Einar Kristmundsson fæddist í Rauðbarðaholti í Hvammsveit í Dalasýslu 4.12. 1920. Hann andaðist á dvalarheimilinu Silfurtúni í Búðardal 5.4. 2009. Faðir hans var Kristmundur Eggertsson, f. 20.10. 1891, d. 2.3. 1961. Móðir hans var Salóme María Einarsdóttir, f. 3.6. 1888, d. 19.6. 1977. Systkini Einars eru Georg, f. 6.12. 1921, d. 1.3. 1937, Guðlaug, f. 6.1. 1924, d. 14.9. 1990, Ingiríður, f. 21.12. 1925, Eggert, f. 12.3. 1929. Eftirlifandi eiginkona Einars er Guðrún Jóhannesdóttir, f. 26. apríl 1932, frá Merkigili í Skagafirði. Börn Einars og Guðrúnar eru: 1) Monika Björk, f. 23.3. 1955, sambýlismaður Halldór Gunnarsson. Sonur Moniku og Helga Jónssonar er Heiðar Smári, f. 21.7. 1977, sambýliskona Norma Dís Randversdóttir. Börn þeirra eru Bríet Fríða og Emilía Ýr. Faðir Bríetar er Ingi Örn Kristjánsson. Synir Moniku og Erlings Kristinssonar eru Einar Hlöðver, f. 11.12. 1982, Sævar Þór, f. 24.7. 1992, Kristinn Rafn, f. 18.2. 1994. 2) Kristbjörg María, f. 12.7. 1957, sambýlismaður Ágúst Árnason. Sonur hennar og Eyjólfs Pálssonar er Arnar Páll, f. 27.11. 1976. Dóttir hans og Elínar Ólafsdóttur er Guðrún Eydís. Börn Kristbjargar og Ragnars Antonssonar eru Björgvin Sævar, f. 31.5. 1982, eiginkona Sigríður Huld Skúladóttir. Dætur þeirra eru Kristey Sunna og Embla Dís. Rúnar Freyr, f. 13.1. 1989, Sandra María, f. 7.10. 1991. 3) Jóhanna Bjarney, f. 28.2. 1962, eiginmaður Sæmundur Jóhannsson. Barn Jóhönnu og Sæmundar er Kolbrún Rut, f. 20.4. 1996. Barn Jóhönnu og Gísla Konráðssonar er Eyrún Harpa, f. 30.5. 1984. 4) Anna Berglind, f. 30.6. 1963, eiginmaður Samúel Ágústsson. Börn þeirra eru, Samúel Ágúst, f. 20.5. 1986, Sólveig Rún, f. 7.7. 1994, Stefán Logi, f. 4.7. 1996. 5) Georg, f. 12.8. 1964. Sonur hans og Guðrúnar Halldórsdóttur er Davíð, f. 7.3. 1987. Börn Georgs og Maríu Kristjánsdóttur eru Ester, f. 5.5. 2001 og Hjalti, f. 9.2. 2004. 6) Ásta Birna, f. 11.3. 1970, eiginmaður Bjarni Jónsson. Einar bjó alla sína tíð í Rauðbarðaholti. Hann tók við búi foreldra sinna árið 1962 en hafði árið 1953 keypt helming jarðarinnar. Einar og Guðrún giftu sig heima í Rauðbarðaholti 6.6. 1953. Einar var bóndi af Guðs náð. Hann hafði mikinn áhuga á að rækta land sitt og bústofn. Ekki var búskapurinn alltaf dans á rósum. Á fyrstu árunum þurfti að skera niður allan bústofninn vegna mæðuveiki og oft voru heyin af skornum skammti. En með þrautseigju sem honum var í blóð borin vannst sigur í hverri þraut. Bú Einars og Guðrúnar var alla tíð til fyrirmyndar og þangað var gott að koma. Á sínum yngri árum starfaði Einar í ungmennafélagi sinnar sveitar og vildi veg þess sem mestan. Hann var þrjú kjörtímabil í hreppsnefnd Hvammssveitar frá árunum 1982-1994. Hann fluttist 1.4. 2003 að dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum og loks að dvalarheimilinu Silfurtúni í Búðardal 18.9. 2006. Útför Einars fer fram frá Hvammskirkju í Dölum í dag, 15. apríl og hefst athöfnin klukkan 14.

