senda ykkur elsku Bryndís, Fjóla, Sóley, Lilja og Brynjar Elís, okkar hjartanlegustu samúðarkveðjur. Við vonum að minningin um elskulegan eiginmann og föður verði ykkur ljós í lífinu.

Innilegar samúðarkveðjur viljum við líka senda til Fjólu, Ella, Sigga, Áslaugar, Stebbu, Erlu Völu, Rögnu, Péturs og þeirra fjölskyldna.

Megi almættið styðja ykkur öll í sorg ykkar.

Hrafn S. Melsteð.