Rætt um sambúðarvanda sjávarútvegs og iðnaðar á iðnþingi Gjaldtaka í sjávarútvegi þáttur í frambúðarlausn - sagði Þórður Friðjónsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar ÞÓRÐUR Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, lýsti því yfir á Iðnþingi í gær að gjaldtaka...

Rætt um sambúðarvanda sjávarútvegs og iðnaðar á iðnþingi Gjaldtaka í sjávarútvegi þáttur í frambúðarlausn - sagði Þórður Friðjónsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar

ÞÓRÐUR Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, lýsti því yfir á Iðnþingi í gær að gjaldtaka í sjávarútvegi fyrir nýtingarrétt af auðlindinni hljóti að verða þáttur í frambúðarlausn á sambúðarvanda iðnaðar- og sjávarútvegs. Sighvatur Björgvinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kvaðst einnig telja skynsamlegt að taka upp veiðileyfagjald þegar hagur sjávarútvegsins færi að batna á ný. Þá sagði Haraldur Sumarliðason, formaður Samtaka iðnaðarins, í samtali við Morgunblaðið sömuleiðis að taka eigi upp veiðileyfagjald til sveiflujöfnunar í efnahagslífinu.

"Margsinnis hefur verið á það bent að hagkvæmasta leiðin til að leysa sambúðarvanda iðnaðar og sjávarútvegs sé að beita einhvers konar gjaldtöku fyrir nýtingarrétt á auðlindinni," sagði Þórður Friðjónsson m.a. í ræðu sinni. "Enginn vafi er á því í mínum huga að slík gjaldtaka í einhverju formi hlýtur að verða þáttur í frambúðarlausn þessa máls. Hvernig slíkri gjaldtöku verður komið á og útfærsla hennar skiptir hins vegar meginmáli. Sjávarútvegurinn verður að sjálfsögðu að fá ráðrúm til þess að koma fjárhagsstöðu sinni í viðunandi horf áður en þungar byrðar eru á hann lagðar í formi nýrrar gjaldtöku. Það er einfaldlega sameiginlegt hagsmunamál greinanna að fjárhagur sjávarútvegsfyrirtækja sé nógu sterkur til þess að þau geti í aðalatriðum sjálf aðlagað sig síbreytilegum skilyrðum án afskipta stjórnvalda.

Sú leið sem oft hefur verið nefnd að leggja á auðlindagjald og lækka um leið gengi krónunnar til þess að ofbjóða ekki fjárhag sjávarútvegsfyrirtækja á varla við eins og ástand og horfur í þjóðarbúskapnum eru nú metnar. Raungengi krónunnar er lágt um þessar mundir og engin efnahagsleg rök eru fyrir frekari lækkun raungengisins. Verkefnið er því ekki að lækka raungengi krónunnar frekar en orðið er heldur koma í veg fyrir að það hækki um leið og skilyrði þjóðarbúsins batna."

Hann vék einnig að Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins, en í undirbúningi er að fella niður lögin um þann sjóð. "Ég tel að það væru slæm hagstjórnarmistök að fella úr gildi þessi lög án þess að leggja fyrst grunn að því að nota næstu uppsveiflu í því skyni að efla fjárhag sjávarútvegsfyrirtækja og viðhalda hagstæðum starfsskilyrðum iðnaðar og annarra greina sem eru næmar fyrir sveiflum í þjóðarbúskapnum."

Sjá einnig frásögn af Iðnþingi bls. 22 og 23.