Son Guðs ertu með sanni,
sonur Guðs, Jesús minn,
son Guðs, syndugum manni
sonar arf skenktir þinn,
son Guðs einn eingetinn.
Syni Guðs syngi glaður
sérhver lifandi maður
heiður í hvert eitt sinn.


Hallgrímur Pétursson

Blessuð sé minning þín.

Þín

Guðrún.

Elsku afi.

Það var alltaf svo notalegt að koma í heimsókn til þín afi minn. Mér þótti mjög vænt um þig og ég veit að þér þótti vænt um mig líka. Þú varst alltaf svo góður við alla. Þú spurðir mig hvernig mér gekk í skólanum og varst svo ánægður með að ég væri að læra á harmonikkuna. Þú hafðir svo gaman af tónlist.

Ég vona að þér líði betur núna hjá mömmu þinni og pabba, þú varst orðinn svo veikur.

Ég mun aldrei gleyma þér elsku besti afi minn.

Guð blessi þig.

Þín

Kolbrún Rut.


Þú lést þér annt um litla sauðahjörð.

Þú lagðir rækt við býli þitt og jörð

og blessaðir sem barn þinn græna reit

þinn blómavöll, hvert strá, sem augað leit.

/

Og þótt þú hvílist sjálfur undir súð,

var seint og snemma vel að öðrum hlúð,

og aldrei skyggði ský né hríðarél

á skyldur þínar, tryggð og bróðurþel.

/

Þú hafðir öllum hreinni reiknisskil.

Í heimi þínum gekk þér allt í vil.

Þú hirtir lítt um höfðingsnafn og auð,

því hógværð þinni nægði daglegt brauð.

(Davíð Stef.)

Elsku
pabbi , þetta ljóð segir meira um þig en mörg orð. Ég kveð þig með
miklum söknuði og þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér og fyrir
allt sem þú kenndir mér. Þrátt fyrir þín erfiðu og löngu veikindi var
ekki langt í kímnigáfuna og þú barst þig hetjulega til hinstu
stundar.   Guð varðveiti þig elsku pabbi minn.
Þín dóttir,

Anna Berglind

Elsku afi okkar.

Við erum varla ennþá búin að átta okkur á því að þú sért farinn. Í gegnum tíðina hefur þú staðið af þér hin ýmsu veikindi af mikilli seiglu og með sterku hjarta. Þegar við fengum símhringingu laugardaginn 4. apríl síðastliðinn fannst okkur það fjarstæðukennt að sólarhring seinna yrðir þú allur. Mikil sorg ríkti yfir Silfurtúni í Búðardal á sunnudeginum 5. apríl. Orð fá því ekki lýst hversu sárt við söknum þín. Andlát þitt var einstaklega friðsælt og fallegt. Það var alltaf hægt að hafa nóg að gera þegar við komum í Rauðbarðaholt til þín og ömmu. Við gengum upp á Bæjarborg, lékum okkur í fótbolta úti hjá snúrustaurunum, fórum í feluleik inni í húsi eða lékum okkur uppi á lofti. Þá áttir þú það til að koma og segja okkur að vera ekki að hlaupa uppi því það heyrðist svo mikið niður. Aldrei munum við til þess að þú hafir orðið neitt reiður, sama hversu mikil læti við vorum með heldur sagðirðu okkur að vera róleg með strangri föðurlegri rödd. Þú lést þér annt um jörðina þína og ræktaðir hana vel. Þú hugsaðir alltaf vel um kindurnar þínar en hænurnar á bænum voru í umsjá ömmu. Oft vorum við ávítt fyrir að styggja kindurnar sem voru þér gulls ígildi. Okkur þótti alltaf rosalega gaman að koma í sveitina til þín og ömmu. Elsku afi, þó að við kveðjum þig með miklum söknuði þökkum við af öllu hjarta fyrir að hafa fengið að kynnast þér.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjar dóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu gengin á guðanna fund,

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingr.)

Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með þér og munum alltaf geyma minninguna um þig í hjarta okkar.

Þín afabörn,

Samúel Ágúst, Sólveig Rún og Stefán Logi.

Elsku afi minn, í dag kveð ég þig í hinsta sinn. Ég á bágt með að lýsa því með orðum hve vænt mér þótti um þig og hve mikið það gaf mér að hafa fengið að kynnast þér. Þú varst gull af manni. Þú varst mjög umhyggjusamur, iðjusamur og traustur maður. Þú varst líka nægjusamur og fórst sérstaklega vel með alla þá hluti sem þú eignaðist.

Það voru forréttindi að fá að alast upp í sveitinni hjá ykkur ömmu. Þið áttuð stóran þátt í uppeldi mínu eftir að við mamma fluttum vestur til ykkar og af ykkur lærði ég margt sem verður mitt veganesti út í lífið. Þú elskaðir sveitina þína og þér leið hvergi betur en í fjárhúsunum þínum. Þar áttum við margar góðar stundir saman sem ég mun aldrei gleyma.Þegar ég hugsa til baka er ein af mínum fyrstu minningum um þig þegar ég fékk að sitja hjá þér í dráttarvélinni og halda í stýrið, ég var líklega fimm eða sex ára stelpuskotta þá. Við hossuðumst í vélinni við að slóðadraga túnin í Holti, það þótti mér gaman.

Ég man líka hvað ég var smeyk við kindurnar fyrst eftir að ég flutti vestur. Ég ríghélt í höndina þína hvert sem þú fórst ef kind var nærri. Þetta óx þó fljótlega af mér, enda varst þú duglegur við að stappa í mig stálinu og segja mér að þær væru miklu hræddari við mig en ég væri við þær.Þú hafðir alltaf mikla unun af lestri og skrifum. Í hádeginu eftir fréttir varstu iðulega kominn með bók eða penna í hönd. Ég vona að nú fáir þú að gera allt það sem þú hafðir svo gaman af og njótir þess að vera með systkinum þínum, Georg og Laugu, mömmu þinni og pabba.Elsku afi, guð blessi þig og varðveiti.

Þitt barnabarn,

Eyrún Harpa.

Elsku pabbi, þú varst yndislegur faðir og vinur. Ég er ykkur mömmu ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið að alast upp í sveitinni innan um dýrin og náttúruna, sú minning býr í hjarta mér um alla tíð. Þegar ég hugsa til baka þá stendur einna hæst minningin um þig þegar þú tókst á móti okkur Eyrúnu Hörpu í blindbyl veturinn 1989, þegar ég flutti vestur. Þú beiðst niðri á vegi eftir okkur á dráttarvélinni og tókst á móti okkur opnum örmum. Takk fyrir þann tíma sem ég fékk að vera hjá ykkur í sveitinni, hann var ómetanlegur.

Elsku pabbi, þú áttir langa og stranga sjúkrasögu að baki, sem ég ætla ekki að tala um á þessari kveðjustund, ánægjustundirnar voru líka margar og gott er að minnast þeirra. Við áttum svo margar góðar stundir saman á Silfurtúni og það var alltaf svo gott að hittast og spjalla saman. Ég á eftir að sakna heimsóknanna til þín á kvöldin elsku pabbi. Mig langar að þakka starfsfólkinu á Dvalarheimilinu Silfurtúni fyrir hlýhug og vinsemd bæði í þinn garð, elsku pabbi, sem og okkar aðstandendanna þegar við áttum um sárt að binda. Það var ómetanlegt.

Elsku pabbi, nú kveð ég þig í síðasta sinn.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V.Briem.)

Guð blessi þig.

