Janis Joplin
Janis Joplin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VEFSÍÐA vikunnar að þessu sinni, The Smoking Gun, er fyrir þá sem áhuga hafa á sakamálum hvers konar og skjölum og ljósmyndum sem þeim tengjast en einnig fræga fólkinu, mistökum þess og kröfum.
VEFSÍÐA vikunnar að þessu sinni, The Smoking Gun, er fyrir þá sem áhuga hafa á sakamálum hvers konar og skjölum og ljósmyndum sem þeim tengjast en einnig fræga fólkinu, mistökum þess og kröfum.

Á síðunni má finna ýmis lagaskjöl og handtökutilskipanir og er nýju efni hent inn á síðuna daglega. Tilgangurinn virðist vera sá að koma fyrir augu almennings upplýsingum sem eru á einhvern hátt ótrúlegar eða dularfullar eða upplýsingum sem fjölmiðlar hafa ákveðið að birta ekki. Þá má einnig finna ýmsar heimildir um glæpi sem þykja óvenjulegir og glæpamenn sem þykja í skrýtnara lagi.

Nafnið, The Smoking Gun, vísar í myndlíkingu fyrir sönnunargagn í glæpamáli, eitthvað sem bendlar mann við glæpinn. Fyrir þá sem áhuga hafa á fræga fólkinu, m.a. stjörnum úr heimi kvikmynda eða tónlistar, má benda á sérstakan hluta síðunnar sem helgaður eru myndum lögreglunnar af þekktu fólki sem gerst hefur brotlegt við lög. Þá er annar hluti tileinkaður samningum sem poppstjörnur hafa gert. Má sjá lista yfir þá hluti sem eiga að vera til taks á tónleikastöðum m.a. og slíkir listar flokkaðir eftir tónlistarmönnum. Sem dæmi má nefna lista frá David Bowie en hann vill hafa tiltæka kaffivél af gerðinni Mr. Coffee, ávaxtaskál fyrir 12 manns, ferskan appelsínusafa, 12 handklæði og mannhæðarháan spegil, svo eitthvað sé nefnt. Ef farið er í öllu harðari deild, Guns n' Roses, þá vilja rokkararnir fá stóra nautasteik, bakka með osti og kjötáleggi, heilmikið af pasta og Dom Perignon kampavín m.a.

helgisnaer@mbl.is