Víkverji eignaðist á dögunum Disney-teiknimyndina Mjallhvíti sem nú hefur verið endurútgefin á DVD. Hann sat heillaður í 80 mínútur og rifjaði upp kynnin af prinsessunni fallegu, vondu drottningunni, góða prinsinum og hinum litríku dvergum.
Víkverji eignaðist á dögunum Disney-teiknimyndina Mjallhvíti sem nú hefur verið endurútgefin á DVD. Hann sat heillaður í 80 mínútur og rifjaði upp kynnin af prinsessunni fallegu, vondu drottningunni, góða prinsinum og hinum litríku dvergum. Auðvitað er þessi mynd brakandi snilld og árin hafa ekkert unnið á henni. Þegar dvergarnir sungu: „Hæ, hó, hæ, hó...“ hríslaðist hrifningarstraumur niður eftir baki Víkverja. Svo voru dvergarnir svo skemmtilegir að Víkverji botnaði ekkert í því af hverju Mjallhvít var svo fús til að yfirgefa þá. En hún fann auðvitað prinsinn sinn eða hann fann hana og kyssti hana ástarkossi. Manneskjur verða að fylgja ástinni hvert sem hún leiðir þær. Í þessu tilviki lá leiðin beint í konungshöllina sem er vitaskuuld afar góður áfangastaður.

Víkverji ólst upp við Disney-myndir í Gamla Bíói forðum daga. Hann man enn spenninginn sem gagntók hann þegar ljósin slokknuðu og myndin byrjaði. Enn í dag er uppáhaldslitur Víkverja blái liturinn í Disney-myndunum sem hann sá svo oft í æsku sinni. Sá litur er í huga Víkverja tákn um ævintýraljóma og fegurð.

Vikverji er einlægur aðdáandi óþekkra krakka. Honum fellur vel hversu hugmyndarík þau eru og dáist að frumlegri hugsun þeirra. Lína langsokkur er til dæmis í miklu uppáhaldi hjá honum. Og vitanlega Emil í Kattholti. Svo er Víkverji sömuleiðis hrifinn af Skúla skelfi en bækur um hrekki hans koma út á hverju ári hjá Forlaginu. Nú eru nýkomnar bækurnar Skúli skelfir og hræðilegi snjókarlinn og Skúli skelfir og jólin. Þar fer Skúli vitanlega á kostum eins og ævinlega og gerir óhemju mikið af sér.

Víkverji fagnar jólabókaflóðinu innilega og ekki síst þeim mikla fjölda skemmtilegra barnabóka sem þá kemur út.