Þekkt er að ný tækni ryður iðulega hinu gamla til hliðar, stundum á örskömmum tíma. En hitt er ekki síður algengt að nýjungar verða því sem fyrir er til fyllingar. Margir töldu að sjónvarp myndi gera útvarp óþarft vegna yfirburða sinna.
Þekkt er að ný tækni ryður iðulega hinu gamla til hliðar, stundum á örskömmum tíma. En hitt er ekki síður algengt að nýjungar verða því sem fyrir er til fyllingar. Margir töldu að sjónvarp myndi gera útvarp óþarft vegna yfirburða sinna. Það gerðist ekki, þótt áherslur í útvarpi hafi orðið aðrar og á það sé hlustað í annan tíma en áður var. Eins var talað um að sjónvarp myndbönd og síðar geisladiskar myndu ganga að kvikmyndahúsunum dauðum en það fór á annan veg. Forráðamenn kvikmyndahúsa breyttu þeim úr einum stórum sal í marga og voru snöggir að koma nýjum myndum í hús og héldu velli og afsönnuðu allar hrakspár. Nú trúa margir því að prentmiðlar hljóti að láta í minnipokann fyrir vefmiðlum en margt bendir til að þeir muni einnig halda velli, þótt þeir verði að laga sig að nýjum háttum.

Morgunblaðið hefur gengið í gegnum margvíslegar breytingar á undanförnum árum. Samdráttur í efnhagslífinu og sérkennilegt samkeppnisumhverfi á blaðamarkaðnum hafa gert þessar breytingar flóknari á marga lund. En blaðið hefur lagað sig að breyttum tíma og aðstæðum og hefur það ekki verið algjörlega sársaukalaust. Móðurfélagið hefur eflt vefútgáfu sína og er fréttavefurinn sá langöflugasti hér á landi og útgáfurnar tvær styrkja hvor aðra mjög. Nýverið tók Morgunblaðið upp samvinnu við Skjá 1 um útsendingu frétta. Er óhætt að segja að það samstarf hafi farið vel af stað og eru undirtektir góðar. Bindur blaðið góðar vonir við þetta samstarf.

Þetta blað, sem lesandinn hefur í höndunum núna, er seinasta sunnudagsblaðið af þessari gerð. Um næstu helgi mun áskrifendum berast nýr sunnudagsmoggi í hendur, stútfullur af nýju efni, sem tekið er nýjum tökum og umbrot og hönnun munu taka mið af því. Allar þessar breytingar, aukin og efld samþætting blaðs og vefs og samstarf við Skjá 1 um útsendingu frétta tvisvar á kvöldi alla virka daga er viðleitni Morgunblaðsins til að laga sig að breyttum tímum, sem kalla á breyttar aðferðir til að mæta nýjum þörfum. En þrátt fyrir vilja blaðsins og starfsmanna þess að horfa sífellt fram á veginn er ekki síður mikilvægt að varðveita þá reynslu sem blaðið hefur öðlast á löngum útgáfutíma. Reynslu, sem kennir því að sýna gát, varúð og tillitsemi, þar sem það á við. Það á að vera hér eftir sem hingað til trúverðugt og traust í fréttaflutningi. Það leitast við að birta það eitt sem það veit sannast og réttast. Í hraða nútíma fréttamennsku verður því auðvitað á. En þetta blað hefur iðulega á liðnum árum haft þrek til að birta ekki „frétt“ sem það var ekki öruggt um að geta staðið við og það hefur einnig haft burði til að birta fréttir sem bætti ekki hag þess sjálfs á þeirri stundu. Þannig blað var og er Morgunblaðið.