Bylgja Hrönn Nóadóttir fæddist þann 2. júlí 1960 að Ártúni á Tálknafirði. Hún lést á bráðamótöku Landspítalans við Hringbraut þann 14. september. Foreldrar hennar eru Nói A. Marteinsson, f.16.11.1934, og Fríða Sigurðardóttir, f.17.11.1936. Systkini Bylgju eru 1) Börkur Hrafn, f.16.01.1970, kvæntur Helenu Rut Hinriksdóttur, f.05.09.1971, barn þeirra er Hinrik Nói, f.2006, fyrir á Börkur tvíburana Hafþór Karl og Sigurð Ágúst, f. 2002, Helena á fyrir Ásgerði Elínu, f. 1996. 2) Ingibjörg Jóna Nóadóttir, f.06.11.1979, sambýlismaður hennar er Birgir Már Gunnarsson, f.15.04.1980. Birgir á soninn Ísak Daða. f.2002. Bylgja giftist 18. júlí 1980 Kristni Sigurbirni Magnússyni, f.28.09.1951, d.14.04.1988. Þau skildu. Foreldrar hans voru Magnús Helgi Sigurbjörnsson, f.21.05.1929, d.05.04.1976, og Hildigunnur Kristinsdóttir f.18.07.1930, d.29.10.2007. Auk dætra Bylgju og Kristins átti Kristinn fjögur börn, elst þeirra er S. Harpa Kristinsdóttir, f.1969, hún ólst upp að hluta hjá Bylgju og Kristni á Tálknafirði. Dætur Bylgju og Kristins eru 1) Hildigunnur Kristinsdóttir, f.26.04.1980, unnusti hennar er Ívar Pétur Hannesson, f.27.10.1977, barn þeirra er Hannes Kristinn, f.2006, fyrir á Ívar börnin Jón Axel, f.1995, og Eydísi Hönnu, f.2000. 2) Fríða Hrund Kristinsdóttir, f.30.03.1982, unnusti hennar er Róbert Árni Jörgensen, f.25.03.1983, barn þeirra er Róbert Maron, f.2009. Árið 2003 kynntist Bylgja núverandi sambýlismanni sínum, Bjarka Hrafni Ólafssyni, f.18.11.1955, foreldrar hans eru Ólafur J. Helgason, f.24.12.1920 og Veronika Pétursdóttir, f.20.07.1922. Sonur Bjarka frá fyrra sambandi er Atli Fannar, f.13.04.1984. Bylgja og Bjarki byggðu sér fallegt heimili að Tjaldhólum á Selfoss þar sem börn þeirra áttu sér fastan sess í tilverunni. Bylgja ólst upp á Tálknafirði og vann þar ýmis störf, m.a. verslunarstörf, við fiskvinnslu og á leikskóla staðarins. Árið 1974 fór hún á Akranes þar sem hún var einn vetur í skóla, síðar fór hún að Skógaskóla undir Eyjafjöllum og var þar tvo vetur. Þá stundaði hún einnig nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Bylgja vann lengi í fiskvinnslufyrirtækinu Þórsberg á Tálknafiði, síðustu árin þar sem matsmaður. Árið 1997 flutti Bylgja til Hveragerðis þar sem hún vann á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Eftir að Bylgja flutti á Selfoss árið 2005 vann hún í Guðnabakarí og síðar á leikskólanum Hulduheimum, þar sem hún vann hug og hjörtu barnanna og samstarfsfólks. Á Tálknafirði liggja rætur Bylgju og sótti hún mikið þangað eftir að hún flutti á Suðurlandið. Minningarathöfn um Bylgju fór fram í Selfosskirkju fimmtudaginn 24. september en útför hennar er gerð frá Tálknafjarðarkirkju í dag, laugardaginn 26. september, klukkan 14:00.

Mánudaginn 14. september síðastliðinn barst okkur sú sorgarfregn að Bylgja sambýliskona Bjarka frænda okkar væri látin.  Við vissum að hún var búin að vera veik en kallið var óvænt þegar það kom.

