Sigrún Guðjónsdóttir, náttúrufræðingur og kennari, fæddist á Eystra-Súlunesi í Melasveit 8. júní 1938.Hún lést í Svíþjóð 30. apríl 2009. Foreldrar hennar voru Ólöf Runólfsdóttir, f. 16.5. 1908, d. 3.11. 1971 og Guðjón Björgvin Gíslason, f. 11.9. 1915, d. 2.3. 1992. Þau voru bændur á Eystra-Súlunesi og frá 1944 bjuggu þau á Syðstu-Fossum í Andakíl. Sigrún var elst fjögurra systkina. Þau yngri voru Unnsteinn, f. 28.1. 1941, d. 9.2. 1962, Sigríður Lilja, f. 31.2. 1943 og Þóra Stella, f.18.9. 1947. Hinn 6. ágúst 1966 giftist Sigrún Lars-Erik Larsson, þjóðfræðingi og kennara, f. 24.11. 1935, frá Skáni. Foreldrar hans voru Ragnar Larsson, póstmeistari, f. 15.7. 1908, d. í maí 1990 og Margit Larsson, húsfreyja, f. 28.5. 1912, d. í febr. 2001. Börn Sigrúnar og Lars-Eriks eru: 1) Gunnar Björnstad, verkfræðingur, f. 2.5. 1968, kvæntur Hilde Björnstad, viðskiptafræðingi, f. 25.3. 1965. Dóttir þeirra er Hanna Nevena Björnstad, f. 17.2. 2006. Þau búa í Vesterås. 2) Åsa Lóa Larsson, kennari, f. 4.6. 1972, gift Olle Petersson, verkfræðingi, f. 19.10. 1969. Þeirra börn eru: Idun Petersson, f. 8.12. 2001 og Örn Petersson, f. 19.10. 2004. Þau búa í Sundsvall. 3) Ingvar Larsson, verkfræðingur, f. 2.2. 1974, búsettur í Norrköping. Sigrún var í Héraðsskólanum í Reykholti og fór í Menntaskólann að Laugarvatni eftir landspróf og útskrifaðist stúdent 1958. Hún fór til náms í Lundi um haustið, lauk licentiatprófi í jurtalíffræði og var við nám og störf í Svíþjóð til 1968, er fjölskyldan flutti til Íslands. Sigrún kenndi við Menntaskólann við Hamrahlíð og vann rannsóknarverkefni fyrir Álverið í Straumsvík. Eftir flutning til Svíþjóðar 1971 kenndi Sigrún við Ålsta folkhögskola í Fränsta, þar sem fjölskyldan settist að og kenndi Lars-Erik einnig við þann skóla. Sigrún var fróðleiksfús með afbrigðum, hún var mjög áhugasöm um gróðurheim landssvæða, hvort sem það var á Íslandi, Svíþjóð eða Kanaríeyjum. Auk kennslunnar hélt hún námskeið um ýmis efni, m.a. heilsufæði og pendúlfræði. Sigrún var ljóðelsk og orti ljóð, sem hún flíkaði lítið, einnig skráði hún endurminningar frá æsku sinni í Borgarfirði, sem eru merk heimild um aðstæður fólks á þeim tíma, sem hún var að alast upp. Sigrún lést á líknardeildinni í Sundsvall 30. apríl, bálför fór fram í Sockenstugan Torp 29. maí og minningarathöfn á Íslandi var 8. október 2009.


Sigrúnu kynntumst við stöllur fyrst, þegar við settumst í fyrsta bekk Menntaskólans að Laugarvatni haustið 1954. Margt hefur lífið kennt okkur á langri ævi og eitt af því er, að þau vináttubönd, sem við tengjum á þessum árum ævinnar, endast einstaklega vel. Eftir á að hyggja hefur Sigrún líklega verið sú lífsreyndasta í hópnum, þar sem hún hafði hugsað um stórt sveitaheimili í veikindum og sjúkrahúslegu móður sinnar, í fyrsta sinn, þegar hún var tólf ára að aldri. Hún hafði líka kynnst fornum búskaparháttum, sem voru óðum að breytast í hennar uppvexti. Sigrún líkti því við að fæðast á miðöldum, eins og hún upplifði lífsbaráttuna í æsku sinni. Hún rifjar upp í endurminningum sínum að sitja við glugga 1943 og horfa á klyfjalest flytja hey af flæðiengjum fyrir neðan Skeljabrekku. Unnsteinn yngri bróðir Sigrúnar og næstur henni í aldri var fæddur með alvarlega fötlun, sem útheimti mikla umönnun foreldra og sömuleiðis Sigrúnar sem elstu systur.

