Brimsýra Bárujárn klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og fór á kostum í rokklastabælinu Sódómu.
Brimsýra Bárujárn klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og fór á kostum í rokklastabælinu Sódómu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áfram hélt maður að sprikla af tónfylltum unaði í Loftbylgjunum góðu á föstudagskvöldið. Ég byrjaði á því að kíkja á Pontiak Pilatus, sem inniheldur m.a. meðlimi úr sveitinni góðu Lokbrá. Kæruleysislegt, nett sýrt nýbylgjublúsrokk.

Áfram hélt maður að sprikla af tónfylltum unaði í Loftbylgjunum góðu á föstudagskvöldið. Ég byrjaði á því að kíkja á Pontiak Pilatus, sem inniheldur m.a. meðlimi úr sveitinni góðu Lokbrá. Kæruleysislegt, nett sýrt nýbylgjublúsrokk. Svo hentist ég niður á Hressó þar sem Trúbatrixur höfðu skipulagt kvöld. Hugmyndin á bak við þann félagsskap er snilld, og andrúmsloftið var þægilegt. Mysterious Marta var að leika þegar ég rak inn nefið, en tónleikarnir fóru fram í garðinum. Umgjörð, sem og tónlist, svínvirkaði.

Ein af frumlegustu og frískustu nústarfandi rokksveitum er hiklaust Bárujárn , en þar ægir saman ólíkum áhrifum í einkar bragðgóðri súpu. Sveitin lék af miklu öryggi í Sódómu. Ég kíkti svo aðeins á The Drums í Hafnarhúsinu og var lítt hrifinn. Staður kvöldsins var hiklaust Iðnó, en þar keyrði Bedroom Community sérstakt kvöld fjórða árið í röð. Daníel Bjarnason kom þar fram með kammersveit og flutti verk af væntanlegri plötu sinni, Processions. Mikilúðleg tónlist sem bar um leið með sér þekkilega stillu og fínlegheit.

Sometime klikkaði ekki á Batteríinu, söngkonan Diva de la Rosa var í sínu fínasta pússi; glæsilegt hreint út sagt og keyrt var á nýju efni.

Aftur var haldið í Iðnó þar sem Tim Hecker – sem er að öðrum ólöstuðum „stærsti“ gestur hátíðarinnar – lagði salinn undir djúpt, knýjandi og naumhyggjulegt drón. Og HÁTT var það. En hlutirnir áttu eftir að verða enn rosalegri í Iðnó síðar um kvöldið.

Hin nafntogaða Micachu var í Hafnarhúsinu ásamt sveit sinni The Shapes. Micachu gerir stórmerkilega hluti, tónlistina mætti kalla nýpopp, jafnvel andpopp, en hún fylgir í engu hefðbundnum reglum um lagasmíðauppbyggingu. Dálítið eins og Wire í upphafi ferils.

Reykjavík! hefur lengi verið með allra bestu tónleikasveitum landsins og hún átti salinn í Sódómu, aðdáendur tróðust upp að sviðinu og erlendir gestir fylgdust með í forundran. Gott var svo að sjá Pedro Pilatus & Bear Hug halda uppi dúndrandi teknóstemningu inni á Jacobsen en Pedro er listamannsnafn Loga Pedros Stefánssonar, bassaleikara Retro Stefson.

Ben Frost endaði kvöldið á Iðnó með mögnuðum hætti. Ný plata hans, By the Throat , kom út hér á landi í vikunni og inniheldur koldimmar, óttalegar og skuggalegar stemmur. Ég gat ekki annað en hugsað „já, sææææælll!“ þegar Frost fór í gang, en innihald plötunnar undirstrikaði hann með líklega háværustu tónleikum sem hér hafa verið haldnir. Tennurnar í mér glömruðu (grínlaust), ég fékk hausverk og ónot í maga. Fólk hóf að flýja úr salnum og tíðnisviðið sem hann vann á var út af kortinu. Svona á að gera þetta! Snilld, algjör helv... snilld!

Arnar Eggert Thoroddsen