— Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is ÁTTA óskuldbindandi tilboð bárust í 49 prósenta hlut í Skeljungi ehf., en hluturinn er í eigu Íslandsbanka og hefur bankinn hann til sölumeðferðar.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

ÁTTA óskuldbindandi tilboð bárust í 49 prósenta hlut í Skeljungi ehf., en hluturinn er í eigu Íslandsbanka og hefur bankinn hann til sölumeðferðar.

Þeim sem áttu sex hæstu tilboðin verður gefinn kostur á frekari þátttöku í söluferlinu og munu fá aðgang að nánari upplýsingum um starfsemi og fjárhag fyrirtækisins. Skuldbindandi tilboðum á svo að skila til bankans í síðasta lagi næstkomandi mánudag, 21. desember. Ekki er vitað hverjir skiluðu inn tilboðum eða hverjum var boðið að halda áfram.

Eins og áður segir á Íslandsbanki 49 prósenta hlut í Skeljungi, en 51 prósent er í eigu Skel Investments ehf. Það félag er aftur í eigu eignarhaldsfélagsins AB 190 ehf.

Stærsti hluthafi AB 190, með 48 prósenta hlut, er Eygló Björk Kjartansdóttir, eiginkona Birgis Þórs Bieltvedt.

Hlutirnir sölutryggðir

Birgir er stjórnarformaður AB 190 ehf. og Skel Investment ehf. Guðmundur Örn Þórðarson og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir eiga hvort um sig 24 prósent í AB 190.

Birgir, Guðmundur og Svanhildur sitja jafnframt í stjórn Skeljungs og er Guðmundur formaður stjórnar félagsins.

Þessi 51 prósent voru seld í ágúst 2008, en forveri Íslandsbanka, Glitnir, hafði sölutryggt hluti í félaginu þegar Fons, félag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, hafði reynt að selja Skeljung.

Kaupverðið var á þeim tíma ekki gefið upp, en í ársreikningi Skeljar eru eignarhlutir í félögum, það er Skeljungi og fasteignahluta Skeljungs, S Fasteignum ehf., metinn á 3,4 milljarða króna og er þar miðað við kostnaðarverð.

Í september 2009 var ríflega 1,19 milljarða skuld Skeljar við AB 190 breytt í hlutafé. Hlutafé Skeljar var því hækkað úr 500.000 krónum í 1.191.720.000 krónur. Þá skuldar Skel Íslandsbanka rúma 1,5 milljarða króna, með veð í bréfum félagsins í Skeljungi og S Fasteignum.