Skólaganga Sigrúnar fram að haustinu 1954 var ekki fyrirferðarmikil í tíma talið. Hún hófst við níu ára aldur, fram að því var foreldrum víða til sveita ætlað að sjá um uppfræðslu barna sinna. Eftir þrjú ár lauk Sigrún barnaprófi úr Andakílsskóla og varð þá hlé á skólagöngu í 3 ár, sem hún nýtti til heimanáms, uns hún settist í Reykholtsskóla 15 ára og lauk landsprófi um vorið með hæstu einkunn.

Ein úr hópnum okkar, Edda, hafði verið Sigrúnu samtíða í Reykholti og minnist þess að hún var afburða námsmaður. Áfram segir Edda: Við urðum herbergissystur á heimavistinni í ML ásamt Elínborgu og Valborgu og varð það gott sambýli. Sigrún hugsaði fyrst og fremst um námið, en var kát og glöð alla jafna og tók fullan þátt í ærslum okkar hinna. Valborg minnist kvöldvöku á Laugarvatni, þar sem Sigrún las upp ljóð. Flutti hún þau af næmleika og hógværð, sem ekki gleymist. Elínborg segir það hafa verið mikils virði að geta leitað til Sigrúnar, þegar illa gekk að skilja eðlisfræðina eða stærðfræðin, hún hafði lag á að útskýra hlutina svo vel að allt lá ljóst fyrir. Hólmfríður rifjar upp: Ég var svo heppin að vera með Sigrúnu í verklegu eðlisfræðinni hjá okkur, en þar voru tveir nemendur saman og skiluðu skýrslu um hverja tilraun. Það var frábært þar sem hún útskýrði ljúflega það sem vafðist fyrir mér og þar að auki tók hún svo skemmtilega til orða, til dæmis var alltaf hrært í upplausnum með þvöru. Sigrún byrjaði í máladeild á Laugarvatni, en ákvað að vertera á miðjum vetri. Því fylgdi mikil vinna og sat hún þá við á kvöldin og vann upp námsefnið. Allt skilaði þetta góðum árangri, sem Sigrún fylgdi eftir allt til loka. Hún lauk stúdentsprófi úr stærðfræðideild ein kvenna úr þessum árgangi og dúxaði þar eins og áður í Reykholti.

Valborg rifjar upp: Sigrún var hlý í framkomu, skapgóð og forkur dugleg. Sumarið eftir stúdentspróf fór ég sem kaupakona að Syðstu-Fossum. Móðir Sigrúnar átti við sjúkleika að stríða og var á sjúkrahúsi. Húsmóðurhlutverkið hvíldi á herðum Sigrúnar og fylgdi því mikil vinna. Sigrún vann frameftir á kvöldin, þegar aðrir sváfu og hafði ótrúlegt þrek. Aðeins einu sinni sá ég hana skipta skapi, en þá hafði mjólkursamlagið enn einu sinni sent stóran skyrpakka í einum brúsanna. Hún sagði ekkert, en skellti hressilega brúsalokinu. Þetta var vaninn, ef mjólk var meiri en samlagið þurfti. Við borðuðum mikið skyr þetta sumar, sem áreiðanlega gerði okkur gott.

