Koss Það er alkunna að kúabændur spili létt lög af hljómplötum í fjósum sínum til að freista þess að fá betri nyt. Ekki fer milli mála að bóndinn í þessu þýska fjósi leikur tónlist glysrokksveitarinnar Kiss fyrir kýrnar sínar.
Koss Það er alkunna að kúabændur spili létt lög af hljómplötum í fjósum sínum til að freista þess að fá betri nyt. Ekki fer milli mála að bóndinn í þessu þýska fjósi leikur tónlist glysrokksveitarinnar Kiss fyrir kýrnar sínar. — Reuters
„Er útspil hans raunhæft?“ Jóhanna Sigurðardóttir í bréfi til Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, þar sem hún vísar til orða Per Olavs Lundteigens um lánveitingu til Íslendinga óháð AGS og Icesave.
„Er útspil hans raunhæft?“

Jóhanna Sigurðardóttir í bréfi til Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, þar sem hún vísar til orða Per Olavs Lundteigens um lánveitingu til Íslendinga óháð AGS og Icesave. Það var hennar leið til að grennslast fyrir um lánið frá Norðmönnum, þó að hún tæki fram að... „afstaða norsku ríkisstjórnarinnar er okkur vel kunn“.

„Ég hafna því.“

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, spurður hvort stofnunin væri linari við aðrar stofnanir hins opinbera heldur en við einkafyrirtæki.

„Hann gat ekki hætt að borða poppið meðan við ræddum saman og fékk að lokum að taka nokkra poka með sér heim.“

Sigurjón Dagbjartsson, framkvæmdastjóri Iðnmarks sem framleiðir m.a. Stjörnupopp, um innkaupastjóra færeysku verslanakeðjunnar Samkaup en keðjan ætlar að byrja að selja íslenskt ostapopp í verslunum sínum.

„Hugmyndina fékk ég fyrir nokkrum árum þegar konan mín týndi giftingarhringnum og hélt að hann hefði óvart verið ryksugaður upp.“

Steinn Sigurðsson sem hannað hefur svokallaða ryksugugildru sem kemur í veg fyrir að hlutir á borð við giftingarhringi sogist ofan í ryksugupokann.

„Mér hefur alltaf fundist gaman að lesa ljóðabækur og grípa þær með upp í rúm. Það er svo þægilegt, því þá er maður ekki bundinn því að muna eitthvað sem maður sofnaði út frá kvöldinu áður.“

Eyþór Árnason sem hlaut í vikunni Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Hundgá úr annarri sveit.

„Það er eins og þetta fólk megi aldrei komast upp úr neinu fari.“

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, um fyrirhugaðar skerðingar á lífeyrisgreiðslum öryrkja.

„Það má skjóta með tánni ef það virkar“

Veigar Páll Gunnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, um sigurmarkið sem hann gerði á móti Suður-Afríku á Laugardalsvelli.

„Þetta er að skella á af fullum krafti.“

Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, um A(H1N1) v 2009 inflúensufaraldurinn.

„Ég er staðráðinn í því að hafa boðskap biskupsins að engu.“

Séra Gunnar Björnsson sem Karl Sigurbjörnsson biskup hefur ákveðið að flytja úr embætti sóknarprests á Selfossi í embætti sérþjónustuprests við Biskupsstofu.

„Ég þyrfti að hugsa mig um vel og lengi áður en ég segði, að í fyrsta skipti skyldi breska ríkið fara að tryggja innistæður sem stofnað var til í öðru umdæmi. Það er ekkert sem við myndum gera eins og ekkert sé.“

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, svarar spurningum fjárlaganefndar breska þingsins 3. nóvember í fyrra.

„Ég var að horfa á sjónvarpið þegar mér sýndist vera farið að snjóa. Þegar ég leit út sá ég engan snjó. Ég opnaði því gluggann og fann brunalyktina.“

Alma Eðvaldsdóttir, íbúi í nágrenni Lifrarsamlags Vestmannaeyja, sem brann til grunna á fimmtudag.

„Andri kveikti neistann í mér aftur.“

Arnar Gunnlaugsson knattspyrnumaður ætlaði að hætta í fótbolta en Andri Marteinsson þjálfari Hauka taldi hann af því.