Peter Foote, professor emeritus í norrænum fræðum við University College London, lést að heimili sínu í Lundúnum þriðjudaginn 29. september sl. Hann var fæddur í Swanage í Dorset 26. maí 1924 og stundaði nám í ensku og norrænum fræðum, fyrst við University College of the South-West í Exeter en síðan við Lundúnaháskóla, auk námsdvalar við háskólann í Ósló. Hann varð lektor í forníslensku við University College London árið 1951, dósent í fornnorrænu og loks prófessor í norrænum fræðum uns hann lét af störfum árið 1983. Hann varð forseti nýstofnaðrar norrænudeildar við skólann árið 1963, og byggði upp öfluga deild af miklum dugnaði og framsýni. Hann var mikilvirkur innan Viking Society for Northern Research frá 1952, og forseti félagsins árin 1974-6 og 1990-2.

Peter Foote var einn af fremstu fræðimönnum á sínu sviði og eftir hann liggja fjölmargar greinar um íslenskar fornbókmenntir. Úrval þeirra birtist í tveimur greinasöfnum, Aurvandilstá (1984) og Kreddum (2004). Hann annaðist útgáfu Jóns sögu helga fyrir Hið íslenzka fornritafélag sem út kom árið 2003 og sama ár kom vísindaleg útgáfa sama verks út á vegum Árnastofnunar í Kaupmannahöfn, einnig í umsjón Footes. Þá sá hann um vandaðar ljósprentaðar útgáfur tveggja íslenskra miðaldahandrita sem varðveitt eru í Stokkhólmi. Foote annaðist þýðingu Grágásar á ensku í félagi við Andrew Dennis og Richard Perkins, og hann var, ásamt David M. Wilson, höfundur vinsæls yfirlitsrits um víkingaöld, The Viking Achievement (1970). Peter Foote var heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags og var í þrígang sæmdur hinni íslensku fálkaorðu.

Peter kvæntist konu sinni Eleanor McCaig árið 1951, en hún lést árið 2006. Þau eignuðust þrjú börn, Alison, Judith og David, sem lifa föður sinn, ásamt sjö barnabörnum og einu langafabarni. Peter Foote var jarðsunginn frá St. Michael‘s kirkju í Highgate í London, 13. október 2009.

mbl.is/minningar

Peter Foote óx upp nálægt hafinu og þaðan fylgdi víður sjóndeildarhringurinn honum lífið á enda. Árin í breska sjóhernum í heimsstyrjöldinni síðari á fjarlægum slóðum mótuðu hann ungan og svo laðaðist hann að þeirri sérstöku norrænu menningu sem nærðist á siglingum, ferðalögum og landkönnun í norðurhöfum.

Peter var fílólóg í besta skilningi þess orðs og fjölfræðingur; í senn djúpvitur ritskýrandi og frumlegur handritafræðingur. Einkenni hans koma fram í hverri ritsmíð: gagnrýni á frumtextann, nákvæmni í vinnubrögðum, skörp hugsun, hugkvæmni og ritsnilld. Peter hafði frábært vald á íslenskri tungu og var auk þess afburðaþýðandi. Fyrsta fræðilega ritgerð hans var um sögu Hvamms-Sturlu, og síðan rak hver ritgerðin aðra um Gísla sögu, Grágás, Sturlungu, Péturs sögu postula, Lilju. Greinasöfn hans tvö, Aurvandilstá og Kreddur, geyma margvísleg dæmi um hugmyndaríkan og fjöllesinn túlkanda.

Í starfi sínu sem lektor, dósent og loks prófessor við University College London byggði Peter upp öfluga deild í norrænum fræðum þar sem kennd voru öll norrænu tungumálin, auk rúnafræði, sagnfræði og bókmenntafræði. Það er á engan hallað þó að staðhæft sé að hann hafi verið fremstur meðal jafningja af sinni kynslóð fræðimanna í hinum engilsaxneska heimi.