Strax um haustið 1958 fór Sigrún til náms í Lundi og hafði föðurbróðir hennar Magnús Gíslason, sem mörgum er kunnur vegna framlags til norrænnar samvinnu, undirbúið og skipulagt þá byrjun. Sigrún tók breiða náttúrufræðilínu með aðaláherslu á jurtalíffræði og vann á sumrin við gróðursetningu og rannsóknir á gróðri í fjallahéruðum Svíþjóðar, sem hún bar saman við íslenska flóru. Á námsárunum kynntist Sigrún mannsefninu sínu, honum Lars-Erik, og hófu þau búskap á stúdentagarði í Lundi.

1968 flutti fjölskyldan til Íslands. Gunnar, elsta barnið, var kominn í heiminn og ólst hér upp fyrstu þrjú árin. Sigrún kenndi í Menntaskólanum í Hamrahlíð og okkur saumaklúbbssystrum gáfust kærkomin tækifæri til að endurnýja gömul kynni. Við bættum líka við barnfóstrutengingum. Kristín dóttir Erlu gætti Gunnars hér á Íslandi og reyndar fengu Ása Lóa og Ingvar líka íslenska barnfóstru, þegar Kristín var sumarlangt hjá Sigrúnu og Lars-Erik í Svíþjóð 1975.

Sigrún og fjölskylda fluttu aftur til Svíþjóðar 1971 og þau Lars-Erik helguðu krafta sína lýðháskólanum í Fränsta og varð það þeirra lífsstarf. Fjölskyldan stækkaði, Ása Lóa fæddist ári eftir komuna til Svíþjóðar og Ingvar kom í heiminn 1974.

Sigrún var trygg sínum uppruna og fjölskyldan heimsótti ættingja í Borgarfirði og vini og bréfaskriftir sáu líka til þess að sambandið milli okkar vinkvennanna rofnaði ekki. Elínborg og Sigrún skrifuðust á alla tíð eftir að Sigrún flutti til Svíþjóðar og Ella minnist þess að 2007 heimsóttu hún og Palli ásamt Sigríði dóttur þeirra Sigrúnu og Lars-Erik í Fränsta. Var það að sumri til og bar blómskrúðið í stofunni, blómaskálanum og í garðinum vitni frábærri umhirðu Sigrúnar.

Það var svo rökrétt tenging, þegar Sigrún átti sjötugsafmæli í júní 2008 og útskriftarhópurinn frá Laugarvatni hélt upp á 50 ára stúdentsafmæli í sama mánuði að slá þessu saman og fara í afmælisferð til Svíþjóðar. Við fórum til Vesterås, þar sem Gunnar býr og hittum Sigrúnu og aðra úr fjölskyldunni hjá honum. Gunnar og Hilde kona hans héldu okkur dýrðlega garðveislu, og má segja að veður, veitingar og viðmót hafi haldist í hendur, svo enn slær ljóma á í minningunni. Haldnar voru mátulega hátíðlegar ræður, sungið og kveðið. Var þá börnum Sigrúnar kynntur sá íslenski siður að þakka fyrir veittar velgjörðir með versi Hallgríms: Nú er ég glaður á góðri stund, sem á mér sér. Guði sé lof fyrir þennan fund og vel sé þeim sem veitti mér.

Minnisstæð verður okkur líka dagssigling á Mälaren daginn fyrir afmælisveisluna, þar sem Sigrún bar sig ótrúlega vel, þrátt fyrir alvarleg veikindi, sem herjað hafa á hana í 13 ár.

Síðasti kaflinn í bréfaskiptum okkar vinkvennanna var svo þegar Sigrún skrifaði okkur 26. apríl í ár frá líknardeildinni í Sundsvall. Hún sagðist hafa það eins gott og hægt væri að vænta sér, dásamaði útsýnið úr glugganum sínum yfir vatnið og skóginn og lýsti hvernig fyrstu vorblómin væru að skjóta upp kollinum.

Við vottum aðstandendum Sigrúnar í Svíþjóð og á Íslandi okkar dýpstu samúð og erum fullar þakklætis fyrir þær ljúfu, björtu minningar, sem kær skólasystir og vinkona skilur eftir hjá okkur.


Edda, Elínborg, Valborg, Erla, Hólmfríður, Hulda og Auður.

Edda, Elínborg, Valborg, Erla, Hólmfríður, Hulda og Auður.