Vilborg Stefánsdóttir fæddist að Litla-Hvammi í Mýrdal 21.maí árið 1921. Hún lést á Landakotsspítala 3. sept. sl. Vilborg var yngsta barn hjónanna Stefáns Hannessonar, kennara og bónda í Litla-Hvammi, f. 16.03. 1876 í Efri-Ey í Meðallandi, d.30.12.1960 og Steinunnar Helgu Árnadóttur, húsmóður, f. 12.09. 1881 í Hrífunesi í Skaftártungu, d. 20.08. 1964. Systkini Vilborgar voru Ástríður f. 14.10.1903, d. 30.03.1989. Árný Sigríður f. 06.05. 1905, d.19.03.2002. Brandur Jón f. 20.05.1906, d. 15.10.1994. Þuríður Guðrún f. 14.10.1907, d.1.5.1982. Baldur f.22.11.1911. d. 10.04. 1995. Gunnar f. 23.07.1915, d. 07.4. 1984 og Helga, f.19. 9. 1917, d. 22.12.2005. Vilborg ólst upp í Litla-Hvammi og stundaði þar öll hefðbundin sveitastörf með öðru heimilisfólki. Undir tvítugt fór hún að heiman og starfaði m.a. við barnagæslu, við bústörf sem kaupakona og síðar bæði við verslunarstörf og saumaskap, þá í Reykjavík. Vilborg giftist þann 13.04 1954, Jóni Kjartanssyni, sýslumanni í Vík í Mýrdal f. 20.07. 1983, d. 06.10. 1962. Þau eignuðust dótturina, Sólrúnu f. 27.09. 1955 en fyrir átti Jón þrjú börn af fyrra hjónabandi, Guðrúnu, Höllu Oddnýju og Sigurð Briem. Móðir þeirra var Ása Sigurðardóttir Briem, f. 14.06. 1902, d. 02.11. 1947. Sambýlismaður Sólrúnar er Valur Jóhannesson, f. 31.12.1957. Synir þeirra eru Kári f. 26.10. 1986 og Ægir f. 03.06. 1989. Áður eignaðist Vilborg dótturina Steinunni Helgu, f.12.03.1949. Faðir Steinunnar Helgu var Lárus Jónsson, f. 03.09.1915, d. 14.10. 1988. Dóttir Steinunnar Helgu er Silja Ástþórsdóttir, f. 08.07.1971. Sambýlismaður Silju er Leifur Örn Haraldsson, f. 20.02. 1968. Þau Vilborg og Jón bjuggu í Vík en Vilborg flutti til Reykjavíkur árið 1963 ásamt dætrum sínum ári eftir að Jón lést. Í Reykjavík starfaði Vilborg fyrst við umönnunarstörf á sjúkrahúsinu Sólheimum en síðar lengst af við saumaskap hjá Sjóklæðagerðinni, síðar saumastofunni Max. Vilborg bjó á heimili sínu að Kleppsvegi 6 frá því hún flutti til Reykjavíkur og þar til hún lést. Útför Vilborgar verður frá Víkurkirkju í Vík í Mýrdal laugardaginn 26. september og hefst athöfnin kl. 14.00.

Kvöld eitt er ég sat hjá ömmu nokkrum vikum fyrir andlátið virtist það hvíla á henni að hún vildi þakka fólkinu sínu fyrir hvernig það hefði sinnt sér í veikindum sínum. Hún sagði að þótt enginn vissi sitt dánardægur þá fyndist henni hún ekki eiga langt eftir. Þá var í raun ekkert sem benti til þess að hún færi svona fljótt frá okkur og í viðleitni minni til þess að friða þær áhyggjur sem hún virtist hafa af þessu, hafði ég enga hugsun á að segja henni að ég hefði svo miklu miklu meira til að vera henni þakklát fyrir en hún mér.

Ég vil þakka ömmu fyrir óendanlega elsku og umburðarlyndi í minn garð og fyrir allar góðu stundirnar okkar saman. Við vorum yfirleitt glaðar saman.

