— Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
BANGSINN Bjútí handleggsbrotnaði þegar hann datt niður stiga en hann var heppinn að því leyti að bangsaspítali Lýðheilsufélags læknanema var opinn í gær á 100 ára afmælishátíð Læknafélags Reykjavíkur á Hilton Reykjavík Nordica.
BANGSINN Bjútí handleggsbrotnaði þegar hann datt niður stiga en hann var heppinn að því leyti að bangsaspítali Lýðheilsufélags læknanema var opinn í gær á 100 ára afmælishátíð Læknafélags Reykjavíkur á Hilton Reykjavík Nordica. Bjútí fékk þess vegna læknisskoðun hjá Bryndísi Dagmar Jónsdóttur og Guðrúnu Mist Gunnarsdóttur. Eigandi hans, Sóley María, fór nefnilega með hann á Bangsaspítalann. Fjölmörg börn mættu með bangsana sína en þau voru búin að ákveða sjúkdóm eða veikindi bangsans áður en þau mættu. Oftast hrjáðu veikindi, sem börnin hafa kynnst sjálf, bangsann eða þá eitthvað sem nákominn ættingi hafði verið með. Þegar börnin mættu á Bangsaspítalann tók bangsalæknir á móti þeim og spjallaði um veikindi bangsans. Á staðnum var bangsaröntgentæki og ef grunur var um beinbrot var bangsinn myndaður. Bangsarnir fengu jafnframt bangsabóluefni gegn svínainflúensu. Heimsókninni lauk svo með því að bangsinn fékk viðeigandi meðferð, yfirleitt sáraumbúðir, plástra og góð ráð frá bangsalækninum.

Tilgangurinn með Bangsaspítalanum er að kynna lækna og heilbrigðisstofnanir fyrir börnum í gegnum leik og leggja þannig grunn að jákvæðu viðhorfi og trausti gagnvart læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.