STJÓRN Ástralíu stefnir að lögum um að síur verði settar í allar tölvur til að hindra aðgang að vefsíðum sem innihalda glæpsamlegt efni, t.a.m. barnaklám, myndir af nauðgunum eða upplýsingar um hvernig nota eigi fíkniefni.

STJÓRN Ástralíu stefnir að lögum um að síur verði settar í allar tölvur til að hindra aðgang að vefsíðum sem innihalda glæpsamlegt efni, t.a.m. barnaklám, myndir af nauðgunum eða upplýsingar um hvernig nota eigi fíkniefni.

Stephen Conroy, ráðherra fjarskiptamála í stjórninni, sagði að sérstök nefnd yrði skipuð til að ákveða hvaða vefsetur yrðu bönnuð. Nefndin ætti að taka mið af kvörtunum frá almenningi.

Conroy sagði að sjö mánaða tilraunir með síurnar hefðu leitt í ljós að hægt væri að hindra aðgang að bönnuðum vefsíðum með 100% nákvæmni án þess að það hefði veruleg áhrif á tengihraðann. Netþjónustufyrirtæki gætu einnig fengið opinbera styrki til að bjóða upp á viðbótarsíur, t.d. til að hindra aðgang að netspilavítum, en þau yrðu ekki skylduð til þess.

Hreyfingar netnotenda hafa lagst gegn áformunum, m.a. vegna þess að þær telja slíkar síur geta grafið undan tjáningarfrelsinu. Ein hreyfinganna, Electronic Frontiers, segir að áformin veki spurningar um hvað sé réttlætanlegt að banna og hverjir eigi að ákveða það. „Þetta eru síur sem hindra aðeins aðgang fyrir slysni að bönnuðu efni,“ segir talsmaður hreyfingarinnar. „Þeir sem ætla sér að komast framhjá síunum geta það hæglega.“

Stjórn Verkamannaflokksins hyggst leggja fram lagafrumvarp um síurnar í ágúst á næsta ári. Hann er ekki með meirihluta á þingi Ástralíu og þarf því að reiða sig á stuðning Græna flokksins sem hefur efasemdir um síurnar.

Stjórn Kína ákvað í júlí að fresta áformum um að láta setja síur í allar tölvur, sem seldar eru þar í landi, vegna harðra mótmæla. bogi@mbl.is