Árið 2005 fréttum við að frænkurnar að Bjarki væri kominn með konu, eftir að hafa búið lengi einn með Atla Fannari syni sínum.  Við samglöddumst honum innilega.  Ekki kom annað til greina en að bjóða henni að ganga í ættarsaumaklúbbinn sem hún þáði okkur til mikillar gleði.  Þegar Bylgja kom í fyrsta klúbbinn fundum við hvað hún hafði góða nærveru og féll vel inn í hópinn og var tilbúin að kynnast öllum frænkunum og fjölskyldum þeirra.  Bylgja var einnig dugleg að leyfa okkur að fylgjast með dætrum sínum, tengdasonum og litlu barnabörnunum.  Bylgja og Bjarki mættu stolt á ættarjólaböll með allan hópinn sinn þar sem þeim var tekið sem hluta af fjölskyldunni.

Fyrst saumaklúbbur haustsins átti að vera á heimili Bylgju og Bjarka nú í september en vegna veikinda sinna var hún nýbúin að fresta honum þar til hún yrði hressari.

Menn ætla en Guð ræður.

Við kveðjum Bylgju með söknuði og biðjum góðan Guð að styrkja Bjarka og fjölskylduna alla á þessum erfiðu stundum.

F.h.  ættarsaumaklúbbsins og fjölskyldna þeirra,

Jóhanna Bj., Jóhanna Sigríður, Ingibjörg Hulda og Eyrún.

Fyrstu kynni mín af Bylgju hófust þegar hún gekk inn í 2. bekk í Gagnfræðaskóla Akraness, ég sat ein og kom hún og spurði hvort sætið við hliðina á mér væri laust ég játaði því og sagði henni endilega að sitja hjá mér. Þá var Bylgja nýorðin fimmtán ára og ég var að verða fimmtán. Upp frá þessum degi vorum við óaðskiljanlegar. Hittumst við á hverjum degi annað hvort heima hjá mér eða henni en ég átti heima beint á móti skólanum svo að stutt var að skjótast heim í kaffi en Bylgja bjó hjá frænda sínum Árna og konu hans Hrefnu á Presthúsabrautinni sem var nokkrum götum neðar en skólinn.

Bylgja kom til Akraness vegna þess að hún var frá Táknafirði og þegar unglingar þaðan voru komin á framhaldsskólaaldur þá þurftu foreldrar að leita annað með menntun barna sinna. Þegar við hittumst á kvöldin þá spiluðum við plötuna með Neil Sadaka út í eitt, frábær lög eins og Breaking Up Is Hard to Do" og Happy Birthday Sweet Sixteen" og fleiri. Alltaf var stutt í hláturinn og góða skapið hjá henni sem var svo smitandi og skemmtilegt. Þegar hún var að fá peninng að vestan frá pabba og mömmu þá gengum við upp á símstöð því að í þá daga var hægt að senda pening símleiðis. Þá lá mjög vel á okkur því síðan fórum við beint niður á Fóló" en það var sjoppa sem var kölluð þessu nafni þar pöntuðum við pulsu með öllu, miðstærðina af kók og hraun súkkulaði svona splæstum við á hvor aðra og var þetta frábær veisla í þá daga og gaman hjá okkur eftir því. Síðan fórum við á Skverinn" niður í bæ sem kallað var þar sem krakkarnir hittumst og stundum á rúntinn með Gústu systir sem okkur þótti mjög skemmtilegt. Héldust vinnáttuböndin alla tíð þó það liði einhver tími að við heyrðumst þá vorum við alltaf sömu vinirnir.

Vorið 1989 kom ég í heimsókn til þín til Tálknafjarðar með son minn Björn Aron þá fjögurra ára gamlan og voru stelpurnar hennar Bylgju, Hildigunnur níu ára og Fríða Hrund sjö ára. Við skruppum þá yfir í Örkina að heilsa upp á foreldra Bylgju, Nóa og Fríðu og þegar Nói heilsaði og tók í hendina á Birni þá sagði hann mjög ákveðið ég held með ÍA og Arsenal og þetta fannst Nóa mjög skemmtilegt að heyra. Þetta var mjög góð ferð og gaman að kynnast heimaslóðum Bylgju. Við keyrðum saman með börnin okkar alla Vestfirðina borðuðum á Ísafirði og keyrðum síðan til Bolungarvíkur. Síðan fórum við með Bylgju og stelpunum í náttúrulega heita potta sem eru í fjallshlíðinni utar í firðinum með svolítilli búningsaðstöðu, þetta var ógleymanleg upplifun. Á móti þá komu Bylgja og stelpurnar til okkar nokkrum sinnum á páskum til að geta stoppað í nokkra daga. Þá var mikið hlegið, spilað, eldaður góður matur og rifjað upp gamlar og góðar endurminningar.