Amma var baklandið mitt. Í síbreytilegri tilveru okkar mömmu var amma á Kleppsveginum fasti punkturinn í lífi mínu. Ítrekað bjó ég hjá henni í lengri eða skemmri tíma á hinum ýmsu aldursskeiðum í lífi mínu.

Sem barn var ég einnig iðulega hjá henni og Sólrúnu um helgar og var það alltaf jafn notalegt. Á morgnana fékk ég kókópuffs í morgunmat og í kaffinu snúð og kókómjólk nammi namm! Þegar kvöldaði fór ég í bað og mátti busla eins lengi og ég vildi og aldrei var farið upp úr fyrr en tær og fingur voru orðin sem rúsínur. Á kvöldin kom ég mér fyrir á púðum á gólfinu fyrir framan sjónvarpið. Amma sat í sófanum ávallt með prjóna í höndum. Við misstum aldrei af Tomma og Jenna og hlógum mikið af þeim. Gamlar söng- og dansmyndir voru líka eitthvað sem alls ekki máttu fram hjá okkur fara.

Svo má ekki gleyma öllum sumarfríunum okkar fyrir austan. Þau frí voru algjör sæla. Dagarnir fóru í leik, drullukökugerð, að reka beljurnar, moka flórinn, heyskap og göngur með ömmu upp að Oddnýjartjörn eða upp Gerðin eða eitthvað enn lengra.

Amma sýndi fólki mikla ræktarsemi og í gegnum tíðina fylgdi ég henni iðulega í heimsóknir til vina og vandamanna sem og að sjúkrabeðum og í jarðarfarir. Með því að fylgja ömmu og hennar fordæmi lærði ég margt um lífið.

Einhverntímann á vegferð okkar ömmu saman fóru hlutverkin smátt og smátt að snúast við. Ég fór að taka hana með mér í leikhús, á myndlistarsýningar eða í bíltúr og síðustu mánuðina að nudda fætur hennar eða strjúka ennið þar sem ég sat við rúmstokkinn hjá henni. Og alltaf var vináttan hin sama.

Fyrir allt þetta og miklu meira fæ ég aldrei fullþakkað og þó ég hafi ekki komið þakklæti mínu í orð í þetta skiptið þá tel ég að hún hafi samt sem áður vitað hvað mér leið.

//

Minningabrot um systkini ömmu á Hvammbóli.

Á hverju sumri barnæsku minnar hélt ég syngjandi glöð af stað í sveitina. Við amma vorum á leið til Helgu, Árnýjar og Baldurs á Hvammbóli og þegar rútan nálgaðist Pétursey var óþreyjan orðin mikil.

Á Hvammbóli var ávallt nóg um að vera. Án nokkurs asa eða áminninga leiðbeindi Baldur mér við fjósverkin. Í sömu rólegheitum keyrðum við út á Engjar og ég sat sæl með lífið í hliðarsætinu á græna traktornum hans Baldurs.

Heima fyrir kíkti ég reglulega inn til Árnýjar. Hjá henni fékkst ævinlega hlýtt bros og mjúkt faðmlag og oft var gaukað að manni einhverju góðgæti til að hafa með sér.

Ég gat yfirleitt treyst því að finna Helgu í eldhúsinu. Hún eldaði og bakaði ofan í okkur öll. Séð með augum barns virtist hún búa yfir ótæmandi uppsprettu randalína, kleina og kanilsnúða.

Ég sé Helgu enn ljóslifandi fyrir mér sitjandi gegnt mér við eldhúsborðið þar sem við dunduðum okkur við að leggja tveggja manna kapal og hún hlæjandi að einhverri endemis vitleysunni sem okkur hafði nú dottið í hug.

Nú er Helga farin til annarra heima. En minningin lifir um þau öll.

Skrifað í desember 2005 í kjölfar andláts Helgu.

Silja.