Þín

Jóhanna Einarsdóttir.

Elsku Einar langafi minn, ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna. Það var gaman að tala við þig og hlusta á þig segja sögur frá gamla tímanum. Ég kom oft í heimsókn til þín elsku langafi og ég mun alltaf hugsa hlýtt til þín. Ég ætla að vera dugleg að heimsækja Guðrúnu langömmu mína og passa hana fyrir þig.

Hvíldu í friði.

Guðrún Eydís.

Afi var rólegur maður, hjartahlýr, hógvær, skipulagður, jarðbundinn, trúaður, ákveðinn og hafði ákveðnar skoðanir á ýmsum málum t.d. stjórnmálum. Hann var Framsóknarmaður fram í fingurgóma.

Á sunnudögum hlutaði hann ævinlega á messur. Hann fylgist mjög vel með fréttum, las mikið og hélt dagbækur, þær innihéldu m.a. veðurlýsingar, innkaup, vörusölu, heimsóknir o.fl. Ég náði að komast vestur að Silfurtúni um hálfum sólarhring fyrir andlát þitt. Fékk að sjá þig opna augun, tala til þín, halda í hendur þínar, kveðja þig. Við fjölskyldan vorum viðstödd, þú vissir af okkur. Elsku afi það er sárara en orð fá líst að þú sért horfinn á braut, allar minningarnar um þig safnast saman og einhvern veginn sér maður fram úr þokunni.

Okkar síðasta alvöruspjall áttum við um þremur vikum fyrir andlát þitt. Þú sast í hjólastólnum þínum og sagðir mér sögur frá gamla tímanum. Þú varst fróður maður og hefur lifað tímanna tvenna. Nýja húsið í Holti kom ekki fyrr en þú varst rúmlega þrítugur og fjárhúsin skömmu síðar. Það hefur verið bylting að flytjast úr torfbænum yfir í glænýtt íbúðarhús þar sem ég skrifa þessi orð. Héðan á ég yndislegar minningar, ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að eiga heima hjá ykkur ömmu fyrstu fjögur ár ævi minnar. Þar kynntist ég þeim heiðursmanni sem þú varst, ég kom alltaf vestur í öllum fríum til 16 ára aldurs, því best af öllu þótti mér að vera hjá ykkur ömmu. Ástúð og umhyggja umlukti mig í Rauðbarðaholti og hvergi leið mér betur.

Þú kenndir mér ótalmargt, m.a. kynntist ég sveitastörfunum, ég fann þá ró sem einkennir sveitina, fjarri ys og þys borgarinnar. Það að una sér í sveit er ekki allra en þangað leita ég núorðið til endurnæringar því borgin sýgur úr manni allan kraft. Það voru alltaf erfiðar kveðjustundirnar þegar haldið var úr sveitinni. Ég man það eins og gerst hefði í gær þegar við þurfum að skríða á fjórum fótum heim í íbúðarhús eftir að hafa verið að gefa út í fjárhúsum. Það skall á bylur og við dokuðum í húsunum ef verða vildi að veðrinu slotaði. Þú varst sallarólegur og stappaðir í mig stálinu, sagðir mér að amma væri örugglega búin að kveikja útiljósin að utanverðu. Það var komið myrkur en við komumst heim að lokum eftir baráttu við norðaustan byl.

Fleiri minningar eins og fyrstu áramót dóttur minnar hjá ykkur ömmu, ferðin kringum strandir 2001 með ykkur, og þegar þú komst þú komst að heimsækja Guðrúnu Eydísi, fyrsta langafabarnið þitt með ömmu á sjúkrahúsið á Akranesi, henni þótti rosalega vænt um þig. Þú mátt vera virkilega stoltur af lífsverki þínu, þú annaðist jörð þína, bústofn og fjölskyldu einstaklega vel. Þú varst orðinn leiður á veikindunum og þér fannst leiðinlegt að geta lítið gert. Foreldrar þínir og systkini hafa tekið vel á móti þér. Við sjáumst síðar elsku afi minn, þú verður í framvarðarsveitinni sem tekur á móti mér. Ég kveð þig með miklum söknuði, þú munt vaka yfir okkur afkomendum þínum og leiðbeina í framtíðinni. Þú ert ljósið í mínu lífi.

