<strong>Samstíga?</strong> Stjórnendur þurfa að byggja upp traust og hlúa að heilbrigðri vinnumenningu.
Samstíga? Stjórnendur þurfa að byggja upp traust og hlúa að heilbrigðri vinnumenningu. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is „MARGIR stjórnendur standa í dag frammi fyrir því að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir.
Eftir Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

„MARGIR stjórnendur standa í dag frammi fyrir því að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Víða þarf að segja upp starfsfólki, skera niður í rekstrinum og bregðast við ástandinu eins og það er kallað í daglegu tali,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við viðskiptafræðideild HÍ en hún kennir námskeiðið Forysta í krísu hjá Endurmenntun Háskólans.

Námskeiðið er ætlað stjórnendum, millistjórnendum og starfsmannastjórum fyrirtækja og stofnana, og fer yfir þætti sem styrkja eiga stjórnendur í því erfiða umhverfi sem nú er við að etja.

Eins og flugfreyja í ókyrrð

Eitt mikilvægasta atriðið á tímum sem þessum segir Árelía að stjórnendur haldi haus: „Einn nemandi minn kom með nokkuð góða samlíkingu; að hlutverk stjórnandans í dag sé svolítið eins og hlutverk flugfreyjunnar í ókyrrð,“ útskýrir Árelía. „Viðbrögð flugfreyjunnar hafa mikið að segja um líðan fólksins um borð og mikilvægt að hún haldi ró sinni, því annars getur óttinn allur magnast upp hjá farþegunum.“

Til að sinna hlutverki sínu sem best þurfa stjórnendur því, að sögn Árelíu, að þekkja sjálfa sig vel, þekkja sín eigin streituviðbrögð og skilja eigin þankagang, og þannig ná betri tökum á aðstæðum. „Mikilvægt er að stjórnendur geri sér m.a. grein fyrir hvernig þessi viðbrögð geta í raun yfirtekið okkur og hvort að ákveðin hegðun hafi stuðlað að, og auki nú á, þann vanda sem reksturinn tekst nú á við.“

Má gera mistök?

Árelía nefnir fjögur dæmi um hegðun og hugsun sem getur staðið fyrir þrifum: „Fyrst má nefna þegar einstaklingurinn getur ekki tekið gagnrýni öðruvísi en að fara í vörn, og þessu tengt getur myndast andrúmsloft á vinnustað þar sem engin þolinmæði er fyrir mistökum og allt þarf að vera óaðfinnanlegt,“ segir hún. „Annað dæmi er þegar einstaklingurinn finnur hjá sér stöðuga þörf til að öðlast viðurkenningu. Skyldur þessu er síðan sá ávani sumra að vilja eigna sér öll verkefni, sem jafnvel gengur svo langt að þeir taka verkefni af öðrum. Í fjórða lagi má nefna þann sið að vera stöðugt í samkeppni við vinnufélagana, jafnvel á kostnað samstarfsins.“

Ef stjórnendur líta í eigin barm og sjá hegðun af þessu tagi hjá sjálfum sér eða á sínum vinnustað segir Árelía það geta verið vísbendingu um vandamál sem taka þarf á. „Þetta getur verið til marks um að við erum t.d. ekki að leyfa okkur sjálfum eða öðrum að vera auðmjúk, forvitin, og segja hlutina eins og þeir eru –sem er einmitt það sem þarf á að halda á tímum sem þessum.“

Breyttar aðferðir

Árelía segir þessa sjálfsskoðun geta orðið fyrsta skrefið í þeim breyttum stjórnunaraðferðum sem aðstæður nú kalla á: „Í mörgum fyrirtækjum var ríkjandi ungæðislegur, testósterónhlaðinn og að kalla má graður kúltúr, og sem fékk að ganga of langt og of lengi og átti sinn þátt í hvar við erum stödd í dag.“

Um leið bendir hún á mikilvægi þess að stjórnendur reyni að öðlast traust starfsmanna: „Á krísutímum er mikilvægara en nokkru sinni að sá sem fer með forystuhlutverkið njóti trausts undirmanna sinna. Þeir sem hafa á undanförnum árum náð að byggja upp kúltúr á vinnustað þar sem gott traust ríkir standa í raun með pálmann í höndunum,“ segir hún.

„Ef traustið er ekki til til staðar eru engar töfralausnir sem breytt geta ástandinu til hins betra. En stjórnandi sem sýnir auðmýkt, sýnir starfsmönnum að komið er fram við þá á manneskjulegan hátt, og er forvitinn um nýjar hugmyndir, hvað aðrir hafa fram að færa og þorir að prófa sig áfram – hann öðlast traust fyrr en ella.“

Námskeiðið Forysta í krísu hefst 5. nóvember og er kennt þrjá morgna. Nánari upplýsingar á www.endurmenntun.is