Eftirminnilegasta ferðin sem við Bylgja fórum saman með krakkana var farin haustið 1995 á Benidorm í tvær vikur. Þegar við vöknuðum á morgnana þá gerðum við okkur te og spjölluðum saman yfir tebollanum. Síðan vöktum við krakkana og fengum okkur morgunmat. Við röltum síðan niður á ströndina en hótelið, Tropic Mar sem við vorum á var alveg við ströndina Þegar við vorum búnar að sóla okkur allan daginn og Björn og Hildigunnur löngu farin upp í íbúðina að spila þá fóru allir í bað og dubbuðu sig upp fyrir kvöldmatinn. Eftir kvöldmat fórum við síðan alltaf á veitingastað sem heitir Cafe Romans, þar var hljómsveit sem spilaði mikið af lögum með Abba og Boney M og dönsuðum við Bylgja þá við krakkana. Hildigunnur og Fríða voru ný búnar að læra að dansa eftir fugladansinum sem var mikið í tísku þá. Spilaði hljómsveitin svo lagið með fugladansinum og dönsuðu þá systurnar dansinn fólkið var svo hrifið að það fór að dansa með þeim og við auðvitað líka. Eftir þetta þegar við komum á staðinn þá spilaði hljómsveitin lagið með fugladansinum um leið og þau sáu stelpurnar koma.

Síðan þegar kom að framhaldsskólaaldri hjá stelpunum hennar Bylgju þá fluttu þær til Hveragerðis því Bylgja vildi fylgja þeim enda voru mæðgurnar mjög samrýndar. Eftir nokkur ár þá flutti Bylgja til Selfoss en þá hafði hún kynnst yndislegum manni, honum Bjarka. Á Selfossi sköpuðu þau sér fallegt heimili og voru mjög hamingjusöm. Bylgja greinist svo með sortuæxli sem virtist vera saklaust en reyndin varð allt önnur og þessari ungu lífsglöðu konu var kippt í burtu langt fyrir aldur fram.

Ég vil þakka þér, Bylgja mín, fyrir áratuga langa vináttu, minningin um þig mun lifa alla tíð í huga mér.

Ég vil votta Bjarka, Fríðu, Nóa, Hildigunni, Fríðu og öllum ættingjum og aðstendenum mína dýpstu samúð. Megi Guð blessa alla ættingja og aðstendendur sem bera söknuð í hjarta.

Þín vinkona

Ólöf í Hveragerði.

Elsku hjartans frænka.
Ég vil nú ekki trúa því að þú sért farin frá okkur. Mikið brá mér þegar Guðný frænka þín kom til mín og sagði mér það. Þú sem varst í blóma lífsins. Það er svo oft sem lífið er svo óréttlát að taka þig frá okkur elsku frænka. Ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum þegar þú komst með mömmu þinni og pabba til okkar Gísla í sveitina. Þú varst alltaf svo kurteis og hlédrægur krakki og alltaf svo þakklát fyrir allt og þakkaðir alltaf svo vel fyrir þig það sem þér var gefið. Guðný frænka þín sendir þér hjartans kveðjur og þakkar fyrir allar stundirnar í sveitinni þegar þið voruð að leika í búinu og baka kökur og margar aðrar góðar minningar. Nú eru þínar þrautir búnar við þennan íllvíga sjúkdóm elsku frænka guð og englarnir vaka yfir þér.
Þessar vísur langar mig að senda þér sem Gísli orti.
Þökkum greiða og þægindi
Það sem eyðist varla.
Ástarheiða atlæti
sem á okkur leiðir falla.
/
Minningin er mér svo kær
í mínu þróast gleði.
þegar ég er farin fjær
finn ég best sem skeði
(Gísli Gíslason.)

Elsku Nói ,Fríða og fjölskylda og aðrir aðstendur megi Guð og englarnir vaka yfir ykkur og gefa ykkur styrk
Guð geymi þig
Kveðja,


Marta Þórðardóttir frá Hreggsstöðum