Arnar Páll Eyjólfsson

Elsku pabbi þá er komið að kveðjustund. Mig langar í örfráum orðum að þakka þér fyrir allt það sem þú hefur verið mér um ævina. Minningarnar hrannast upp í huganum. Við að ganga um girðinguna sem óbornu kindurnar voru í, að athuga hvort einhver væri nýborin. Það þurfti að gefa öllum nýfæddum lömbum töflu og athuga hvort þau væru komin á spena. Þú varst svo nærgætinn við kindurnar þínar enda fóðruðust þær alltaf vel og afkoman var góð.

Ekki var umgengnin síðri í hlöðunni og fjárhúsunum, þar var sko allt til fyrirmyndar. Það er komið sumar og sól, þú ert að smyrja sláttuvélina og ætlar að fara að slá, allt þarf þetta nú að vera í góðu lagi. Við að fara niður að Teigi til að svíða svið í smiðjunni, ég fékk að snúa sveifinni og fórum auðvitað á Farmall dráttarvélinni. Svo voru það flögin, þú hafðir mikinn hug á að stækka túnið. Það þurfti að týna grjót úr flögunum og gaman þótti okkur krökkunum að sitja á jöfnunni þegar þú varst slétta. Svo þurfti að verja nýræktina fyrir gæsum og kindum. Pabbi var mjög trúrækinn maður, hann hlustaði oftast á messuna í útvarpinu og vildi hann að við krakkarnir sætum líka og hlustuðum. Við entumst yfirleitt ekki jafnvel og hann.

Þessi síðustu ár þín hafa ekki verið þér auðvelt pabbi minn, en þú tókst því með æðruleysi eins og öðru. Ég vona svo innilega að þér líði vel núna, og ég veit að vel hefur verið tekið á móti þér. Hvíl þú í friði elsku pabbi og englarnir vaki yfir þér. Guð geymi þig.

Þín dóttir,

Kristbjörg María Einarsdóttir

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)

Guð geymi þig elsku afi.

Þín,

Sandra María Ragnarsdóttir

Elsku afi.

Þá ert þú horfinn á braut á vit forfeðranna sem taka þér vafalaust opnum örmum.  Þín er og verður sárt saknað enda varstu mikill heiðursmaður sem öllum líkaði vel við.

Ég ólst að stærstum hluta upp í Rauðbarðaholti fyrst í húsinu hjá ykkur ömmu til 7 ára aldurs og síðar í neðra húsinu hjá mömmu og pabba eftir að það var byggt.

Alltaf þótti mér gaman að vera með þér afi minn.  Oft fékk ég að sita með þér í gamla  Zetornum þínum en vildi þó fljótlega fara að keyra sjálfur.  Þér líkaði vel í sveitinni og vildi helst hvergi annars staða vera.  Heyskapurinn, sauðburðurinn, smalamennskurnar og öll hin sveitastörfin vanstu samviskulega eins lengi og þú hafðir heilsu til.  Ég man t.d. vel að þú varst oft með koppafeitissprautuna við hendina, enda fórstu svo vel með tækin og annað sem þú áttir að fleiri mættu hafa lærdóm af.  Þú varst mikill Framsóknarmaður og þar hefur eitt stórt atkvæði vantað núna í kosningunum síðastliðnum.

Síðustu árin voru þér erfið vegna heilsu og sjónin næstum farin.  Í janúar fékkstu þó smá bragarbót á sjóninni og vona ég að það hafi létt þér síðustu mánuðina eitthvað.

Eitt sinn verða allir menn að deyja eins og segir í kvæðinu og núna er þinn tími kominn.  Ég kveð þig núna en við eigum eftir að hittast síðar á betri stað.

Þinn

Heiðar Smári.