Peter átti nána samleið með Stofnun Árna Magnússonar og á systurstofnun hennar í Kaupmannahöfn var honum ungum falið af Jóni Helgasyni að búa Jóns sögu helga til vísindalegrar útgáfu. Hann lauk fræðimannsævinni með því að reka smiðshögg á það verk, á sama ári og hann bjó söguna til útgáfu fyrir Hið íslenzka fornritafélag með frábærum skýringum og inngangi um söguna. Hver heimsókn hans á Árnastofnun hófst með brennivínsstaupi með vinum sínum – en síðan var sest að vinnu. Hann var vinnusamur með afbrigðum og féll ekki verk úr hendi, enda voru afköst kennarans, gagnrýnandans, þýðandans, útgefandans og fræðimannsins mikil þegar kom að leiðarlokum.

Peter gat verið beinskeyttur í tali og óvæginn í gagnrýni og sýndi oft litla þolinmæði gagnvart lítt grunduðum vangaveltum. Tvíræð tilsvör orkuðu stundum eins og prófsteinn á viðbragsflýti og snerpu viðmælandans, en undir gráglettnu yfirborðinu var hlýr og rausnarlegur vinur. Uppörvun frá honum var dýrmætari en frá öðrum, og betri og vandaðri gagnrýnanda var ekki hægt að finna. Hvar sem hann kom varð hann líkt og af sjálfu sér þungamiðjan; hann var tilgerðarlaus og blátt áfram í samskiptum og hafði vald á samræðulist sem fáum er gefin. Skarð slíkra manna er vandfyllt.

Það er ekki hægt að nefna Peter án þess að minnast á Eleanor. Þau voru tíguleg saman og sjálfstæð í framgöngu, og með þeim mikið jafnræði. Andlát hennar fyrir þremur árum varð honum þungt áfall. Peter kom í hinstu ferðina til Íslands í fylgd Alison dóttur sinnar nokkrum misserum síðar og áttum við með þeim ógleymanlegan dag á Þingvöllum. Vinir hans á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kveðja einstakan mann og áhrifamikinn – og einn skarpasta fræðimann sem íslensk fræði hafa átt.

Guðrún Nordal.

Að hafa ástríðu fyrir vísindum er það sama og að hafa gaman af þeim; Peter Foote er í mínum huga táknmynd hins káta vísindamanns, þess sem getur miðlað gleðinni af starfi sínu og fengið aðra til að hrífast með af því sem samkvæmt venjulegum viðmiðum ætti að vera grútleiðinlegt. Það var gæfa mín að kynnast Peter á námsárum mínum í London og þau kynni höfðu djúp og mótandi áhrif á mig. Peter hafði kímnigáfu í orðsins fyllstu merkingu, gáfuna til að hafa gaman, sjá hið spaugilega og njóta þess með öðrum. Þeim sem ekki var þessi gáfa gefin gat fundist Peter léttúðugur en þó að kímnigáfan, nær að segja hárbeitt skopskyn, skíni víða í gegn í verkum hans þá ber allt hans mikla vísindastarf merki um allt annað en léttúð. Þvert á móti einkennist það af auðmýkt gagnvart því mikla og mikilvæga verkefni sem hann vann að, sem honum fannst að allir ærlegir vísindamenn hlytu að vilja vinna að. Verkefnið er byggingarstarf og keppikeflið er að leggja eitthvað af mörkum sem endist og aðrir geta byggt á við frekara starf. Hvort byggingin er á hverjum tíma hriplekt skrifli eða glæsileg höll fer eftir verksviti, alúð og útsjónarsemi þeirra sem lögðu grundvöllinn.

Eins og þáttur hans í The Viking Achievement, því yfirlitsriti um víkingaöldina sem best sameinar að vera bæði frumlegt og traust sýnir, var Peter einn þeirra snjöllu og víðfróðu sem geta hannað og byggt nýjar hæðir. Hann kaus hinsvegar að verja mestri orku sinni í að lagfæra undirstöðurnar, hyggja að máttarstoðum þar sem þær voru fúnar eða vantaði alveg. Það þarf auðmýkt og ástríðu til að helga sig slíkum verkum því það eru ekki þau sem eru endilega mest sýnileg, en þau nýtast hinsvegar mest og endast best.

