Guðrún Lára Kjartansdóttir fæddist á Akureyri 28. júlí 1952. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, 8. október síðastliðinn.

Útför Guðrúnar Láru fór fram frá Háteigskirkju 16. október sl.

Á tímum hraðra breytinga gerist það æ fátíðara að fólk verji lengstum hluta starfsævi sinnar á sama vinnustað. Það á þó við um Guðrúnu Kjartans, sem við félagar hennar í Hvíta húsinu kveðjum í dag eftir þrjátíu ára farsælt samstarf.

Á auglýsingastofum er þörf fyrir margvíslega hæfileika á ýmsum sviðum til þess að góður árangur náist. Á meðan gerðar eru þær kröfur til sumra að þeir séu fljúgandi hugmyndaríkir þurfa aðrir starfsmenn að hafa aðra góða eiginleika til að bera, eins og yfirsýn, nákvæmni og þjónustulund í daglegum samskiptum við marga og ólíka viðskiptavini. Síðast töldu eiginleikana hafði Guðrún í ríkum mæli til að bera og komu þeir sér afar vel í því nákvæmnisstarfi sem hún sinnti. Þeir sem til þekkja vita hversu mikilvæg gerð áætlana um birtingar á auglýsingum er og hve veigamikil hin þríhliða tenging viðskiptavinar, stofu og fjölmiðils er. Hlutir geta farið úrskeiðis ef ekki er til staðar fullkomin yfirsýn og eftirfylgni og þá reynir iðulega á þolinmæði og úthald. Hjá Guðrúnu var enginn skortur á þeim eiginleikum.

Við ótímabær leiðarlok sjáum við ekki aðeins á bak öflugum og afar samviskusömum liðsmanni, heldur vini og samstarfsmanni til áratuga. Um leið og hin langa samleið er þökkuð sendir Hvíta húsið og samstarfsmenn Jóni Kjartani, Bjarna og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Guðrúnar Kjartansdóttur.

Halldór Guðmundsson.

Magnús Loftsson.