18. október 1913 Ljósahátíð var haldin á Seyðisfirði þegar rafveitan var vígð og rafljós kveikt í fyrsta sinn. „Ljósin eru björt og skær og allur útbúnaður vandaður og í besta lagi,“ sagði blaðið Austri.

18. október 1913

Ljósahátíð var haldin á Seyðisfirði þegar rafveitan var vígð og rafljós kveikt í fyrsta sinn. „Ljósin eru björt og skær og allur útbúnaður vandaður og í besta lagi,“ sagði blaðið Austri. „Mun óhætt að segja að almenn ánægja sé í bænum yfir rafljósunum.“ Þetta var ein fyrsta rafveitan sem náði til heils bæjarfélags.

18. október 1939

Dómkirkjan var þétt setin þegar efnt var til guðsþjónustu í tilefni af fundi allra norrænu konunganna í Stokkhólmi. Tilgangur fundarins var að reyna að afstýra því „að Norðurlönd yrðu vettvangur styrjaldarinnar eða þátttakendur hennar,“ eins og Sigurgeir Sigurðsson biskup orðaði það í ræðu sinni. Þá var rúmur mánuður frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar.

18. október 1953

Bandarísk herflugvél af gerðinni Neptun fórst norðvestur af Vestmannaeyjum. Öll áhöfnin, níu manns, lést.

18. október 2001

Hiti í Reykjavík mældist 15,6 stig, sem var októbermet. „Sannkallaður sumarylur í lofti,“ sagði Morgunblaðið.

18. október 2008

Fjöldi fólks kom saman á Austurvelli til að mótmæla bankahruninu. Mótmælafundir voru vikulega fram í mars, með hléi um jólin.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.