Hlutur Peters í frábærri enskri þýðingu Grágásar er dæmi um vísindalegt þrekvirki sem fer ekki hátt en kemur að ómældu gagni. Með henni var góð staða íslenskra fræða á alþjóðlegum vettvangi treyst svo um munar. Eitt viðhorf Peters sem hafði mikil áhrif á mig var að það gætu ekki verið nein mörk á því hvað fræðimaður gæti þurft að vita eða skilja. Hugvísindi almennt og miðaldafræði sérstaklega geta ekki þrifist ef fólk afmarkar þekkingu sína of þröngt. Það er hægt að vera sérfræðingur á ákveðnum sviðum, t.d. einstökum tegundum heimilda, en slík sérfræði mega aldrei koma í veg fyrir á fólk leiti skilnings og þekkingar á öðrum sviðum ef þau geta varpað ljósi á viðfangsefnið. Fornleifafræðingur sem telur sér ekki skylt að skilja dróttkvæði getur ekki orðið góður fornleifafræðingur. Slík afstaða lýsir fyrirfram takmörkun sem er jafnóþörf og hún er röng. Annað mikilvægt viðhorf er að ekki sé nóg að reyna að vera fróður og snjall heldur þurfi fræðimenn líka að geta sagt hlutina vel, tjáð sig á fallegu og skýru máli. Peter setti það mark hátt og er veruleg áskorun að ná því. Við erum ófá sem höfum notið leiðsagnar, góðvildar og gríðarlegrar þekkingar Peters Foote. Með honum er genginn einn besti liðsmaður íslenskra fræða, frábær félagi og fyrirmynd.

Orri Vésteinsson.

Látinn er í London náinn félagsbróðir minn og mikill vinur Íslendinga, Peter Foote prófessor í Lundúnaborg. Við kynntumst á ungum aldri og áttum síðan saman ærið margar góðar stundir við störf og skemmtan. Ég á honum ótalmargt að þakka, og skyldugt þakklæti mitt rúmast ekki í örstuttri minningargrein.

Einu sinni fékk ég árlangt orlof frá starfi mínu við Árnastofnun, og kom þá vart annað til greina en verja þeim tíma í London í námunda við Pétur Fót – svo sem íslenskir vinir hans nefndu hann jafnan. Þar dvöldum við hjónin síðan vetrarlangt með yngstu börn okkar, í skjóli Péturs og hans frábæru eiginkonu Eleanor sem látin er fyrir fáum árum. Um þessar mundir var að birtast eftir mig í Sögu Íslands ágrip af forníslenskri bókmenntasögu, og einhverju sinni varpaði Pétur fram þeirri hugmynd við mig að þetta verk ætti að koma út á ensku. Hann skyldi taka að sér að þýða bókina. Ég taldi að þá mundi þurfa að breyta verkinu og auka ýmsu við, það væri hugsað sem „vakningarrit“ handa Íslendingum og þar væri einkum fjallað um þau rit sem hollt væri fyrir landa mína að lesa. „Þá ætti það ekki síður að vera hollt fyrir útlendinga,“ svaraði hann.

Ég nefndi tiltekinn flokk bókmenntanna sem fremur lítt væri um fjallað í ritinu, hvort ekki mundi þörf að lengja þennan þátt? Það taldi Pétur hreinan óþarfa. „Það er hvort sem er svo lítið um þetta vitað með sannindum,“ sagði hann, „og mestmegnis bull sem um það hefur verið skrifað.“ Og þar við sat. Verk mitt græddi ekki lítið á að fara um hendur hans. Hann var snjall rithöfundur á móðurmáli sínu og lagfærði auk þess efni ritsins þar sem honum þótti við þurfa. Og hann hafði þann kost sem fáum erlendum þýðendum er gefinn: Hann misskildi aldrei íslenska frumtextann.

Hann var svo samgróinn íslenskum bókmenntum að hann fjallaði um þær alveg eins og Íslendingar sjálfir, – og þá á ég við þá Íslendinga sem lausir eru við alla óra í fræðum sínum. Pétur hafði ávallt báða fætur á jörðinni. Hann var læs á margar tungur, bæði nútímamál og hin klassísku fornmál; en ég heyrði hann aldrei mæla eina setningu nema annað tveggja á móðurmáli sínu eða íslensku.

Jafnframt sinni rótgrónu þekkingu á íslenskum fræðum naut Pétur þess að hann hafði afburða þekkingu á evrópskum miðaldafræðum, en slíka þekkingu skortir okkur íslenska fræðimenn af síðari kynslóðum bagalega. Þess vegna kom hann auga á ýmislegt sem ella mundi hulið. Ég skal nefna eitt dæmi:

Á fornum tímum, einkum á 14. öld, tíðkaðist hér á landi íburðarmikill ritstíll sem ber mikinn keim af latínu. Hefur hann verið kallaður „skrúðstíll“ (á ensku florid style). Áður var talið að þetta væri sprottið af því að um væri að ræða þýðingar úr latínu. En Pétur sýndi fram á það með glöggum röksemdum að einungis væri um að ræða íslenska tilgerð, og öll ritin væru raunar frumsamin á íslensku.

Nú er mikið skarð fyrir skildi. En verk Péturs munu lifa, og stefna hans og aðferðir skulu verða leiðarljós yngri fræðimanna, svo erlendra sem íslenskra.

Jónas Kristjánsson.

Peter Foote varð vinur Íslands löngu áður en hugtakið „Íslandsvinur“ var fundið upp. Ungur komst hann í kynni við fornsögurnar og gerði síðar norræn fræði að viðfangsefni sínu í háskólanámi – eftir að hafa gegnt herþjónustu í flota Hans hátignar. Hann sinnti kennslu og rannsóknum á íslenskri tungu, bókmenntum og sögu alla tíð uppfrá því og stofnaði á ævi sinni til vináttu við marga Íslendinga.

Það var ekki sjálfgefið á fyrri hluta síðustu aldar að slátrarasonur kæmist til mennta, en Peter hafði afburða námsgáfur og naut góðs af því að menntaskóla hafði nýlega verið komið á fót í heimabæ hans, Swanage í Dorset. Hann stundaði síðan nám við háskólana í Exeter og London, en ef til vill hafði námsdvöl í Ósló veturinn 1948-49 ekki minnsta þýðingu fyrir fræðilegan þroska hans. Peter nam þar undir handarjaðri prófessors Anne Holtsmark og ræddi ávallt um hana af mikilli hlýju. Fyrir utan lærdóm hennar, sem hann dáðist að, nefndi hann sérstaklega hvað hún hefði verið örlát á tíma sinn. Hann hefði eins getað verið að lýsa sjálfum sér, því það var höfuðeinkenni á Peter hvað hann var óvenju vel að sér og fjölfróður en jafnframt örlátur á þekkingu sína og hvetjandi á alla lund. Hann taldi ekki eftir sér að lesa yfir verk annarra og bæta þau með gagnrýni sinni, eða þýða þau á enska tungu svo þau mættu ná til fleiri lesenda. (Hann hafði einstakt vald á móðurmáli sínu, en hann talaði líka góða og blæbrigðaríka íslensku sem hann hafði meðal annars tileinkað sér í kaupamennsku í Dölunum upp úr miðri öldinni.) Og örlæti Peters var ekki bundið við fræðileg efni. Umræður um þau áttu sér nær alltaf stað yfir glasi eða málsverði, þar sem hann var oftar en ekki veitandinn. Hann naut lífsins og lærdómsins og þessar nautnir voru samslungnar.

Ég var sá hamingjuhrólfur að fá að stunda doktorsnám undir umsjá Peters, njóta örlætis hans og reyna mig við þær kröfur sem hann gerði. Þær voru settar fram af góðvild – og oft með kímni – en án þess að nokkuð væri slegið af, og snerust um vönduð vinnubrögð og skýra hugsun sem væri fimlega orðuð. Hann hafði mikla yfirsýn yfir norræn fræði og var naskur að sjá út brýn verkefni sem biðu. Sumum sinnti hann sjálfur – gjarnan í samstarfi við aðra – og svo hvatti hann okkur hin til dáða. Hann hafði litla þolinmæði með þeim sem honum fannst eyða dýrmætum tíma í þokukennd viðfangsefni meðan svo margt var ógert í grunnrannsóknum, í því að færa út mörk þekkingarinnar. Háð hans gat því verið napurt en hlýja og velvild var þó það sem einkenndi manninn umfram allt. Sjálfur hafði hann þau orð um starf sitt, að í sínum augum væri fræðimaður fyrst og fremst homo ludens, maður sem eltist við sannleikann og hefði gaman af leiknum, jafnvel þegar sigrarnir létu á sér standa. Nú er hann horfinn af leikvellinum en æviverk hans mun gagnast íslenskum fræðum um ókomna tíð.

Hann var vinur minn og velgjörðamaður mestur. Ég minnist hans með djúpri virðingu og þakklæti.

Svanhildur Óskarsdóttir.